5.6 C
Selfoss

Hrifinn af bókum sem víkka sjóndeildarhringinn

Vinsælast

…segir lestrarhesturinn Skúli Gíslason

Skúli Gíslason er 34 ára þriggja barna faðir, trommuleikari og lestrarhestur. Hann hefur lesið mikið frá unga aldri en lesturinn náði nýjum hæðum þegar Harry Potter kom inn í líf hans þegar hann var 11 ára gamall.

Hvað bækur ertu núna lesa?

Ég er alltaf að kjamsa á nokkrum bókum í einu og gríp í þær á víxl eftir því í hvernig stuði ég er. Ég er með Shōgun eftir James Clavell láni frá mömmu og finnst hún mjög áhugaverð. Flott innsýn í samfélag og menningu samúræja í Japan á 18. öld sögð frá sjónarhorni ensks skipstjóra sem strandar þar. Önnur bók sem ég gríp mikið í núna er The Creative Act eftir Rick Rubin. Höfundurinn er einn þekktasti tónlistarpródúsent allra tíma og mjög andlega þenkjandi náungi. Í bókinni fjallar hann um margar hliðar þess þegar sköpun á sér stað, en það mætti alveg eins segja að bókin sé handbók fyrir núvitund. Algjört meistaraverk að mínu mati.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Í gegnum tíðina hef ég líklega lesið mest af fantasíuskáldsögum eins og Hringadróttinssögu, Stormlight Archive eftir Brandon Sanderson og Game of Thrones. Sá áhugi byrjaði þegar ég las fyrstu Harry Potter bókina ellefu ára og gjörsamlega spændi mig í gegnum hana. Fjórðu bókina í þeirri seríu fékk ég svo á ensku þegar hún kom út og ég á henni líklega að þakka enskukunnáttu mína í dag að stóru leyti.

Varstu alinn upp við lestur bóka?

Já það var mikið lesið fyrir mig sem barn. Ég man sérstaklega eftir bókunum Óðfluga og Heimskringlu eftir Þórarinn og Sigrúnu Eldjárn. Virkilega sniðugur texti hjá Þórarni og skemmtilegar myndir hjá Sigrúnu. Jón Oddur og Jón Bjarni voru líka í uppáhaldi. Nú á ég orðið börn sjálfur og hef fengið að enduruppgötva barnabækur eins og gerist og þar er Litli prinsinn eftir Antoine de Saint-Exupéry og sögur um Múmínálfana eftir Tove Jansson í uppáhaldi.

Segðu í stuttu máli frá lestrarvenjum þínum.

Ég er mjög kaótískur lestrarhestur. Stundum les ég ekkert í viku en spæni svo upp 1200 blaðsíðna bók þá næstu. Yfirleitt les ég samt uppi í rúmi fyrir svefninn og smá yfir daginn ef færi gefst.

Einhverjir uppáhaldshöfundar?

Brandon Sanderson er í miklu uppáhaldi og þá bækur á borð við Stormlight Archive og Mistborn. Í fantasíuskáldsögum búa höfundar oft til nýja heima sem eru með önnur lögmál en heimurinn sem við búum í, en það er mjög erfitt að gera það án þess að skilja eftir lausa enda eða að láta hlutina ekki alveg ganga upp. Sanderson gerir þetta manna best að mínu mati, en heimurinn sem hann býr til er svo ótrúlega heillandi og sérstakur að maður tínir sér gjörsamlega í honum.

Hefur bók einhvern tímann rænt þig svefni?

Já ég man að ég fórnaði talsverðum svefni í að lesa Stormlight Archive langt fram á nótt.

Hvernig bækur myndir þú skrifa sem rithöfundur?

Ég sé kannski helst fyrir mér að ég myndi skrifa eitthvað sjálfshjálpartengt. Ég hef lengi haft mikinn áhuga á slíkum bókum sem víkka sjóndeildarhringinn á einhvern hátt og hjálpa manni að verða betri útgáfa af sjálfum sér. Ekki halda niðri í ykkur andanum samt.

Nýjar fréttir