0 C
Selfoss

Laus úr þoku liþíumeitrunar

Vinsælast

Sjøfn Har í Hveragerði heldur sína fyrstu einkasýningu í 6 ár

Myndlistarmaðurinn Sjøfn Har mun opna sína fyrstu einkasýningu í 6 ár í sal Sjálfstæðismanna að Mánamörk 1 í Hveragerði laugardaginn 11. maí nk, en hún flutti úr Garðabæ til Hveragerðis árið 2021. Sjøfn er mörgum kunn fyrir myndlist sína sem prýtt hefur fjölmarga sýningastaði víða um heim, meðal annars í miðborg Manhattan í New York fylki. Á sýningunni, sem jafnframt er sölusýning og verður opin frá fim-sun á milli kl 14-18, ber að líta fjölbreytt verk sem eru úr einkasafni Sjafnar og ber sýningin heitið Krossgötur, kafað í kisturnar mínar. „Nafnið Krossgötur kom til vegna þess að ég stend á krossgötum, það er nokkuð víst að ég nái ekki aftur að mála eins og ég er þekkt fyrir, þessar löngu strokur, sökum þess að öxlin á málarahendinni laskaðist eftir mikil meiðsl sem ég varð fyrir síðasta sumar. Ég er sömuleiðis að koma út úr liþíumeitrun sem hefur dregið orkuna mína og sköpunarkraft niður og haldið mér í þoku síðustu 9 ár. Ég var orðin óskrifandi og gat ekki borðað með hníf og gaffli, hvað þá málað, vegna þess hve hendurnar á mér hríðskulfu. Það var loksins gripið inn í þetta ástand af læknum í lok nóvember. Ég er því á batavegi, þokunni er loksins létt, orkan er komin aftur og ég ákvað því að opna kisturnar mínar og halda þessa sýningu,“ segir Sjøfn í samtali við Dagskrána.

„Mig langar líka að þakka Valgarð í Gróðurhúsinu sérstaklega fyrir að ætla að bjóða sýningargestum mínum drykkjarföng við opnunina og sömuleiðis öllum sýningagestum 20% afslátt í Cafe og happy hour á barnum,“ bætir Sjøfn við og brosir sínu breiðasta.

Nýjar fréttir