11.1 C
Selfoss

Pastasalat, Focaccia og Rolo-ostakaka

Vinsælast

Sigríður Jensdóttir er sunnlenski matgæðingur vikunnar að þessu sinni.

Ég vil byrja á því að þakka Jenný fyrir að skora á mig, við erum ansi duglegar að tala um mat þegar við hittumst. 

Ég ætlað að gefa ykkur uppskriftina af pasta salati og brauði og ostaköku í eftirrétt.

Pastasalat

 • 300 g pasta – slaufur, skrúfur eða álíka
 • 6 msk. sólþurrkaðir tómatar í olíu
 • 3 msk. fersk basilika
 • 3 msk. fersk steinselja (ég sleppi þessu stundum, set þá meira af basiliku)
 • 2-3 hvítlauksgeirar
 • 1 dl ólífuolía
 • 2 msk. balsamico-edik
 • 1 tsk. hlynsíróp (ég hef oft notað venjulegt síróp í staðinn)
 • (1-2 msk. grænt – pestó ekki í upprunalegu uppskriftinni, í góðu lagi að sleppa en mér finnst betra með pestó)
 • 4 msk. hakkaðar og ristaðar pekanhnetur eða furuhnetur
 • 80 g pepperóní – best að nota þessar litlu sem fást t.d. í Kosti og Krónunni.
 • 2 msk. grænar ólífur, skornar í bita.
 • 2-3 msk. rifinn parmesan ostur
 • Lítill rauðlaukur skorinn í þunnar sneiðar
 • Klettasalat
 • Nokkrir kirsuberjatómatar skornir í tvennt
 • Salt og pipar

Pastað er soðið í vatni með smá salti eftir leiðbeiningum á pakkanum.

Helmingur sólþurrkuðu tómatanna, helmingur kryddjurtanna, hvítlaukurinn, ólífuolían, balsamicoedikið, sírópið og pestó er látið í matvinnsluvél og mixað í smá stund. Til að auðvelda fyrir er gott að vera búin að skera sólþurrkuðu tómatana í minni bita og kremja hvítlaukinn.

Restin af sólþurrkuðu tómötunum og kryddjurtunum er skorið niður í hæfilega bita.

Þessu er öllu blandað saman við pastað ásamt ristuðum hnetum, pepperóní, ólífum, rauðlauk, klettasalati og kirsuberjatómötum. Saltað og piprað eftir smekk. Að lokum er parmesanostinum stráð yfir allt saman.

Focaccia brauð

 • 1 kg hveiti
 • 30 g hunang
 • 30 g pressuger eða 21 g þurrger
 • 10-15 g fínt salt (passa að setja ekki of mikið ef það er eitthvað í brauðinu sem gefur bragð, t.d. fetaostur eða sólþurrkaðir tómatar)
 • 330 ml volgt vatn
 • 330 ml heitt vatn
 • Ólifuolía
 • Krydd, hvítlaukur, sólþurrkaðir tómatar, fetaostur, ólífur eða það sem manni dettur í hug hverju sinni.

Hveiti sett í skál. Gerið leyst upp í volgu vatni ásamt hunanginu. Þetta sett útí hveitið. Saltið leyst upp í heitu vatni og svo bætt út í hveitið. Ef það á að vera eitthvað í brauðinu eins og sólþ. tómatar (skornir í minni bita) eru þeir settir í áður en er hnoðað. Minnka vatnsmagnið örlítið ef það sem er sett í er blautt.

Hnoða vel (deigið á að vera blautt samt) og láta hefast í lágmark klst. Setja olíu á bökunarplötu, þrýsta deiginu niður svo að þetta verði svona 1,5 cm. þykk „kaka“. Þetta fyllir eiginlega út í plötuna (líka hægt að gera nokkrar minni kökur) Svo er kryddað með olíu+kryddum.

Ég mauka oftast hvítlauk, og blanda með kryddi (timjan, oregano, basilika) og grófu salti og olíu og svo skellti ég þessu ofaná. Svo eru „potað“ með puttunum þannig það verði svona holur og kryddið festist betur. Látið hefast aftur í 45 mín. og svo bakað við 220°C í 15-20 mín, eða þangað til brauðið er fallega brúnt.

Rolo ostakaka

 • 1 pakki af Bastogne LU-kexi (kanilkex)
 • 100 g smjör
 • 300 g rjómaostur
 • 150 g flórsykur
 • 1 tsk. vanilludropar
 • 5 dl rjómi
 • 6 rúllur af Rolo
 • 150 g sýrður rjómi

Byrjið á því að setja smjörpappír í botninn á smelluformi (sirka 26 cm). Bræðið smjörið og myljið kexið. Blandið þessu svo saman og setjið í botninn á forminu.

Hrærið rjómaost, flórsykur og vanilludropa saman. Þeytið rjómann og blandið honum svo saman við ostablönduna. Bræðið 2 rúllur af Rolo (gott að setja örlítið af rjóma með) og hellið út í rjóma og ostablönduna. Hrærið bara létt, þannig að þetta blandist ekki alveg heldur verði „röndótt“. Hellið svo blöndunni ofan á kexmylsnuna og dreifið vel úr henni. Sléttið þetta eins vel og hægt er.

Bræðið sýrðan rjóma og 4 rúllur af Rolo varlega saman yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni. Passið að hita ekki of lengi ef notaður er örbylgjuofn. Látið þetta kólna aðeins og hellið svo yfir kökuna. Kakan er svo fryst þangað til það á að bera hana fram.

Þegar á að bera hana fram er gott að taka hana út smá stund áður. Hægt er að skreyta hana t.d. með bræddu súkkulaði, en hún er best hálffrosin.

Nýjar fréttir