-3.9 C
Selfoss

Tveir Hverðgerðingar hlutu fyrstu verðlaun á Bessastöðum

Vinsælast

Sunnudaginn 26. febrúar sl. veitti Eliza Reid forsetafrú verðlaun í ensku smásagnakeppninni, keppni á vegum Félags enskukennara á Íslandi, sem fram fer á landsvísu ár hvert meðal grunn- og framhaldsskólanema. Grunnskólinn í Hveragerði átti þar tvo keppendur, ungu og efnilegu rithöfundana Bryndísi Klöru Árnadóttur, nemanda í 9. bekk og Heru Fönn Lárusdóttur, nemanda í 7. bekk.

Þrettán nemendur víðsvegar af landinu hlutu verðlaun en Bryndís og Hera gerðu sér lítið fyrir og hlutu báðar 1. verðlaun í sínum flokkum, Bryndís í flokki 8.-10. bekkjar fyrir smásöguna The Journey of Finding Me Again og Hera í flokki 6.-7. bekkjar fyrir smásöguna Journey Towards Safety, en þær hafa báðar unnið til verðlauna í þessari keppni áður.

Nemendur í 5. – 10. bekk Grunnskólans í Hveragerði taka þátt í keppninni á hverju ári og í lok janúar voru nemendum veitt bókaverðlaun og viðurkenningaskjöl af skólanum, fyrir þær smásögur sem þóttu skara fram úr í hverjum flokki, og voru þær sendar í landskeppnina. Smásögurnar sem taka þátt verða að vera skrifaðar á ensku og tengjast ákveðnu þema-orði sem í ár var „Journey“, eða „ferð“ á íslensku.

Allir verðlaunahafarnir ásamt Elizu Reid forsetafrú við verðlaunaafhendinguna.

Við verðlaunaafhendinguna í Grunnskóla Hveragerðis fengu þrír nemendur í flokki 5. bekkjar og yngri viðurkenningu og bækur eftir Roald Dahl. Það voru þau Heba Rut Kristinsdóttir, 5. ÍLG, fyrir söguna The Giant Animal Journey, Heiðdís Lílja Sindradóttir, 5. GH, fyrir söguna The Story of the Pink Underwear og Danielius Helgi Liaugminas, 5. ÍDK, fyrir söguna Bob’s Journey.

Í flokki 6.-7. bekkjar fengu sömuleiðis þrír nemendur viðurkenningu og bækur úr bókaflokknum „Bear Grylls Adventures,“ en það voru Hera Fönn Lárusdóttir, 7.LH, fyrir söguna Journey Towards Safety?, Brianna Lind Sindradóttir, 7. SH, fyrir söguna Benidorm Here We Come og Sigurður Elí Vignisson, 7. LH, fyrir söguna The Journey Awaits.

Að auki voru þrír nemendur í flokki 8. – 10. bekkjar sem fengu viðurkenningu og bækur úr bókaflokknum Harry Potter og voru það þær Bryndís Klara Árnadóttir, 9. ERP, fyrir söguna The Journey of Finding Me Again, Elma María Böðvarsdóttir, 10. MÍ, fyrir söguna Pain is temporary. Regret is forever og Sólrún Njarðardóttir, 9. ERP,Journey of a New Life.

Nýjar fréttir