8.9 C
Selfoss

Smiðjudagar í Flúðaskóla

Vinsælast

Grunnskólarnir í Uppsveitum, Kerhólsskóli á Borg, Reykholtsskóli, Bláskógaskóli Laugarvatni og Flúðaskóli, standa í sameiningu að hluta þess valgreinanáms sem nemendum á unglingastigi skólanna stendur til boða.

Þrisvar á ári eru haldnir smiðjudagar sem eru tveir langir samliggjandi skóladagar þar sem unglingarnir leggja stund á nám sem tengist áhugasviði hvers og eins. Með því að sameinast um þennan þátt námsins tekst þessum fámennu skólum að bjóða upp á fjölbreyttara úrval valgreina en þeim væri annars mögulegt að gera.

Inn á milli námslotanna er ungmennunum gefið rými til þess að blanda geði við aðra krakka og kynnast jafnöldrum úr nágrannaskólunum í gegnum annars konar samskipti en bara þau sem verða til í gegnum samveru í kennslustundum. Félagsmiðstöðvarnar taka jafnframt þátt í verkefninu.

Flúðaskóli gestgjafi í fyrsta sinn

Skólarnir í Grímsnes- og Grafningshreppi og Bláskógabyggð hafa um nokkurra ára skeið átt í samstarfi um smiðjurnar og Flúðaskóli bættist við samstarfið árið 2022. Flúðaskóli tók nú í fyrsta sinn á móti nágrannaskólum sínum á Smiðjudögum þegar unglingar frá Reykholtsskóla, Bláskógaskóla Laugarvatni og Kerhólsskóla heimsóttu skólann 1. og 2. febrúar sl. Í Flúðaskóla ganga unglingar úr Hrunamannahreppi og Skeiða- og Gnúpverjahreppi og er nemendahópurinn í Flúðaskóla álíka stór og úr hinum skólunum til samans.

Að þessu sinni var boðið upp á smiðjur í leiklist, dansi, pílukasti, tónlist, bakstri, málningu, málmsmíði, hestamennsku og körfubolta. Á fimmtudeginum fengu nemendur stuttan fyrirlestur um áhrif orkudrykkja og mikilvægi svefns. Um kvöldið var svo sameiginlegt opið hús félagsmiðstöðvanna af svæðinu. Í tilkynningu frá Flúðaskóla segir forsvarsfólk skólans óhætt að segja að unglingar og starfsfólk hafi átt mjög góðan tíma saman og að smiðjurnar hafi komið afar vel út. Verst hafi fallið í mannskapinn þegar stytta þurfti dagskrána vegna slæmrar veðurspár á föstudeginum.

Allar myndirnar eru fengnar af Facebooksíðu Flúðaskóla og er hægt að skoða fleiri hér.

Nýjar fréttir