1.7 C
Selfoss

Fella trén við Austurveg til að bæta umferðaröryggi

Vinsælast

Samkvæmt tilkynningu frá Sveitarfélaginu Árborg stendur til að fella trén sem standa við Austurveg á Selfossi til að bæta umferðaröryggi við veginn. Vegagerðin hafði óskað eftir samstarfi við sveitarfélagið um framkvæmdina sem samþykkt var á fundi umhverfisnefndar Árborgar þann 5. mars sl.

Fram kom í umferaröryggisrýni að gróðurinn sem prýðir veginn í dag skerðir sjónlínur ökumanna og skapar hættu gagnvart annarri umferð og gangandi vegfarendum.

Blómakerin við Tryggvatorg. Mynd: Árborg.

Mikill umferðarþungi er á svæðinu frá Tryggvatorgi að Sigtúni og stendur til að setja upp girðingu í miðeyjuna til að beina gangandi fólki að gangbrautinni og tryggja þannig öryggi þess. Aðgerðin felur í sér að trjágróðurinn sem er þar fyrir verði fjarlægður og ný, smærri tré sett í staðinn, auk blómakassa á girðinguna með svipuðum hætti og er við Tryggvatorg í dag. Þá segir í bókun umhverfisnefndar að aðgerðin komi til með að bæta umferðaröryggi og um leið ásýnd við götuna.

Vegagerðin mun sjá um framkvæmdir á eyjunni og uppsetningu grindverks en sveitarfélagið um að fjarlægja gróður og uppsetningu nýrra trjáa og blómakerja.

Stefnt er að því að hefja framkvæmdir sem fyrst og áætluð verklok eru í maí/júní.

Nýjar fréttir