5 C
Selfoss

Áfram gakk

Vinsælast

Bæjarmálafélagið Áfram Árborg hefur hafið meirihlutasamstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Við erum full af eldmóði fyrir því að leggja okkar af mörkum til að tryggja hag íbúa sveitarfélagsins. Við hjá Áfram Árborg þökkum Fjólu Steindóru Kristinsdóttur kærlega fyrir frábær störf sem bæjarstjóri sl. tvö ár og óskum henni farsældar í framtíðinni.

Í ljósi stöðunnar sem upp var komin, töldum við samstarf okkar við Sjálfstæðisflokkinn farsælasta kostinn fyrir íbúa Árborgar.  Samstarf við Sjálfstæðisflokkinn hefur gengið vel það sem af er þessa kjörtímabils og stefnumál þessara tveggja flokka eiga mikinn samhljóm. Við erum vaxandi sveitarfélag með mikil tækifæri en höfum átt í þungu og erfiðu verkefni vegna fjárhagsstöðu þess. Sú vinna hefur gengið ágætlega en er alls ekki lokið.

Okkur fannst þess vegna mikilvægt að tryggja það að stjórn sveitarfélagsins héldi snurðulaust áfram. Það verður að veruleika með því að mynda traustan meirihluta hratt og vel og gera eins litlar breytingar á bæjarstjórn og hægt er undir þessum kringumstæðum.

Við gerðum ákveðnar kröfur fyrir samstarfinu sem gengið var að, m.a. að laun formanns bæjarráðs yrðu lækkuð töluvert en fyrir kunnuga þá var ekki kveðið á um lækkun launa formanns bæjarráðs í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2024. Margar hugmyndir voru ræddar um sparnað í störfum yfirstjórnar sveitarfélagsins en engar ákvarðanir teknar þar um. Þetta geta allir kynnt sér með því að skoða samþykkta fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið. Við gerum ekki lítið úr þeirri vinnu sem hefur áunnist á undanförnum tveimur árum en teljum vel mögulegt í dag að aðlaga verkefni formanns bæjarráðs að lægra hlutfalli. 

Nýr málefnasamningur liggur fyrir sem báðir flokkar eru ánægðir með, sérstaklega þýðingu hans fyrir íbúa sveitarfélagsins og fjárhag. Þar sem aðeins tvö ár eru eftir af kjörtímabilinu erum við raunsæ. Við erum með fá verkefni en ætlum að klára þau og gera það vel.

Við erum bjartsýn á samstarfið og segjum áfram gakk, áfram Árborg. f.h. Bæjarmálafélagsins Afram Árborgar, Álfheiður Eymarsdóttir, oddviti.

Nýjar fréttir