0 C
Selfoss

Framkvæmdir hafnar við Reykjaböðin, ný náttúruböð í Hveragerði

Vinsælast

Hveragerðisbær og Reykjadalsfélagið hafa náð tímamótasamningi um viðamikla ferðaþjónustuuppbyggingu á Árhólmasvæðinu í Hveragerði. Samningurinn felur í sér kaup Reykjadalsfélagsins á byggingarrétti og úthlutun lóða ásamt uppbyggingu svæðisins. Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu frá Hveragerðisbæ og Reykjadalsfélaginu.

Árhólmasvæðið liggur við rætur Reykjadalsins sem er ein vinsælasta náttúruperla Suðurlands en þangað sækja hundruð þúsunda manna á hverju ári til að njóta útivistar og göngu að heita læknum.

Frá vinstri: Valgarð Sörensen, Brynjólfur J. Baldursson, Ólafur Garðarsson, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Geir Sveinsson, Haraldur Sverrisson, Óskar Sigurðsson. Ljósmynd: Aðsend.

„Það hefur verið afar áhugavert að fylgjast með uppbyggingu Reykjadalsfélagsins í Hveragerði á undanförnum árum. Við erum ánægð með þennan stóra samning sem verður mikil lyftistöng fyrir ferðaþjónustuna, atvinnulífið og samfélagið í bænum,“ segir Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, formaður bæjarráðs Hveragerðisbæjar.

Reykjadalsskálinn. Ljósmynd: Aðsend.

Reykjadalsfélagið er fyrir með starfsemi á Árhólmasvæðinu en á árinu 2021 opnaði Reykjadalsskálinn sem þjónustar veitingar, verslun og salerni ásamt upplýsingagjöf. Á svæðinu er einnig starfrækt afþreyingarstarfsemi þar sem boðið er uppá hjólaferðir og nýverið opnaði ein lengsta sviflína (e. mega zipline) í Evrópu. Sú uppbygging sem nú er fyrirhuguð mun falla vel að heildarmyndinni og efla þá útivistarparadís sem Reykjadalurinn, Hengillinn og svæðið í kring býður upp á.

Reykjadalsfélagið og Hveragerðisbær hafa síðastliðin ár unnið sameiginlega að nýju deiliskipulagi fyrir svæðið og kláraðist sú vinna nýverið þar sem gert ráð fyrir breyttri nýtingu þegar stofnaðra lóða auk fjölda nýrra lóða sem skipulagðar eru með starfsemi ferðaþjónustu í huga.

Að Reykjadalsfélaginu standa félögin Hveraberg og Dionysus sem eru sömu aðilar og byggðu áfangastaðinn Gróðurhúsið sem stendur í hjarta Hveragerðis og býður upp á margvíslega þjónustu svo sem mathöll, verslanir, kaffihús og hótelið The Greenhouse Hotel. Samstarf Reykjadalsfélagsins við Hveragerðisbæ og íbúa hefur verið farsælt undanfarin ár og því ánægjulegt að náðst hafi samningar um frekari uppbyggingu félagsins í bænum.

Liður í uppbyggingu og vexti Hveragerðisbæjar

Hveragerðisbær er sveitarfélag í örum vexti og er þessi samningur því stórt skref í þeirri uppbyggingu sem á sér stað í bænum. Samningurinn er í góðum samhljómi við nýlega samþykkta stefnu bæjarins um blómlegt og sjálfbært atvinnulíf sem byggir á sérstöðu svæðisins og styrkir Ölfusdal enn frekar í sessi sem aðdráttarafl fyrir þá sem vilja njóta útivistar og heilsutengdrar ferðaþjónustu.

Reykjadalsfélagið hefur þegar byggt upp talsverða starfsemi í Hveragerði sem hefur verið mikil lyftistöng fyrir ferðaþjónustuna og atvinnulífið í bænum. Einhugur var í bæjarstjórn Hveragerðisbæjar um samninginn og áframhaldandi uppbyggingu Reykjadalsfélagsins í bænum.

„Samstarfið við Hveragerðisbæ hefur verið frábært og það er mikil ánægja hjá okkur í Reykjadalsfélaginu að hafa náð þessum tímamótasamning. Við erum fullir tilhlökkunar með uppbygginguna framundan,“ segir Brynjólfur J. Baldursson, stjórnarformaður Reykjadalsfélagsins.

Náttúran í Reykjadalnum og nágrenni. Aðsend mynd.

Metnaðarfull uppbygging framundan

Markmið uppbyggingar Árhólmasvæðisins er að skapa fjölbreytta þjónustu fyrir bæði íbúa bæjarins og nágrennis en einnig þá fjölmörgu ferðamenn sem heimsækja svæðið og er stefnt að heildrænni nálgun með sjálfbærni að leiðarljósi. Umfang uppbyggingar er töluvert mikið og verður því áfangaskipt yfir nokkur ár.

The Greenhouse Hotel mun starfrækja hótel á svæðinu og bjóða uppá öðruvísi hótelupplifun þar sem gestir geta notið sín í notalegum smáhýsum og kofum í faðmi náttúrunnar.

Einnig verður byggð upp frekari veitingastarfsemi og góð aðstaða fyrir mismunandi viðburðarhald s.s. fundarhöld, ráðstefnur, afmæli, brúðkaup og svo framvegis.

Mikil áhersla er lögð á upplifun og að gestir njóti náttúrunnar með aðgang að margvíslegri afþreyingu og útivist. Göngutúrinn að heita læknum er mjög vinsæll en einnig er búið að útbúa nýjar hjóla- og gönguleiðir á svæðinu og uppá Hengilinn. Það er hægt að fara í útreiðatúra á svæðinu og einnig er frábær golfvöllur stutt frá. Sviflínan er einstök og hugmyndir uppi um frekari tengda starfsemi. Það verður síðan mikil upplifun fyrir gesti að geta dýft sér í Reykjaböðin en náttúrulón er einmitt fyrsti áfangi uppbyggingarinnar á svæðinu.

Staðsetning Árhólma/Reykjadals og ökuleið frá Gróðurhúsinu í Hveragerði. Aðsend mynd.

Reykjaböðin í fyrsta áfanga

Ákveðið hefur verið að fyrsti áfangi uppbyggingarinnar verði náttúruböð sem hafa fengið nafnið Reykjaböðin. Verkefnið er fullfjármagnað og framkvæmdir hafnar.

Í tilkynningunni segir ennfremur að Árhólmar henti einstaklega vel fyrir baðstarfsemi en mikill jarðhiti er á svæðinu ásamt góðu aðgengi að heitu vatni og hefur verið unnið að góðum lausnum á því sviði með Veitum. Náttúrfegurð er mikil á svæðinu og staðsetningin er líka frábær þar sem hún stutt frá Reykjavík og við upphaf Gullna hringsins ásamt góðu aðgengi fyrir gesti og heimafólk.

Upplifun gesta verður í fyrirrúmi og náttúran í nágrenninu þar sem hverir bubbla og reykur stígur upp úr jörðinni allt um kring. Náttúruleg efni verða í forgrunni við byggingu baðanna og markmið að skapa kósý stemningu fyrir gesti á öllum árstíðum. Baðlónið mun bjóða uppá fjölda nýjunga sem ekki hafa áður sést á Íslandi sem verða kynntar þegar fram líða stundir.

Nýjar fréttir