2.8 C
Selfoss

Enskumælandi ráð í Mýrdalshrepp er handhafi Landstólpans

Vinsælast

Landstólpinn var afhentur ráðinu á ársfundi Byggðastofnunar sem fram fór í Bolungarvík í liðinni viku en var þetta í þrettánda sinn sem viðurkenningin er veitt. Alls bárust 65 tilnefningar til 26 einstaklinga/verkefna víða af landinu.

Landstólpann hafa áður hlotið einstaklingar, fyrirtæki og hópar sem þykja hafa skarað fram úr í verkefnum sínum og störfum en markmið með  Landstólpanum er að efla skapandi hugsun og bjartsýni og viðurkenningin því hugsuð sem nokkurs konar hvatningar- og bjartsýnisverðlaun.

Íbúum í Mýrdalshrepp hefur fjölgað hratt undanfarinn áratug og er fjölgunin að stórum hluta borin uppi af innflytjendum en rúmlega helmingur íbúa í sveitarfélaginu er af erlendu bergi brotinn. Árið 2022 var enskumælandi ráð sett á laggirnar í Vík í ljósi þess að fjöldi erlendra íbúa á kjörskrá fjórfaldaðist í kjölfar breytinga á kosningalögum. Í stað þess að hafa þurft að búa á staðnum í fimm ár til að vera gjaldgeng í sveitarstjórnarkosningum þurfti eingöngu að hafa búið þar í þrjú ár.

Ráðið skipa sjö fulltruar af sex þjóðernum, sem endurspeglar hið fjölbreytta samfélag í Vík en þar býr fólk af um 20 þjóðernum. Viðtökur íbúa við ráðinu hafa verið góðar og var strax  mikill áhugi fyrir því að sitja í ráðinu. Hugmyndinni að ráðinu var komið út í umræðuna fyrir kosningar, haldnir fundir á ensku og kosningaefni gefið út á ensku og íslensku.

Mikilvægt að allir hafi jöfn tækifæri að ákvarðanatöku

Einar Freyr Elínarson sveitarstjóri í Mýrdalshrepp segir að eftir þessar breytingar hafi tilfinningin verið sú að stór hluti samfélagins væri í raun frekar afskiptur og hefði hvorki rödd né tækifæri til að koma sínum hugmyndum á framfæri og taka raunverulega þátt í stefnumótunum og ákvörðunum. „Við erum með fjölmennan hóp erlendra íbúa sem  greiða fulla skatta til samfélagsins og hafa rétt til að kjósa til sveitarstjórna. Sökum aðstæðna hafa ekki allir sömu tækifæri til þess að læra íslensku í ljósi þess að enska er ráðandi tungumál í ferðaþjónustu sem er okkar stærsta atvinnugrein. Okkur þótti mikilvægt jafnréttismál að allir íbúar hefðu raunveruleg tækifæri til þess að eiga aðkomu að stefnumótun og ákvarðanatöku og enskumælandi ráðið er liður í því“ segir Einar Freyr.

Hann segir að þannig sé tryggt að nýir íbúar fái sitt pláss og geti nýtt sína rödd. „Markmiðið var þannig alltaf að leyfa röddum allra íbúa að heyrast, en það er ólíkt hvernig sveitarfélög nálgast þetta málefni. Það er skipað pólítískt í þetta ráð og greitt fyrir setu á fundum á sama hátt og í öðrum ráðum.  Við vildum taka þessu alvarlega og ekki missa þetta í einhvers konar krúttverkefni“ segir Einar Freyr og bætir við „Þetta er vissulega þróunarverkefni, við erumenn að móta verksviðið og málefni. Ráðið ber ábyrgð á málefnum nýrra íbúa í sveitarfélaginu en við vildum ekki afmarka þetta of mikið í byrjun.“

Aukin fræðsla til nýrra íbúa

Lögð hefur verið ahersla a að auka fræðslu til erlendra ibua  frá ýmsum stofnunum svo sem Almannavörnum, HSU og fræðsluneti Suðurlands til að miðla áfram þeirri þekkingu. Einar segir að mikil áhersla hafi verið lögð á að ná utan um hversu mikið íbúar af erlendum uppruna þekkja til þeirrar þjónustu sem sveitarfélagið veitir, og þeir eigi rétt á sem íbúar sveitarfélagins.

Það hefur verið skemmtilegt að sjá hvaða áhrif þessar breytingar á kjörskránni hafa haft, allt í einu var t.d. ný líkamsrækt orðið hitamál í samfélaginu, eitthvað sem áður hafði ekki verið ofarlega í umræðunni en með tilkomu fjölbreytts og stækkandi hóps á aldrinum 20-40 ára komi kröfur um ákveðna þjónustu sem hafi kannski ekki verið ræddar áður. Enskumælandi ráðið aðstoði þannig við að sem flestir íbúar sveitarfélagsins geti haft áhrif á þá þjónustu sem verið er að veita. Einar Freyr telur að vel hafi tekist til í þessu verkefni.

Frá fundi ráðsins.

Fannst ég loks tilheyra

Tomasz Chochołowicz formaður ráðsins tekur i sama streng. Hann sagðist í fyrstu ekki hafa trúað því hversu mikla áherslu ætti að leggja á stofnun þess.  „Ég var smá tíma að átta mig á því að Einari og öðrum í sveitarstjórn væri fúlasta alvara með stofnun ráðsins. Ég var búinn að búa í Vík í átta  ár en fannst ég aldrei  tilheyra að fullu eða geta haft einhver áhrif á samfélagið. Það er frábært að þarna sé kominn vettvangur fyrir íbúa af erlendum uppruna til að hafa áhrif innan stjórnsýslunnar og geta komið sínum hugmyndum á framfæri.“

Tomasz segir það hafa skipt sköpum að sveitarstjórinn og sveitarstjórnin öll hafi tekið virkan þátt frá upphafi. „Einar mætir á alla fundi ráðsins og segir okkur fréttir frá störfum sveitarstjórnar. Við getum á móti  deilt með honum hvernig umræðan er í samfélaginu, hvað brenni helst á þeim íbúum sem við erum í samskiptum við þvi það er mjög mikilvægt að geta talað svona beint saman.“

Því fleiri raddir, því betra

Tomasz segir það með vilja gert að hafa mörg þjóðerni innan ráðsins. Þannig gefi ráðið góða mynd af íbúum Mýrdalshrepps. Það er mikil íbúavelta í Vík og nágrenni, algengt að fólk komi og vinni í 3-4 mánuði og sé svo farið aftur. Þessu eru Einar og Tomasz sammála um að þurfi að breyta. Tomasz segir að nýir íbúar af erlendum uppruna fái sent bréf inn um lúguna, nokkurs konar móttökubréf. Í bréfinu má finna ýmsan fróðleik varðandi búsetu á Íslandi, svo sem hvernig sækja eigi um kennitölu, skattaupplýsingar og önnur atriði sem ráðið telur að gagnlegt sé fyrir nýja íbúa að vita sem fyrst. „Þetta eru upplýsingar sem auka lífsgæði fólks á nýjum stað, eitthvað sem allir þurfa að vita. Við erum lítið samfélag sem stækkar hratt og þurfum allar hendur á dekk. Það er þess vegna gríðarlega mikilvægt að nýir íbúar aðlagist samfélaginu sem best.“ Segir Tomasz Chochołowicz að lokum.

Nýjar fréttir