12.3 C
Selfoss

„Basically hið fullkomna fimmtudagskvöld“

Vinsælast

Morgunþátturinn Ísland Vaknar á K100 verður á Sviðinu, Selfossi fimmtudaginn í kvöld, 13. júní kl. 20:00. Þar verða Bolli Már, Kristín Sif og Þór Bæring í geggjuðum gír. Pöbbkviss, tónlist, gleði og gaman, frábærir vinningar í boði og frítt inn. Á föstudagsmorgun verður Ísland Vaknar svo í beinni úr Mjólkurbúinu mathöll þar sem fjörið heldur áfram.

„Heimsóknin á Selfoss er partur af verkefninu Við elskum Ísland .K100 leggur land undir fót og fer í sitt árlega sumarverkefni sem er Við elskum Ísland. Sumarið fer í að heimsækja fallega landið okkar, skoða áhugaverða staði og hitta áhugavert fólk og Selfoss er okkar fyrsti áfangastaður,“ segir Bolli Már kátur í samtali við DFS.is.

Stefán Jakobsson, söngvari hljómsveitarinnar Dimmu ásamt Þór, Kristínu og Bolla á góðri stund.

„Ógeðslega létt og skemmtilegt“

„Við ætlum að spjalla saman og við áhorfendur á sviðinu, taka nokkra stemmingsliði úr þættinum og svo brestur á pöbbkviss með frábærum vinningum. Þegar við erum búin tekur við trúbador. Þetta verður bara ógeðslega létt og skemmtilegt, ekki of langt – „basically“ hið fullkomna fimmtudagskvöld,“ bætir Kristín Sif við og brosir.

Aðspurð hvernig þau undirbúi heimsóknir á borð við þessa segir Þór Bæring: „Við skoðum fréttir og málefni líðandi stundar, finnum áhugaverða hluti, viðmælendur og sögur. Erum með lifandi skjal sem við fyllum í sameiningu inn í fyrir hvern dag/þátt.“

„Þema þáttarins verður Selfoss, upplifum staðinn og fólkið daginn áður og verðum með skemmtilega viðmælendur daginn eftir í beinni útsendingu. Svo ágæti lesandi, endilega heyrðu í okkur ef þú býrð á Selfossi og ert með gott umræðuefni eða viðmælenda,“ bætir Bolli Már við.

Öll eru þau sammála um að þeim líði best í beinni útsendingu. „Að tala um eitthvað sem kveikir í okkur öllum, það er mesti galdurinn við að vera í útvarpi. Svo er frábært að opna fyrir símann og vera í samskiptum við hlustendur.“

Súr en góð samskipti

Þá segja þau samskipti sín á milli, innan sem utan vinnustaðarins vera góð. „Þau eru oft súr, á góðan hátt, enda hittumst við alla morgna og spjöllum mikið saman. En okkur þykir hvert annað skemmtilegt, sem er forsenda fyrir því að þetta virki. Fólk á það til að skjóta mikið á hvort annað bæði í beinni og „off air“ en það er bara partur af þessu. Þór Bæring er límið í hópnum, óhætt að segja það,“ segir Kristín Sif.

Aðspurð um áhugaverðar sögur frá útvarpsferlinum segir Bolli að hann sé svo nýbyrjaður í þessum bransa að útvarpssögurnar séu fáar. „Kristín og Þór eru ansi reynd og hafa upplifað margt í þessum bransa. Þú, lesandi góður, þarft bara að mæta á Skemmtikvöldið á Sviðinu kl. 20:00, 13. júní og þá færðu sögur beint í æð,“ bætir Bolli Már brosandi við.

Nýjar fréttir