3.4 C
Selfoss

Í ósamstæðum skóm 8. mars – hvað er nú það

Vinsælast

Föstudaginn 8. mars ætla Soroptimistar um allan heim að ganga í ósamstæðum skóm til að heiðra alþjóðlegan baráttudag kvenna sem hefur verið við lýði frá árinu 1910. Við biðjum þig um að gera slíkt hið sama.

Enn ein dellan, gæti einhver stunið upp. Já, það lítur út fyrir það, en bíðum við, þetta er auðvelt að útskýra. Ósamstæðir skór vísa til þess kynjamunar sem enn er við að etja á allt of mörgum sviðum, kynjamunar sem er ómálefnalegur, óréttlætanlegur og í andstöðu við fyrirheit um fullkomið jafnrétti kynja.

Og hverjir eru eiginlega þessir Soroptimistar? Þeir eru yfir aldargömul samtök kvenna, sem kalla sig systur og ná yfir um 130 lönd í heiminum. Systurnar vinna að bættri stöðu kvenna, mannréttindum, framförum, friði og sjálfbærri þróun. Fyrsti íslenski Soroptimistaklúbburinn var stofnaður 1959 og eru núna 19 klúbbar starfandi hringinn í kringum landið. Sjá nánar á soroptimist.is.

Ísland er best – eða hvað?

Ísland hefur um 14 ára skeið verið efst á lista Alþjóða efnahagsráðsins, World Economic Forum, sem mælir stöðu jafnréttis á heimsvísu. Mælir reyndar kynjamun, enda heitir Listinn Gender Gap Index. Því fögnum við innilega. En bæði jafnréttishreyfingar landsins sem og stjórnvöld gera sér grein fyrir takmörkunum þessara mælinga. Þær ná til atriða eins og hlutar kvenna miðað við karla á þjóðþingum og í stjórnunarstöðum, menntunarstig, heilsu og launamunar, svo eitthvað sé nefnt, allt mjög mikilvægra þátta. Á þessum mælikvörðum stöndum við betur að vígi en aðrar þjóðir. En það áhugaverðasta, út frá samfélaginu í dag, er það sem ekki er mælt. Það á til dæmis við um kynbundið ofbeldi í öllum sínum myndum. Einfalda skýringin á því er sú að ekki er til sambærileg, áreiðanleg tölfræði yfir heiminn um tíðni og alvarleika kynbundins ofbeldis. Víða er það einfaldlega ekki mælt, það er þaggað niður, afneitun er ríkjandi. Það út af fyrir sig endurspeglar mjög svo veika stöðu kvenna og jafnréttis yfirleitt.

Lýðheilsuvandi – faraldur

Á sama tíma eru rannsóknir, þar á meðal íslenskar, sem sýna að þriðja til fjórða hver kona verður einhvern tíma fyrir kynbundnu ofbeldi á lífsleiðinni. Í sumum löndum eru vísbendingar um að önnur hver kona verði fyrir alvarlegu kynbundnu ofbeldi á heimili sínu af hendi eiginmanns. Á Íslandi hefur verið lögð stigvaxandi áhersla á undanförnum árum á að byggja upp sem besta tölfræði um kynbundið ofbeldi og rannsaka áhrif þess á þolendur. Má þar m.a. nefna rannsóknina Áfallasaga kvenna, sem markar tímamót að þessu leyti. Í fyrstu niðurstöðum þessarar rannsóknar kom fram að áhrifa ofbeldisins gætir víðar og í meira mæli en við vorum áður með vitneskju um. Til dæmis birtast afleiðingarnar meðal kvenna í kvíða, þunglyndi, sjálfsskaðandi hegðun, líkamlegum veikindum, kulnun og örorku. Þetta eru allt þættir sem eru rándýrir, bæði í lífi þolendanna sjálfa og á samfélagslegum vettvangi, eins og til dæmis í heilbrigðisþjónustu. Það gefur auga leið að þessi staða bitnar á uppeldisskilyrðum barna, svo bara það sé nefnt. Ofbeldið tekur sífellt á sig nýjar myndir. Ungu stúlkurnar í samfélaginu okkar hafa langsamlega flestar reynslu af stafrænu ofbeldi, sem er ógnvekjandi. Af þessu má draga þá ályktun að ofbeldi gegn konum sé einn úbreiddasti og dýrasti lýðheilsuvandi sem um getur, svo útbreiddur að nota má hugtakið faraldur. Það liggur í augum uppi að hið göfuga fyrirheit jafnréttislaga, að allt fólk [skuli] eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni, verður ekki efnt á meðan kynbundið ofbeldi á sér stað.

Kvennastörfin rómuðu – og alræmdu

Framfaraskref hafa verið stigin hér á landi á undanförnum árum varðandi launajafnrétti kynja með jafnlaunavottun og svipuðum úrræðum. Mikilvægt er þó að átta sig á að þessi úrræði, mælitæki og eftirfylgjandi aðgerðir, eru líka sínum takmörkunum háð og þær eru verulegar. Þær stafa af því að þau taka aðeins á launamun kynja innan fyrirtækja og virka aðeins á réttan hátt sé lagt rétt mat á virði starfa innan þeirra. Með öðrum orðum, þau taka ekki á launamun á milli fyrirtækja, til dæmis í mismunandi atvinnugreinum, segjum hefðbundnum starfsstéttum karla og hefðbundnum starfsstéttum kvenna, og það er allsendis ógagnsætt hvernig virði einstakra starfa eða starfahópa er metið miðað við önnur. Þetta er ástæðan fyrir því að jafnvel þótt jafnlaunavottun sé lögbundin, getur verið krónískt vanmat í gangi á hefðbundnum kvennastörfum – í starfsgreinum sem einkum konur sinna. Við erum minnt á það þessa dagana með launabaráttu verkalýðsfélaga fyrir að hækka laun, til dæmis við ræstingar.

Stillum okkur saman – í ósamstæðum skóm

Það er gríðarlega mikilvægt fyrir framtíðarþróun okkar íslenska samfélags að við missum ekki sjónar á markmiðum um jafnrétti kynja alls staðar þar sem staða þeirra er lakari. Jákvæð tengsl á milli almennrar velmegunar þjóða, heilsu, lýðræðis og mannréttinda annars vegar og stöðu kvenna hins vegar eru margsönnuð. Með auknu jafnrétti kynja eflum við allt samfélagið.

Hildur Jónsdóttir,
Soroptimistaklúbbi Suðurlands

Nýjar fréttir