9.5 C
Selfoss

Eitt tilboð barst í byggingu Ölfusárbrúar

Vinsælast

Tilboð í samkeppnisútboði vegna hönnunar og byggingar brúar yfir Ölfusá voru opnuð í gær, þriðjudaginn 12. mars. Eitt tilboð barst í verkið frá ÞG verktökum ehf.

Vegagerðin auglýsti alútboð vegna hönnunar og byggingar nýrrar brúar yfir Ölfusá á Evrópska efnahagssvæðinu þann 3. mars 2023. Þann 18. apríl 2023 voru opnaðar umsóknir og bárust umsóknir frá fimm þátttakendum sem allir uppfylltu þau skilyrði sem sett voru í útboðsauglýsingunni og voru metnir hæfir. Þessir aðilar fengu send útboðsgögn vegna samkeppnisútboðsins í lok nóvember 2023.

ÞG verktakar ehf. voru þeir einu af þessum fimm aðilum sem skiluðu inn tilboði. Um er að ræða upphafstilboð. Vegagerðin fer yfir tilboðið og stefnt er að því að fara í samningsviðræður við ÞG verktaka. Að þeim loknum verður gefin upp upphæð endanlegs tilboðs.

Gert er ráð fyrir að hægt verði að hefja samningsviðræður í byrjun apríl og vonir standa til að lokatilboð geti legið fyrir í júní og undirritun verksamnings í júlí. Verktaki ber ábyrgð á endanlegri hönnun verksins, brúar, vega og gatnamóta, og hefst vinnan við hönnunina í kjölfar undirritunar verksamnings. Forhönnun liggur fyrir sem þýðir að meginlínur hafa verið dregnar í útliti brúarinnar og legu vega. Undirbúningur á verkstað gæti hafist á þessu ári en áætlað er að brúin verði opnuð fyrir umferð haustið 2027.

Nýjar fréttir