-1.6 C
Selfoss

Karamellubomba og kínóapizza

Vinsælast

Jóhanna Sigríður Hannesdóttir er sunnlenski matgæðingur vikunnar.

Ég þakka kærlega þann heiður að hafa verið valin Matgæðingur vikunnar hjá Dagskránni. 

Að elda og baka er mitt jóga – matarjóga, eins og ég kýs að kalla það. Ég slaka hvergi betur á hugsununum eins og þegar ég er að bardúsa eitthvað í eldhúsinu. Þá næ ég að vera í núinu og flæðinu. Ég mæli sjaldnast hlutföllin, geri bara dass af hinu og þessu og man ekki einu sinni alltaf hvaða hráefni ég notaði. Svona er það þegar maður gleymir stund og stað.

Ég á þó nokkrar uppskriftir í handraðanum þar sem ég lagði mig sérstaklega fram við að skrifa allt samviskusamlega niður um leið og ég bjó til uppskriftina. Stundum finn ég á mér að það sem ég er að búa til stefnir í einhverja snilld – og þá er eins gott að skrifa niður hráefni og hlutföll.

Áhugasamir geta fundið fleiri hollar og bragðgóðar uppskriftir inni á sunnlenska.is undir „Fagurgerði“. Uppskriftirnar eiga það allar sameiginlegt að vera glútenfríar og vegan – næra og kæta.

Þessi kaka hefur slegið í gegn hjá öllum þeim sem hafa smakkað. Ein vinkona mín sendi mér nýlega skilaboð og sagði að hún hefði gert þessa uppskrift að minnsta kosti 100 sinnum – svo mikið heldur hún upp á hana. Þessi kaka er líka ekta til að eiga inn í frysti þegar manni langar í eitthvað sætt en hollt. 

Karamellubomba (glútenfrí og vegan)

Botn:

  • 1 bolli möndlur
  • 1 bolli kókosflögur
  • Smá sjávarsalt
  • 1 bolli döðlur
  • 3 msk. hlynsíróp
  • 2 msk. kókosolía
  • 1 tsk. vanilla

Setjið möndlurnar, kókosflögurnar og sjávarsaltið í blandara og blandið þar til það er orðið að þokkalegu fíngerðu mjöli. Setjið í skál og leggið til hliðar.

Setjið döðlurnar í skál og hellið sjóðandi heitu vatni yfir. Látið liggja í vatninu í sirka 10 mínútur. Þetta er gert til að mýkja döðlurnar enn frekar þannig að það sé auðvelt að búa til mauk úr þeim.

Hellið vatninu af döðlunum og kreistið umfram vatn úr þeim í leiðinni. Setjið döðlurnar í blandara og maukið.

Setjið döðlumaukið, hlyn-sírópið, kókosolíuna og vanilluna í skálina með hinu hráefninu. Blandið saman með skeið eða sleif, eftir því sem ykkur finnst vera betra. Deigið er mjög þykkt og klístrað og því getur verið erfitt að hræra í því.

Setjið deigið í hringlaga eldfast mót. Dreifið vel úr með sleifinni.

Setjið mótið inn í frysti á meðan þið búið til karamelluna.

Karamella:

  • 1 krukka Biona möndlusmjör (eða annað dökkt möndlusmjör) Ein krukka er 250 gr.
  • ¼ bolli hlynsíróp
  • 4 msk. kókosolía
  • Smá sjávarsalt
  • ½ tsk. vanilla

Bræðið allt saman í vatnsbaði. Hrærið hratt og ákveðið í blöndunni þegar möndlu-smjörið er byrjað að bráðna. Möndlusmjörið er mjög þykkt og blandast ekki restinni af hráefnunum af sjálfu sér.

Þegar karamellan er orðin silkimjúk og laus við alla kekki, sækið þá mótið úr frystinum og hellið yfir botninn. Dreifið vel úr með sleikjunni.

Skreytið með söxuðum möndlum og muldum kókosflögum. Setjið smá hlynsíróp yfir (þvers og kruss) en bara rétt svo að það sjáist. Ekki setja það mikið að það verði allt löðrandi í því.

Setjið mótið aftur inn í frysti og geymið í nokkrar klukkustundir eða yfir nótt.

Þessa pizzu geri ég mjög oft. Ég geri líka oft tvöfalda uppskrift ef ég vil hafa botninn þykkari og pizzuna saðsamari. Kínóagrjónin eru auk þess próteinrík þannig að þessi pizza er alveg sérlega holl – og góð. 

 

Kínóapizza (glútenfrí og vegan)

  • ½ bolli kínóa
  • (Tæplega) ¼ bolli vatn
  • 1 msk. ólífuolía
  • 1 tsk. vínsteinslyftiduft
  • 1 tsk. oreganó
  • ½ tsk. sjávarsalt

Leggið kínóagrjónin í bleyti yfir nótt.

Þegar þið eruð búin að láta kínóagrjónin liggja í bleyti nægilega lengi, skolið þau þá mjög vel í fíngerðu sigti (það fíngerðu að grjónin fari ekki í gegnum götin).

Stillið bakaraofninn á 180°C með blæstri.

Setjið kínóagrjónin í blandara ásamt restinni af hráefninu og blandið öllu vel saman eða þar til blandan er orðin silkimjúk (tekur ekki langan tíma). Athugið að deigið er MJÖG þunnt en þannig á það líka að vera.

Takið kökuform, sirka 20 cm í þvermáli og leggið það á bökunarpappír. Teiknið hring utan um formið og klippið út. Já eða bara klæðið hringlaga kökuform með bökunarpappír ef þið nennið ekki að föndra.

Setjið útklippta bökunarpappírinn í botninn á forminu.

Hellið deiginu í formið og setjið inn í ofn. Bakið í 20 mínútur.

Þegar 20 mínútur eru liðnar, takið þá formið úr ofninum, losið um hringinn á kökuforminu og hvolfið botninum varlega á ofnplötu (sem þið hafið sett bökunarpappír á áður).

Losið bökunarpappírinn varlega af botninum (gott að nota hníf eða pönnukökuspaða til að styðja við pappírinn svo að botninn fari örugglega allur af pappírnum).

Setjið aftur inn í ofn og bakið í 10 mínútur.

Setjið sósu og það álegg á pizzuna sem þið viljið og bakið pizzuna í 10 mínútur við 200°C.

 


Ég skora á „systur“ mína Málfríði Ernu Samúelsdóttur að vera næsti matgæðingur. Þegar við vorum litlar stelpur í Stóru-Sandvík bjuggum við til ófáar drullukökur úr hráefnum sveitarinnar sem við skreyttum með blómum og skeljasandi. Við sóttum fíngerða mold úr Skálphúsinu til að búa til „ekta súkkulaðikrem“ á kökurnar okkar. Þetta voru meistaraverk hjá okkur. Ég er viss um að hún Erna mín eigi til einhverjar góðar og girnilegar uppskriftir – sem má borða.

Nýjar fréttir