10 C
Selfoss

Flúði heimilið með Grindavíkurtreyjuna og servíettur

Vinsælast

Líkt og flestum íslendingum er kunnugt, hafa Grindvíkingar þurft að flýja heimili sín í kjölfar mikilla jarðhræringa og möguleika á eldgosi á svæðinu og hafa þau í kjölfarið þurft að leita skjóls við misjafnar aðstæður hvarvetna um landið.

Hin glaðlynda Sólveig Ólafsdóttir, gjarnan kölluð Solla, er formaður kvenfélags Grindavíkur og Grindvíkingur í húð og hár. Hún er gift Eiríki Óla Dagbjartssyni, útgerðarstjóra hjá Þorbirni. Saman eiga þau fjórar dætur og sex barnabörn sem eru allt strákar. Þrjár af dætrunum eru búsettar í Grindavík og ein á Selfossi og leituðu þau hjónin skjóls hjá dóttur sinni á Selfossi hinn örlagaríka föstudag 10. nóvember sl.

„Kannski þess vegna komum við á Selfoss, því hér áttum við í hús að vernda. Við erum algjörir Grindvíkingar, nánast allt okkar fólk er frá Grindavík, feður okkar voru báðir fæddir og uppaldir Grindvíkingar og mæður okkar beggja búa þar og við erum bæði fædd og uppalin í Grindavík,“ segir Solla í samtali við Dagskrána.

„Ég hélt hreinlega að eitthvað væri að skríða undir húsinu okkar“

Solla er kvenfélagskona inn að beini. „Ég var á föstudaginn í jarðskjálftunum að pakka og græja fyrir bingó sem átti að vera í Grunnskólanum í Grindavík á sunnudeginum. Það eru á bilinu 200-250 manns sem mæta á þessi bingó sem eru ein stærsta fjáröflun kvenfélagsins. Ég sá það þarna á föstudeginum að það vantaði tússpenna fyrir bingóið þannig að við hjónin skelltum okkur í Costco til að kaupa tússpenna. Við hefðum kannski átt að vera heima að pakka niður en við vissum ekki að bærinn okkar yrði rýmdur þetta kvöld. Á heimleiðinni heyrðum við í fréttum að í Grindavíkurveginn hefði komið stór sprunga og væri því lokaður. Þannig að við gátum ekki farið þá leið heim, þá var ekkert annað í stöðunni en að keyra Reykjaneshringinn þar sem við mættum hundruðum bíla á leið útúr bænum. Við erum á rafmagnsbíl og sáum að rafmagnið myndi ekki duga á Selfoss og þurftum því að bíða til rúmlega tíu meðan bíllinn var í hleðslu við þorðum ekki á dísel bílnum þar sem hann var enn á sumardekkjum og fljúgandi hálka úti á Reykjanesinu. Ég hef aldrei upplifað aðra eins skjálfta meðan við biðum, svakalega var ég hrædd, ég hélt hreinlega að eitthvað væri að skríða undir húsinu okkar,“ bætir Solla við.

Vildu bara svefnfrið yfir nóttina

Á meðan bíllinn var í hleðslu fundu Solla og Eiríkur til það nauðsynlegasta fyrir eina nótt, rúmföt, náttföt og sundtösku og hlóðu í bílinn. „Enda ætluðum við bara að vera yfir nóttina og fá svefnfrið fyrir skjálftunum. Allsherjar rýming kom eftir að við yfirgáfum Grindavík rúmlega tíu á föstudagskvöldið 10. nóvember. Þetta voru búnir að vera rosalegir skjálftar frá 25. októ­ber, en aldrei eins og þetta föstudagskvöld. Þetta er þriðja árið í röð sem við búum við jarðskjálfta og vorum við aðeins farin að venjast þeim, en ekki þessum skjálftum, þetta var allt öðruvísi en við höfum upplifað, enda beint undir fótum okkar. Við búum þannig í bænum að við erum alveg yst á rauða hættusvæðinu.“

