8.9 C
Selfoss

Circula freistar gæfunnar á fjárfestahátíð Norðanáttar

Vinsælast

Átta fyrirtæki hafa verið valin til þátttöku á fjárfestahátíð Norðanáttar sem fer fram á Siglufirði þann 20. mars næstkomandi.

Eitt þeirra átta verkefna sem voru að þessu sinni valin til þátttöku á fjárfestahátíðinni Norðanátt, er sunnlenska nýsköpunarverkefnið Circula/Recoma, rekið af Circula ehf.

Circula ehf. er á lokastigum undirbúnings fyrir stofnun RECOMA Ísland ehf. Markmiðið er að reisa verksmiðju sem sérhæfir sig í framleiðslu á PackWall byggingaplötum. Þessar nýjungarplötur eru búnar til úr endurunnum Tetra Pak umbúðum og notast verður við einkaleyfisverndaða framleiðslutækni. Með þessu frumkvæði mun Circula gefa umbúðunum nýjan tilgang og breyta í hágæða, umhverfisvænar byggingaplötur. Hráefnið fyrir framleiðsluna verður fengið frá helstu söfnunaraðilum landsins. Plöturnar munu bera 80-90% lægra kolefnisspor en sambærilegar byggingarplötur auk þess að stuðla að öðrum jákvæðum umhverfisáhrifum í samræmi við grunnstoðir hringrásarhagkerfisins. Sjá nánari upplýsingar um verkefnið hér.

Verkefnið hefur á fyrri stigum hlotið stuðning frá SASS í gegnum atvinnurþróunar og nýsköpunarflokk Uppbyggingarsjóðs Suðurlands.

Fjárfestahátíð Norðanáttar var haldin fyrst árið 2022 við góðar undirtektir fjárfesta og annarra lykilaðila í vistkerfi nýsköpunar víðsvegar af landinu. Fyrsta árið voru einungis verkefni af Norðurlandi sem tóku þátt, en vegna hversu vel tókst til ákváðu aðstandendur hátíðarinnar að opna viðburðinn fyrir fyrirtæki og frumkvöðla af öllu landinu. Í ár verður engin breyting þar á.

Hátíðin er vettvangur fyrir frumkvöðla og fyrirtæki sem leita eftir fjármagni og eru tilbúnir að fá fjárfesta að borðinu. Þá er markmið hátíðarinnar einnig að draga fram tækifæri til uppbyggingar á atvinnuvegum og efla nýsköpun í kringum auðlindir landsbyggðanna, en þarna gefst gott tækifæri til þess að mynda tengingar og eiga fyrsta skrefið í átt að framtíðarsamvinnu.

Áhersla hátíðarinnar í ár eru orkuskipti, hringrásarhagkerfið, fullnýting auðlinda og aðrar grænar lausnir en fyrirtækin sem munu kynna verkefni sín í ár á hátíðinni snerta öll á þessum áherlsum með einum eða öðrum hætti.

Umsóknarfrestur var til og með 31. janúar sl. og bárust umsóknir úr öllum landshlutum. Sérstök valnefnd mat umsóknir meðal annars út frá því hversu vel verkefnin falla að áherlsum hátíðarinnar og fjárfestatækifæri verkefnisins.

Að fjárfestahátíðinni Norðanátt standa EIMUR og landshlutasamtökin á Norðurlandi SSNE og SSNV með stuðningi frá Umhverfis-, orku-, og loftslagsráðuneytinu.  Bakhjarlar Fjárfestahátíðarinnar 2024 eru Tækniþróunarsjóður, KPMG, Nýsköpunarsjóður og KEA.

Nýjar fréttir