9.5 C
Selfoss

Minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa

Vinsælast

Árlegur alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa var haldinn sunnudaginn 19. nóvember sl. og í ár var sérstök áhersla lögð á fyrstu viðbrögð á slysstað og neyðarhjálp.

Minningarathafnir voru haldnar víðsvegar um landið í tilefni dagsins. Klukkan 14. fluttu allar útvarpsstöðvar landsins lag KK (Kristjáns Kristjánssonar) When I think of Angels, í flutningi hans og Ellenar systur hans, sem er einkennislag dagsins. Kristján samdi lagið til minningar um systur þeirra sem lést í umferðarslysi í Bandaríkjunum árið 1992.

Alþjóðlegur minningardagur

Tilgangur minningardagsins er að minnast þeirra sem látist hafa í umferðinni, leiða hugann að ábyrgð hvers og eins í umferðinni og ekki síst að þakka þeim viðbragðsaðilum sem veita hjálp og björgun.

Minningardagurinn er alþjóðlegur undir merkjum Sameinuðu þjóðanna, sem hafa tileinkað þriðja sunnudag í nóvember þessari minningu. Um það bil 3.600 einstaklingar láta lífið og hundruðir þúsunda slasast í umferðinni víðsvegar um heiminn á degi hverjum, eða um 1,3 milljón manns á ári.

Að minningardeginum standa Samgöngustofa, innviðaráðuneytið, Sjálfsbjörg, Landsbjörg, Neyðarlínan, Lögreglan og Vegagerðin.

Fórnarlamba umferðarslysa var minnst á sunnudag. Meðfylgjandi mynd var tekin við minningarstundina á Hellu. Ljósmynd: Landsbjörg.

 

Nýjar fréttir