7.8 C
Selfoss

Jólahugvekja

Vinsælast

Vinátta – skógur – pottur – fjölskylda – hlýhugur – tár – samtal – prjónar – sól – hjól – gróðursetning – óvænt samvera – rifja upp minningar – haustlitir – hlátur – róla – sítrónukaka – faðmlag. 

Hér má sjá örlítið innlit í þakklætisdagbókina mína, að veita því sérstaka athygli hvað ég er þakklát fyrir er eitt af mínum bjargráðum.  Endalaust eru okkur gefin góð ráð um hvernig best sé að lifa lífinu, ekki síst þurfum við á því að halda ef við göngum í gegnum erfiðleika eða lendum í áföllum.  Sumt af því virðist ofur einfalt en er nauðsynlegt.  Eins og að borða, sofa, fara út að ganga, reyna að fá sér frískt loft, vera í kringum þau sem okkur þykir vænt um, tala um það sem við erum að ganga í gegnum, leita faglegrar aðstoðar.  Oft er spurt hvort trúin hjálpi okkur í erfiðum aðstæðum?  Já ég vil sannarlega halda því fram að trúin sé eitt af þeim bjargráðum sem við getum gripið til í erfiðleikum.

Biblían er endalaus uppspretta fallegra texta sem veita huggun, gleði, von og styrk, sömuleiðis má þar finna raunsanna texta um sammannlega upplifun af erfiðleikum og sorgum.  Setning frá Páli postula veitti mér innblástur þegar ég gekk í gegnum erfiðleika:  „Þegar ég er veik þá er ég máttug.“ (2.Kor 12.10).  Hvaða máttur getur komið í veikindum eða veikleika?  Í jólasögunni erum við leidd inn í fjárhús, skítugt en hlýtt, þar liggur barn í jötu.  Barn getur ekki bjargað sér sjálft, það þarf aðstoð, samt eru börn líklega það máttugasta af öllu lífsafli í heiminum.  Í varnarleysi sínu draga þau okkur að sér, að horfa á ungbarn liggjandi í vöggu er líklega það sem við komust næst því sem er himneskt og við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að vernda þau.  Jólasagan dregur okkur að varnleysi Jesúbarnsins, umkomuleysi hans í heiminum, barninu sem fékk skjól í afgangshúsnæði, húsnæði fyrir dýr ekki manneskjur.  Við það að horfa ofan í jötuna, á Jesúbarnið búa frumkraftar trúar okkar, þangað getum við sótt næringu einmitt þegar við eigum lítið eftir.  Þar búa veikleikar okkar, vanmáttur okkar en um leið uppspretta gleði, vonar og eftirvæntingar.

Sum velta því fyrir sér hvort jólasagan sé ekki úrelt, óþarfi eða gamaldags, ég svara því auðvitað neitandi. Við þurfum einmitt reglulega að vera minnt á allan þann boðskap sem býr í jólasögunni. Jólin snerta hjarta okkar með svo djúpum hætti, þau geta verið uppfull af gleði og góðum minningum en sömuleiðis kallað fram djúpan sársauka þegar við söknum, búum við veikindi eða breyttar aðstæður í lífinu. Einmitt þá færir jólasagan okkur svo óendanlega mikilvæg skilaboð og þær bestu fréttir sem við getum nokkurn tíma fengið að heyra.  Einföld en máttug skilaboð, þar sem Jesúbarnið horfið í augu þín, birta skín úr augum sem barnsins sem segir við hjarta þitt: „Þetta er allt í lagi, ég er með þér.“  Sama á hvaða ferðalagi sem við erum á í lífi okkar getum við alltaf ferðast að jötunni, þar er að finna samastað, hlýju, mátt, kærleika, styrk og von.

Guð gefi ykkur öllum gleðileg jól

Guðbjörg Arnardóttir, sóknarprestur Árborgarprestakalls

Nýjar fréttir