6.7 C
Selfoss

Myndi skrifa bók með útópískum gleraugum

Vinsælast

…segir lestrarhesturinn Sigurður Þór Haraldsson

Sigurður Þór Haraldsson er fæddur og uppalinn Selfyssingur. Hann lauk grunnskólaprófi frá Grunnskólanum á Selfossi og stúdentsprófi á eðlisfræðibraut frá FSu. Eftir stúdent lá leiðin til Reykjavíkur þar sem hann bjó í nokkur ár og lærði vélaverkfræði við Háskóla Íslands og lauk þaðan mastersgráðu. Sigurður býr í dag á Selfossi ásamt konu, fjórum börnum og einum hundi. Sigurður hefur síðustu ár starfað sem veitustjóri Selfossveitna.

Hvaða bækur ertu að lesa núna?

Eins og stendur er ég með nokkrar bækur á náttborðinu sem ég hef reyndar lesið áður en er að glugga í þær af og til. Þetta eru stafli af sjálfshjálparbókum og fræðibókum sem vekja mann til umhugsunar um mismunandi hluti í lífi og starfi. Hef til dæmis mjög gaman af bókinni Listin að vera Fokk sama eftir Mark Manson þar sem höfundur fjallar á mjög skemmtilegan máta um það sem skiptir í raun og veru máli og hvað manni getur verið fokk sama um. Ég er einnig að glugga í bókina 12 Rules for Life: An Antidote to Chaos eftir Jordan Peterson en eins og nafnið gefur til kynna fjallar hún um tólf reglur sem hann telur gott að lifa eftir og þó maður sé ekki sammála öllu þá vekur hún lesandann til umhugsunar. Aðrar bækur sem mér finnst mjög áhugaverðar í þessum stafla eru bækur eins og Borðaðu froskinn sem er frábær bók um tímastjórnun og forgangsröðun og Skipulag alheimsins eftir Stephen Hawkings og Leonard Mlodinow þar sem þeir skýra út hin ýmsu lögmál eðlisfræðinnar eins og skammtafræði á mjög skemmtilegan og einfaldan máta.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Ég myndi segja að ég sé alger alæta á bækur en fæ oft æði fyrir ákveðnum bókaflokkum og tek þá tímabil þar sem ég les eingöngu þannig bækur. Í gegnum tíðina hef ég líklega lesið mest af ævintýrabókum en þar eru í sérstöku uppáhaldi Hringadróttinsaga sem var ein af þeim fyrstu sem algerlega greip mig og ég gat eiginlega ekki lagt frá mér. Ein af þeim bestu er líklega Game of Thrones bókaserían með öllum sínum margslungnu misgráu persónum og pólítík en samt vont að rithöfundurinn George R.R Martin hafi ekki enn náð að klára söguna þó þeir hafi gert það í þáttunum. Eitt sinn fékk ég algert æði fyrir Laxness og las flestar bækurnar hans á mjög stuttum tíma. Á tímabili var það Sven Hassel og bækurnar hans um líf hermanna í seinni heimsstyrjöldina sem eru byggðar á reynslu hans sem hermanns. Í þeim bókum fær maður innsýn í þær hræðilegu aðstæður sem myndast í stríðum og minnir rækilega  á mikilvægi friðar í heiminum.

Varstu alinn upp við lestur bóka?

Ég er alinn upp í kringum bækur og hafði mjög gaman af því að lesa sem krakki. Fannst til dæmis mjög gaman að fara á bókasafnið og skoða alla þá ævintýraheima sem það hafði upp á að bjóða. Svo var til heilmikið af bókum hjá ömmu og afa þar sem hægt var að finna allskonar bækur og auðvelt gleyma sér þar. Helstu bækurnar sem standa upp úr frá æskunni eru til dæmis Fimm bækurnar eftir Enid Blydon, Ferð Eiríks til Ásgarðs eftir Lars Henrik Olsen og þegar ég var um fermingu las ég í fyrsta sinn Hringadróttinssögu og eftir það tók ég langan kafla þar sem þefaði upp flestar ævintýrabækur sem ég komst í.

Segðu í stuttu máli frá lestrarvenjum þínum.

Ég á það til að lesa í skorpum, les kannski margar bækur á mjög stuttum tíma en er síðan með sömu bókina á náttborðinu í marga mánuði. Lestur er fyrir mér eins og góð hugleiðsla og maður gleymir daglegu amstri. Finnst til dæmis mjög gott að lesa til að slaka á og ekki verra ef maður vaknar við að bókin detti á andlitið.

Áttu þér einhverja uppáhaldshöfunda?

Það eru ansi margir höfundar sem hafa gripið mig í gegnum tíðina og erfitt að negla einhvern einn. Það koma upp í hugann höfundar eins og J.R.R Tolkien (Hringadróttinsaga), Halldór Laxness með öllum hans frábæru bókum og raunsæi, Robert Jordan (Wheel of Time), Terry Pratchet (Discworld) með sínar kómísku ádeilur, George R.R Martin (Game of Thrones) og svo mætti lengi telja.

Hefur bók einhvern tímann rænt þig svefni?

Svo sannarlega þó það sé minna um það í seinni tíð. Þegar ég var yngri var oft erfitt að leggja frá sér spennandi bók og oft lesið langt fram á nætur og þá sérstaklega í fríum.

En að lokum Sigurður, hvernig bækur myndir þú skrifa sem rithöfundur?

Ætla að ég myndi ekki skrifa einhverskonar vísindaskáldsögu eða bók um áhrif tækni og vísinda á samfélagið. Ég fylgist vel með tækninýjungum og gaman er að ímynda sér hvaða áhrif það hefur á samfélagið til framtíðar. Er frekar bjartsýnn að eðlisfari þannig að bókin væri líklegast skrifuð með útópískum gleraugum.

Nýjar fréttir