8.4 C
Selfoss

Sex í varðhaldi eftir tuttugu og fimm húsleitir í gær

Vinsælast

Þrír karlar og þrjár konur eru í haldi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir umfangsmiklar aðgerðir í gærdag, en í dag verður krafist vikulangs gæsluvarðhalds yfir þeim öllum á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Þetta segir í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Tilefni aðgerðanna er rökstuddur grunur um mansal, peningaþvætti, brotum á atvinnuréttindum útlendinga og gruns um skipulagða brotastarfsemi. Aðgerðirnar, sem fóru fram á Suðurlandi, höfuðborgarsvæðinu og víðar, stóðu yfir í allan gærdag og gengu vel fyrir sig. Við rannsókn málsins hefur verið rætt við töluvert af fólki sem grunsemdir eru um að séu þolendur mansals.

Viðamikið samstarf

Á annað hundrað manns tóku þátt í aðgerðum gærdagsins, þar af um áttatíu starfsmenn lögreglu og nokkur fjöldi starfsfólks stofnana og félagasamtaka sem veittu liðsinni við aðgerðirnar. Samtals voru framkvæmdar um tuttugu og fimm húsleitir.

Aðgerðirnar eru unnar í samvinnu við lögregluliðin á Suðurlandi, Suðurnesjum og Norðurlandi eystra, embætti ríkislögreglustjóra, Tollgæsluna, Útlendingastofnun, Vinnumálastofnun, ASÍ, velferðarsvið Reykjavíkurborgar, barnaverndaryfirvöld í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði, félagsþjónustuna í Kópavogi og Hafnarfirði, heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og Bjarkarhlíð.

Nýjar fréttir