7.8 C
Selfoss

Upplestur Esseyja / Island fiction – Þorgerður Ólafsdóttir

Vinsælast

Sunnudaginn 26. nóvember kl. 15:00, mun Þorgerður Ólafsdóttir myndlistarkona segja frá nýútkominni bók sinni um Surtsey og kynna verkið Spor sem er í Kömbunum.

Í tengslum við útgáfuna og gosafmæli Surtseyjar, hefur Þorgerður sett upp verkið Spor á Kömbunum, þar sem vel sést til Surtseyjar í björtu veðri. Verkið er hluti af Sequences XI myndlistarhátíð sem fer fram í Marshallhúsinu, Safnahúsinu á Hverfisgötu og Norræna húsinu.

Í þessari fallegu útgáfu er fléttað saman listaverkum, ferðasögum og textum sem fjalla um margslungnar hliðar á tilveru og sögu Surtseyjar en í nóvember verða 60 ár liðin frá því Surtsey tók að myndast í eldgosi á hafi úti.

Esseyja er þverfaglegt rit þar sem lesendur fá að skyggnast inn í marglaga veröld Surtseyjar út frá ólíku sjónarhorni myndlistar, náttúrufegurðar, menninga- og náttúruminjum, áhrifum mannfólks á náttúruna og ekki síst upplifun okkar af landslagi. Sumarið 2021 hlaut Þorgerður rannsóknarleyfi til Surtseyjar og dvaldi þar í þrjá daga ásamt hópi vísindamanna. Útgáfan inniheldur fjölda ljósmynda af verkum Þorgerðar sem hún hefur unnið að í tengslum við Surtsey, ásamt fjölbreyttum myndum af umhverfi eyjarinnar.

Í samspili við myndlistarverkin í bókinni eru stuttar greinar, eða esseyjur, eftir fjórar fræðikonur og rannsakendur; Birnu Lárusdóttur, íslensku- og fornleifafræðing, Guðbjörgu R. Jóhannesdóttur, umhverfisheimspeking, Þóru Pétursdóttur, fornleifa-og minjafræðing og Becky Forsythe, listfræðing og sýningastjóra. Útgáfan er vegleg, tvöhundruð blaðsíður á lengd og er bæði með íslenskum og enskum texta og er gefin út í samstarfi við rannsóknarverkefnið Relics of Nature sem Þorgerður og Þóra eru einnig þátttakendur í.

Fyrir útgáfuna gefa Þorgerður og Gunndís Ýr Finnbogadóttir myndlistarkona, lesendum innsýn í nýtt verk sem byggir á viðtölum við ólíka hópa Surtseyjarfara. Verkið er hluti af sýningu þeirra, Óstöðugu landi, sem opnar á næsta ári í Gerðarsafni sem fjallar um reynslu fólks af landslagi Surtseyjar.

Listasafn Árnesinga

Nýjar fréttir