5.6 C
Selfoss

Frá Selalæk í sviðsljósið

Vinsælast

Leiklistarneminn Birta Sólveig Söring Þórisdóttir var valin í hlutverk Auðar í söngleiknum Litlu Hryllingsbúðinni sem Leikfélag Akureyrar setur upp í haust. Um 60 frábærar leikkonur mættu í áheyrnarprufur, sem fram fóru bæði á Akureyri og í Reykjavík, samkvæmt frétt frá Menningarfélagi Akureyrar en Birta, sem hefur augljóslega náð að heilla Akureyringana upp úr skónum, kemur til með að útskrifast úr leikaranámi við Listaháskóla Íslands í vor.

Fjölskyldan á góðri stund. Guðný, Þráinn, Þórir, Sesselía og Birta.

„Fann mikið frelsi fyrir því að geta verið ég sjálf heima“

Birta ólst upp á sveitabænum Selalæk í Rangárþingi ytra, í nágrenni við Hellu, ásamt systkinum sínum Sesselíu og Þráni. Foreldrar þeirra eru Þórir Jónsson og Guðný Söring Sigurðardóttir. „Sem barn var ég stuðbolti og hafði litlar áhyggjur af því hvað öðrum fannst um mig, fann mikið frelsi fyrir því að geta verið ég sjálf heima. Við fjölskyldan fórum árlega í Reykjavíkurferð sem innihélt yfirleitt tannlæknaskoðun og leikhússýningar, en þar eru Ávaxtakarfan og Lína Langsokkur mér afar hugleiknar. Ég var með stjörnur í augunum þegar ég fékk að fara í leikhús. Þetta var eins og töfraheimur fyrir mér. Þegar heim var komið upplifði ég mig sem persónu úr leikritunum í þónokkra daga. Systkinin mín höfðu ekki alltaf mikla þolinmæði fyrir því, en mér fannst bara eitthvað svo geggjað við að vera manneskjan sem ég sá á sviðinu eða í sjónvarpinu, ég get ekki útskýrt það betur en það. Fyrsta hlutverkið sem ég lék var bangsastrákurinn í Dýrunum í Hálsaskógi sem var sýnt í Njálsbúð árið 2010. Þá var ekki aftur snúið. Ég elskaði þetta!“ Segir Birta í samtali við Dagskrána.

Dýrin í Hálsaskógi í Njálsbúð, Birta bangsi litli ásamt pabba sínum, Þóri Jónsyni.

Birta hefur meðal annars tekið þátt í tveimur uppsetningum hjá Leikfélagi Selfoss, Á vit ævintýranna og Djöflaeyjunni og segist þykja ómetanlegt hve metnaðurinn hjá leikfélaginu sémikill og tekur fram að hún sé gífurlega þakklát fyrir þeirra góðu störf og bætir við að auk sviðslistanna, sem eigi hug hennar flesta daga, séu prjónarnir og heklunálarnar sjaldan langt undan og að hún sæki sér gjarnan næringu úr útivist, þá helst göngu- og gönguskíðaferðum.

Frítt inn á útskriftarsýninguna

„Nú er ég að útskrifast úr draumanáminu mínu í vor. Ég fékk þau forréttindi að komast inn í bekk með kærastanum mínum, Nikulási Hansen Daðasyni frá Skeiða- og Gnúpverjahreppi, og erum við að fara að frumsýna Kirsuberjagarðinn eftir Anton Chekov sem útskriftasýninguna okkar með leikarabekknum í Listaháskóla Íslands. Edda Björg Eyjólfsdóttir leikstýrir verkinu sem verður sýnt í Kassanum í Þjóðleikhúsinu og munum við sýna verkið 10 sinnum frá 23. maí-1. júní. Öllum er velkomið að mæta, það er hægt að fá aðgöngumiða á Tix.is og það besta er að það er frítt inn,“ segir Birta.

Parið Birta og Nikulás á góðri stund.

Aðspurð um hvernig tilfinning það er að fá svona stórt hlutverk í beinu framhaldi af útskrift segir Birta að tilhugsunin um að fá að vinna í leikhúsinu á Akureyri sé stórkostleg, og brosir út að eyrum. „Allt fólkið í kringum þetta verkefni eru svo miklar fyrirmyndir fyrir mér og ég hef alltaf dást að Akureyri og leikfélaginu. Það hefur verið á „bucket“ listanum mínum að prófa að búa fyrir norðan þannig fyrir mér er ég að slá tvær flugur í einu höggi. Svo ofan á allt fæ ég að vinna á móti vini mínum Kristni Óla sem leikur Baldur. Hann er svo mikill snillingur.“

Forréttindi að fá að vera málpípa Auðar

„Auður er ástfangin af Baldri. Hana dreymir um einfalt líf með honum en finnst hún ekki eiga það skilið. Baldri líður eins. Vegna þess er hún með tannlækninum, sem kemur ekki svo vel fram við hana, þangað til plantan (Auður II) kemur til sögunnar. Nokkrir hafa sagt mér að Litla Hryllingsbúðin sé þeirra uppáhalds söngleikur og þykir mér algjör forréttindi að fá að vera málpípa hennar í þetta sinn. Ég held að mesta sóknarfærið mitt við hlutverk Auðar verðiháu hælarnir. Hún er svo mikil skvísa,“ bætir Birta við.

Birta segir leikarabrautina í Listaháskólanum hafa gefið henni mörg mismunandi verkefni frá nokkrum mismunandi leiktæknum sem hún geti alltaf gripið í þegar hún verður óörugg með leiktúlkunina sína. „T. d. Að persónan þín hafi alltaf erindi á sviðinu, að allt gerist út frá sannleika og leikgleði. Ég held það gæti komið mér til góðs fyrir þessa leiksýningu.“

Birta í uppsetningu af verkinu Oedipus í Listaháskólanum.

„Ég lít mjög upp til kennara minna í Listaháskólanum, t. d. Halldóru Geirharðsdóttur, Hannesar Óla Ágústssonar og Hilmis Jenssonar og svo mætti lengi telja. En þau tóku á móti manni opnum örmum þegar maður komst inn í námið.“

Aðspurð um ráð fyrir þau sem hafa áhuga á leiklistarnámi segir Birta að maður tapi engu á að prófa. „Það er gott að líta á inntökupróf í leiklistarskólum sem námskeið og stað fyrir þig til að athuga hvort þú sjálf/ur/t viljir vera í þessu námi. Ef þú færð neitun þá er hentugt að sækja um námskeið hérlendis eða erlendis, t. d. spunanámskeið Improv Ísland, söngnámskeið eða fara í lýðháskóla. Það er allavega það sem ég gerði eftir að hafa fengið neitun í fyrsta skiptið sem ég sótti um í draumanámið,“ segir Birta að lokum.

Nýjar fréttir