-1.6 C
Selfoss

Adrenalín í Aratungu

Vinsælast

Frumsamið leikverk var flutt á sviðinu í Aratungu í byrjun mars. Verkið sömdu þær Kolfinna Sjöfn Ómarsdóttir og Þórkatla Loftsdóttir, árshátíðarformenn Mímis og byggðu söguþráðinn í kringum tónlist hljómsveitarinnar Í svörtum fötum. Frumsýning fór fram fyrir húsfylli fimmtudaginn 7. mars og heiðursgestir á sýningunni voru meðlimir hljómsveitarinnar Í svörtum fötum og þeir félagar Áki Sveinsson, Hrafnkell Pálmarsson, Einar Örn Jónsson og Páll Sveinsson mættu á svæðið og fylgdust spenntir með sýningunni. Skólameistari var sessunautur heiðursgestanna og gat staðfest að hljómsveitarmeðlimirnir voru hrifnir af sýningunni og hlógu hátt og snjallt þegar það var við hæfi.

Leiksigrar voru fjölmargir á meðal nemenda en með aðalhlutverk fór Ragnar Leó Sigurgeirsson og túlkaði hann seinheppinn ML-ing sem reynir að komast af stað í útskriftarferð en það gengur frekar erfiðlega, í það minnsta svona framan af. Á sviðinu voru svo fjölmargar  minni persónur sem stálu senunni reglulega í gegnum sýninguna. Leikararnir létu ljós sitt skína og til sín taka á fjölbreyttan hátt, hvort sem var í gegnum dans eða hnyttin tilsvör og sýndi leikhópurinn af sér mikla leikgleði – sviðljósinu var dreift á fjölda karaktera og því deilt af gjafmildi. Sérstaka athygli vöktu dans- og sönghæfileikar á sviði að ógleymdri Adrenalín hljómsveitinni sem stóð sig með mikilli prýði.

Það verður spennandi að fylgjast með þessum ungu listamönnum í framtíðinni því framtíðin er sannarlega þeirra!

Menntaskólinn að Laugarvatni / Jóna Katrín

Nýjar fréttir