11.7 C
Selfoss

Fór allt úr böndunum og endaði með nýrri verslun

Vinsælast

Hjónin Atli Lilliendahl og Alda Ólafsdóttir opnuðu nýverið verslunina Made in Ísland að Austurvegi 44 á Selfossi, þar sem veitingastaðurinn Local var áður til húsa. Atli er innfæddur Selfyssingur og ólst upp á Selfossi og í Flóanum. Hann er menntaður kjötiðnaðarmaður frá SS, fyrrverandi bóndi í Skálmholti í Flóahreppi. Atli fluttist til Grænlands um 1989 og bjó í Nuuk á Grænlandi í rúm 30 ár áður en hann fluttist til Íslands árið 2020og býr með eiginkonu sinni Öldu Björk Ólafsdóttur. Alda er fædd í Reykjavík þar sem hún bjó til 13 ára aldurs þegar hún flutti til Svíþjóðar og þaðan til London árið 1989, þar sem hún bjó og starfaði sem söngkona í rúm 30 ár. Líkt og Atli flutti hún til Íslands árið 2020 og hafa þau búið sér heimili á æskuslóðum hans í Flóanum.

Made in Ísland. Ljósmynd: Alda Ólafsdóttir.

„Við erum starfandi í ferðaþjónustu ásamt því að reka fyrirtækið Viking Kitchen sem er með starfsstöð á Hellu á Rangárvöllum, þar sem við framleiðum meðal annars fiskisnakk undir vörumerkinu Krispa. Starfandi í ferðaþjónustu, og sem framleiðendur íslenskrar vöru, höfum við orðið vör við áhuga ferðamanna á íslenskum kúltúr, hönnun og matargerð. Jafnframt sem félagsmenn í samtökum smáframleiðenda, hversu erfitt er fyrir smáframleiðendur og handverksfólk að koma sinni vöru á framfæri,“ segja hjónin í samtali við Dagskrána.

Verslunin býður framleiðendum og handverksfólki að leigja hillupláss í versluninni og stjórna algjörlega verðlagningu á sinni vöru. Jafnframt er boðið upp á umboðssölu fyrir þau sem velja það.

„Vöruúrvalið er mjög fjölbreytilegt, úrval matvæla svo sem kjöt, fiskur, mjólkurvörur, heilsuvara, te, söl hunang og margt fleira. Mikið úrval handverks svo sem keramik, skartgripir, hnífar, töskur prjónavörur, málverk og lengi mætti telja. Seljum einnig vörur frá vernduðum vinnustöðum,“ bætir Alda við.

Íslenskt já takk. Ljósmynd: Alda Ólafsdóttir.

Made in Ísland tryggir viðskiptavinum sínum það að einungis séu seldar vörur sem eru bæði hannaðar og framleiddar á Íslandi, og munu Alda og Atli leggja sitt af mörkum til að gera íslenskan kúltúr, matargerð og handverk aðgengilegt fyrir Íslendinga og ferðamenn.

„Við höfum fengið frábærar viðtökur og margir af okkar söluaðilum hafa sagt að þeir hafi beðið eftir svona verslun í mörg ár. Við höfum einnig hafnað mörgum seljendum sem ekki uppfylla þær kröfur sem við gerum. Það er algjört skilyrði að varan sé bæði hönnuð og framleidd á Íslandi,“ segir Atli.

Þau telja að verslunin muni hafa mikil áhrif á nærsamfélagið. „Þar sem við setjum íslenska vöru í hásæti og hvetjum alla íbúa til að gefa íslenska framleiðslu þegar gefa skal gjafir.“

Alda og Atli segja þó að aldrei hafi staðið til að opna verslun. „Við vorum að leita eftir aðstöðu fyrir „Take-away“stað sem til stendur að opna á Selfossi á næsta ári. Okkur vantaði fyrst og fremst lager, frysti og kæliaðstöðuog leigðum húsnæðið með það fyrir augum. En svo fór þetta allt úr böndunum og hugmyndir vöknuðu um að samnýta aðstöðuna og færa okkar ástríðu á íslenskum kúltúr og framleiðslu út í lífið, og þetta er útkoman. Við höfum eingöngu fengið frábærar viðtökur og hrós fyrir framtakið og höfum nú þegar fengið fyrirspurnir um að opna svona verslun á norðurlandi, svo hver veit hvað gerist í framtíðinni,“ segia Alda og Atli brosmild að lokum.

Nýjar fréttir