2.8 C
Selfoss

Grunnskólinn í Hveragerði styrkir Ljónshjarta um tvær milljónir króna

Vinsælast

Síðastliðin ár hafa nemendur og starfsfólk Grunnskólans í Hveragerði haldið góðgerðarþema í nóvember. Tilgangur þemadaganna er að efla samkennd nemenda og láta um leið gott af sér leiða. Þrír dagar fara í vinnu þar sem ýmsar vörur eru útbúnar og svo seldar á Góðgerðardag sem haldinn var föstudaginn 1. desember síðastliðinn. Markaðstorg var opið öllum í íþróttahúsi og einnig sáu nemendur á elsta stigi um kaffihús í mötuneyti skólans fyrir gesti. Í ár söfnuðust hvorki meira né minna en 2.000.000 kr.

„Ein stærsta ákvörðun sem við tökum í tengslum við góðgerðarþemað er hvaða starfsemi við ákveðum að styrkja í það og það skiptið. Við höfum að mestu lagt það í hendur nemenda. Í öllum bekkjum fer fram umræða um hvaða starfsemi við viljum styrkja og í framhaldi af þeirri umræðu er rafræn könnun lögð fyrir hvern bekk. Kosning um hugmyndir nemenda fer einnig fram meðal starfsfólks. Sameiginleg niðurstaða starfsfólks og nemenda í ár var sú að styrkja Ljónshjarta en það eru samtök til stuðnings fólki sem misst hefur maka og barna sem misst hafa foreldri,“ segir í tilkynningu frá Grunnskólanum í Hveragerði.

„Þau málefni sem við höfum styrkt hingað til hafa verið valin með tilliti til þess að börn njóti á einhvern hátt góðs af styrknum. Meginstef okkar hefur þannig verið að börn styrki börn. Umtalsverðar fjárhæðir hafa safnast á þessum árum með sölu á vörum og eins hafa fjölmörg fyrirtæki stutt við bakið á söfnuninni með beinum peningastyrkjum,“ segir enfremur í tilkynningunni en styrkþegar þeirra hingað til hafa verið:

  • 2015: Amnesty International (460.00 kr.-)
  • 2016: Félag krabbameinssjúkra barna (810.000 kr.-)
  • 2017: Barnaspítali Hringsins (1.360.000 kr.-)
  • 2018: Birta, landssamtök þar sem foreldrar sem misst hafa börn sín skyndilega geta sótt styrk og stuðning (1.750.000 kr.-)
  • 2019: Neistinn, styrktarfélag hjartveikra barna (1.480.000 kr.-)
  • 2020: Féll niður vegna Covid
  • 2021: Dropinn, styrktarfélag barna með sykursýki (1.400.000 kr.-)
  • 2022: Einstök börn, stuðningsfélag barna og ungmenna með sjaldgæfa sjúkdóma eða sjaldgæf heilkenni (2.184.000.-)
  • 2023: Samtökin Ljónshjarta, samtök til stuðnings fólki sem misst hefur maka og barna sem misst hafa foreldri (2.000.000,-)

Nýjar fréttir