7.8 C
Selfoss

900 öflugar konur í röðum Samtaka sunnlenskra kvenna

Vinsælast

Starf Sambands sunnlenskra kvenna stendur með miklum blóma nú sem áður.  Á Ársfundi SSK sem haldinn var í apríl 2023, urðu formannaskipti, og við keflinu tók undirrituð, Sólveig Þórðardóttir en ég er í kvenfélagi Villingaholtshrepps.  Á Ársfundinum var valin kvenfélagskona ársins 2022 og varð Guðrún Þóranna Jónsdóttir frá Kvenfélagi Selfoss fyrir valinu. Hún hefur verið öflug kvenfélagskona og gegnt trúnaðarstörfum hjá Kvf. Selfoss, SSK og KÍ og verið í ritnefnd Húsfreyjunnar.

Elinborg Sigurðardóttir fyrrv. formaður SSK og Guðrún Þóranna Jónsdóttir, kvf. Selfoss, kvenfélagskona ársins 2022.

Stjórn og varastjórn SSK funda mánaðarlega frá september fram í maí og halda auka fundi þegar þess er þörf.  SSK á hluta í Selinu á Selfossi og er þar með skrifstofu, þar eru haldnir fámennir fundir, en einnig nýtum við stærri salinn fyrir formannafundi sem haldnir eru einu sinni á ári.  Starfssvæði  SSK er Árnes- og Rangárvallasýslur, en í þessum tveimur sýslum eru 25 kvenfélög með um 900 öflugar konur.  SSK hefur í fjölmörg ár gefið öllum nýburum húfur eða aðra handgerða muni, og sjá ljósmæður á HSU um að koma þeim til foreldra, þessir munir eru prjónaðir af flinkum kvenfélagskonum innan okkar sambands. Við höfum í fjölmörg ár selt kort til styrktar Sjúkrahússjóði HSU og í fyrra voru gefin út 4 ný tækifæriskort sem hafa runnið út.  Kortin eru seld 4 í pakka á 2.500 krónur og er hægt að kaupa þau í afgreiðslu HSU á Selfossi sem og hjá stjórn SSK og kvenfélagskonum.  Í fyrra gáfum við HSU gjafir fyrir 2,2 milljónir sem er afrakstur kortasölunnar.

Mynd tekin í 95 ára afmæli SSK 30. September 2023.  Á þessari mynd eru frá vinstri:  Sólveig Þórðardóttir formaður SSK, og fyrrverandi formenn SSK; Drífa Hjartardóttir, Elinborg Sigurðardóttir, Guðrún Jónsdóttir, Þórunn Drífa Oddsdóttir og Rosemarie B Þorleifsdóttir.

SSK varð 95 ára 30. september s.l. og héldum við upp á daginn með samkomu, byrjuðum í Sagnagarði og fórum svo  í Hvolinn á Hvolsvelli, þar sem  var dagskrá inni, Friðrik Erlingsson fræddi okkur um listakonuna Nínu Sæmundsson og listaverkið Afrekshug þá voru söngatriði og kaffiveitingar og var þetta hinn besti dagur. Í undirbúningi er að útbúa ný gjafakort og verða þau kynnt á Ársfundi SSK sem haldinn verður 20. apríl næst komandi.  Þá kemur einnig út nýtt Ársrit SSK, en við gefum út Ársrit á hverju ári, en í því eru fréttir frá öllum kvenfélögunum, skýrsla stjórnar og reikningar sambandsins og ýmiss konar annar fróðleikur.   Það er mikill heiður að fá að vera formaður í svona öflugu sambandi kvenna, þar sem allar konur vinna svo vel saman, kærar þakkir allar fyrir ykkar góða starf og áfram sunnlenskar kvenfélagskonur, þið eruð flottastar.

Sólveig Þórðardóttir formaður SSK

Nýjar fréttir