8.9 C
Selfoss

Rekstur Hveragerðisbæjar styrkist

Vinsælast

Niðurstaða ársreiknings Hveragerðisbæjar fyrir árið 2023 leiðir í ljós að rekstur bæjarins styrkist á milli ára. Afkoman sýnir að sveitarfélagið er vel í stakk búið til að standa undir skuldbindingum sínum við íbúa sveitarfélagsins, og um leið viðhalda nauðsynlegri innviðfjárfestingu, sem hefur verið í forgangi þetta kjörtímabil.

Traustur og ábyrgur rekstur er mikilvæg undirstaða fyrir þann mikla og eftirtektarverða vöxt sem nú stendur yfir í sveitarfélaginu og forsenda þess að Hveragerðisbær geti staðið undir þeim miklu innviðafjárfestingum sem eru nauðsynlegar í svo örum vexti

Rekstur ársins 2023 sýnir fyrst og fremst að sveitarfélagið er tilbúið að standa undir áskorunum næsta árs og komandi ára á ábyrgan og framsækinn hátt.

Í samandregnum lykiltölum er niðurstaða ársins 2023 eftirfarandi;

Rekstrarniðurstaða sveitarsjóðs (A-hluta) er jákvæð um 25 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu upp á 111 m.kr.
Rekstrarniðurstaða í samanteknum rekstrarreikningi A og B hluta er neikvæð um 28 m.kr. en í fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu að fjárhæð 113 m.kr.
Heildartekjur A og B hluta eru 5.067 m.kr. og heildarútgjöld án fjármagnsliða og afskrifa 4.448 m.kr.
Afskriftir eru 147 m.kr. og er því rekstrarafkoma fyrir fjármagnsliði hjá A og B hluta 471 m.kr en áætlun var 307m.kr.
Fjármagnsliðir eru 499 m.kr en áætlun gerði ráð fyrir 420 m.kr í fjármagnsliði.
Helstu frávik frá fjárhagsáætlun er innlausn tekna vegna gatnagerðar upp á 116 m.kr., Gjaldfært var uppgjör vegna lífeyrissjóðsskuldbindingu Brúar, A-deild upp á kr. 48 m.kr. og gerð var niðurfærsla á óinnheimtar tekjur upp á 66 m.kr.
Önnur atriði sem gera frávik frá fjárhagsáætlun eru að tekjur eru 458 m.kr. umfram fjárhagsáætlun, og annar rekstrarkostnaður er 314 m.kr yfir. Launakostnaður er undir fjárhagsáætlun um 83 m.kr.
Hækkun vísitölu var mun meiri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Hækkun vísitölu á árinu 2023 var 7,9% en gert var ráð fyrir 5,6% hækkun. Slíkar hækkanir á vísitölu hafa mikil áhrif á rekstrarniðurstöðu allra sem skulda.
Veltufé frá rekstri A og B hluta nam um 650 m.kr. eða 12,8% af heildartekjum. Handbært fé frá rekstri var 727 m.kr. en í áætlun var gert ráð fyrir 377 m.kr og árið 2022 var það 118 m.kr.
Handbært fé frá rekstri eykst um kr. 609 m.kr á milli ára.
Næsta árs afborganir langtíma lána og leiguskulda er 394 m.kr og dugar því handbært fé frá rekstri vel til að greiða það niður.
Fjárfestingar á árinu 2023 námu 846 m.kr. Afborganir langtímalána og afborganir leiguskuldar vegna Sunnumarkar/Breiðumerkur nema 391 m kr. Lántaka langtíma lána hljóðaði upp á 600 m.kr.
Skuldaviðmið nam 100% í árslok 2023 en það er skuldahlutfall að teknu tilliti til útreikninga samkvæmt 14. gr. reglugerðar 502/2012. Við útreikning á skuldaviðmiði er búið að lækka stofn skulda um greiðslur lífeyrisskuldbindinga eftir 15 ár og síðar, hreins veltufjár og langtímahluta fyrirframgreiðslu til BRÚ fyrir útreikning.

Rekstur sveitarfélags er samvinnuverkefni og góð niðurstaða ársreiknings Hveragerðisbæjar árið 2023 er ekki síst tilkomin vegna starfsfólks bæjarfélagsins, sem er þakkað fyrir sitt framlag.

Nýjar fréttir