Grindavíkurtreyja og rifnar gallabuxur

„Ég tók Grindavíkur-körfuboltatreyjuna mína með og var hún ein af fáu fatakyns sem ég tók með mér. En þar sem við vorum sem fyrr segir bara á leið í skjálftafrí þessa nótt vorum við ekki með föt til skiptanna. Þegar ég var að taka litla ömmuprinsinn minn upp af leikmottunni hans á sunnudagsmorguninn finn ég að gallabuxurnar rifna þvert yfir rassinn. Nú voru góð ráð dýr. Lindex á Selfossi var opin á sunnudeginum hafði boðið Grindvíkingum uppá 10.000kr inneign og gat ég nýtt mér það og keypti þessar fínu buxur og auðvitað auka nærföt. Okkur vantaði Samsung TV í bústaðinn og fengum eitt stk hjá Nova á Selfossi og ekki að tala um annað en góðan afslátt hjá Nova. Sama með sundlaugina hér á Selfossi þar sem við höfum ekki fengið að borga ennþá. Við finnum alstaðar mikinn hlýhug og erum endalaust þakklát fyrir það. Þetta snýst ekki endilega um aurinn, það er bara svo gott að finna að allir vilja gera eitthvað til að leggja sitt af mörkum,“ bætir Solla við.

Solla skipti rifnu gallabuxunum út í Lindex Selfossi.

Aftur á sömu slóðum

„Kvöldið sem fyrsta gosið hófst árið 2020, var ég stödd á Syðri-Brú í Grímsnesi á stjórnarfundi á vegum kvenfélagasambandsins. Maðurinn minn var búinn að hringja nokkrum sinnum og ég hafði ekki svarað en þá fer síminn hjá sessunaut mínum að hringja og sú svarar. Þá var sonur hennar í símanum og spurði hvort ég væri ekki með henni á fundinum og hvort ég vissi ekki að það væri farið að gjósa í Grindavík. Svo núna þegar öll lætin byrjuðu var ég aftur stödd á Syðri-Brú, svo ég beið alltaf eftir því að einhver myndi hringja,“ segir Solla og hlær. „Nú er ég komin aftur í bústað skammt frá Syðri-Brú og er ótrúlega þakklát þeim Friðsemd og Steinari fyrir að hafa lánað okkur húsið, sem okkur líður svo vel í, við megum vera þar í einhverja mánuði og það er alveg ómetanlegt,“ segir Solla.

Upplifði ofurstjórnun

Solla segist hafa verið svolítið hugsi þegar 48 klukkustundir höfðu liðið frá því að þau flúðu skjálftana í Grindavík. „Ég flúði nú bara til að fá svefnfrið föstudagnóttina og átti ekki von á að ég fengi ekki að fara heim næstu daga. Á sunnudagskvöldið var ekki komið gos en gæti verið að koma ef allt fer á vesta veg. Þá var ekki búið að leyfa fólki að fara heim og kíkja á eigur sínar og ég verð að segja að ég upplifði þetta bara sem ofurstjórnun.“

„Á mánudeginum var gefið út að þeir sem byggju í Appelsínugula hverfinu mættu fara heim í 5 mínútur í fylgd með björgunarsveitarfólki  og sækja verðmæti. „Þar sem dóttir mín sem býr í því hverfi og var erlendis ákváðum við hjónin að fara og þegar við vorum búin að bíða í á þriðja tíma opnuðu þeir fyrir alla umferð í Grindavík og fengum við að fara á bílunum inn á svæðið og gátum því sótt dót á báðum stöðum og bílinn hennar sem var í bílskúrnum hjá okkur. Þetta var ólýsanlega góð tilfinning sem róaði mig mikið þar sem ég var hálf svefnlaus af áhyggjum“ segir Solla.

Tók servíettur fram yfir nauðsynjar

„Nú hugsa ég: „Ooo.. Af hverju tók ég ekki þetta og þetta…“ sem við öll erum örugglega búin að upplifa. En svona er þetta bara,“ Segir Solla og yppir öxlum. „Við sáum blessunarlega engar skemmdir eða sprungur á húsinu okkar á þeim fáu mínútum sem við fengum að fara heim og rafmagn og hiti hafði ekki farið af. Fyrstu dagarnir í skipulaginu gengu mjög brösuglega, hringt var í suma dag eftir dag og aðra ekkert. Fólki var gefinn tími en þurfti að bíða í röð í 5-6 klukkutíma eftir því að komast inn í bæinn í fylgd með björgunarsveitafólki. En þeim hefur eitthvað tekist að skipuleggja þetta betur og í dag er fólk að fá að komast inn í bæinn á þeim tímum sem þeim eru gefnir skilst mér. Þann stutta tíma sem ég fékk að fara heim til að sækja einhverjar eigur tók ég nýjustu söluvöru kvenfélags Grindavíkur, dagbækurnar sem við í Kvenfélaginu erum að selja og óseldar servíettur. Á þær eru gildi félagsins prentuð með handskrift Birnu Óladóttur fyrrum formanns og heiðursfélaga. Kærleikur, Gleði, Samvinna. Ég verð að sega að hann Erling Sigurðsson, offsetprentari sem hefur prentað á servíetturnar fyrir okkur, er alveg magnaður maður. Hann er rúmlega sjötugur og er búin að bjarga okkur alveg! Hann prentaði á 400 servéttur sem við notuðum á bleikum fundi okkar í október, hann gerði nokkra pakka sem við ákváðum að prófa að selja og allt seldist upp. Við fegnum margar pantanir og nú prentar hann á hvítar,bleikar og rauðar fyrir okkur. Ekki nóg með að hann prenti á servétturnar, þá á ég erfitt með að fá að borga honum fyrir vinnuna hans. Nokkur félög hafa haft samband og vilja kaupa og selja servétturnar fyrir okkur til aðstoðar fyrir okkar fjáröflunin. Kvenfélag Bústaðarsóknar var með basar síðustu helgi og var salan með ólíkindum og erum við þeim afar þakklátar fyrir aðstoðina,“ bætir Solla við.

Fallegu servíetturnar sem kvenfélag Bústaðarsóknar seldi til styrktar kvenfélagi Grindavíkur.

Á bágt með að skilja skipulagsleysið

„Það sem ég er mest hissa á er að skipulagið sé ekki komið lengra. Fyrir þremur árum áttum við von á gosi við Þorbjörn,grin við erum búin að eiga von á því eiginlega í þrjú ár

Erum við ekki búin að læra eitthvað á þessum þremur gosum? Til dæmis með úthringlistana við skráðum okkur á 1717 þar ættu að koma inn rétt símanúmer og heimilisföng, en ég held að farið sé eftir Já.is, því hringt er í fólk eftir hverfum. Sá sem fór samferða mér var skrásettur í Laut en býr á Efstahrauni t.d. og hef ég heyrt fleiri slík dæmi. En það er ekki við björgunarsveitarfólk og aðra sjáboðliða að sakast sem eru þarna að gera sitt allra besta. Allt yndislegt fólk sem fer eftir fyrirmælum þeirra sem stjórna aðgerðum.“

„Elsta dóttir mín og tengdasonur eru í björgunarsveitinni í Grindavík og hafa þau staðið vaktina, ásamt tengdasyninum héðan frá Selfossi, yngsta dóttir okkar er líka í sveitinni í Grindavík en er reyndar ekki að standa vaktir í dag þar sem hún er heima með einn 4 mánaða gullmola hér á Selfossi. Björgunarsveitarfólkið okkar eru ósérhlífnir einstaklingar sem eru að leggja á sig vinnu sem er mun erfiðari en flestir gera sér grein fyrir. Og verð ég þeim ævinlega þakklát fyrir það,“ bætir Solla við.

Grindvíkingur í húð og hár. Stolt Solla í treyju heimaliðsins.

Allir vegir færir með kærleika, gleði og samvinnu

„Ég hef alltaf haft gaman að körfunni, dæturnar hafa allar verið að æfa körfubolta og svo eigum við tengdason í liðinu í dag. Það var mögnuð stund þegar Grindvíkingar fjölmenntu á leiki kvenna- og karlaliða Grindavíkur í körfubolta síðasta laugardag sem enduðu að sjálfsögðu báðir með sigri Grindvíkinga. Hugur minn er hjá íbúum Grindavíkur á þessum erfiðu tímum. Við erum að upplifa atburði og tilfinningar sem erfitt er að koma í orð en með kærleika, gleði og samvinnu eru Grindvíkingum allir vegir færir. Grindavík er frábært samfélag sem hefur blómstrað og okkur hlakkar til framtíðarinnar sem ein heild á ný, því Grindavík er bærinn okkar💛💙,“ segir Solla að lokum.

Nýjar fréttir