-3.9 C
Selfoss

„Afar mikilvægt að viðbrögð almennings á slysstað séu sem réttust.“

Vinsælast

Viðbragðsaðilar í Árnessýslu stóðu fyrir minningarstund í Þingborg sunnudaginn 19. nóvember, á minningardegi um fórnarlömb umferðarslysa.

Minningarstundin byrjaði kl 18 og mættu fulltrúar frá öllum viðbragðsaðilum á svæðið.  Hluti þeirra þurfti því miður fljótlega að fara í útkall þar sem bæði varð bílslys og svo kveiknaði í bíl og þessu þurfti að sinna. Pétur Pétursson slökkviliðsstjóri hélt ræðu sem kom inná áherslumál ársins sem var fyrstu viðbrögð á slysstað og neyðarhjálp og hér að neðan má lesa ræðu Péturs í heild sinni.

„Kæru félagar og samverkafólk, mikið er gott að sjá ykkur öll hér saman komin.

Öll höfum við einhverja reynslu af umferðaslysum. mis erfiða og mis sára. Sum okkar hafa unnið á erfiðum og krefjandi vettvöngum, sum hafa unnið á vettvöngum þar sem kunningjar, vinir eða jafnvel ástvinir hafa verið þolendur. Sum okkar hafa sjálf verið þolendur slysa og sum okkar hafa unnið á vettvöngum þar sem hluttekning okkar hefur hefur tekið stóran toll af okkur sjálfum.

Sum okkar (líklega flest okkar), eigum eða höfum átt vini eða ástvini sem hafa orðið fórnalömb umferðarslysa og þekkjum því vel þá tilfinningu að fá ekki við neitt ráðið og geta einungis vonað það besta.

Mörg okkar hafa komið að vinnu við umferðaslys og getur upplifun okkar við þá vinnu verið mjög misjöfn. Sú upplifun þarf þó ekki endilega að stjórnast af eðli eða umfangi slysins. Upplifun fólks er ekki alltaf sú sama. þarna spilar oft inní hvernig staðan er á sálartetrinu í okkur sjálfum er þegar okkar mikilvægu verk eru unnin.Eitt af því sem að mínu mati getur hjálpað okkur með „jákvæða“ upplifun á erfiðum slysavettvangi er góð þjálfum og undirbúningur. Það að geta gengið hreint til verks, vita hlutverk sitt í aðgerðinni og þekka vel til þess búnaðar sem notaður er til starfanna er stór liður í því að geta gengið sáttur með sitt hlutverk frá verkefninu þó svo að útkoma verkefnisins sé ekki alltaf sú sem við gjarnan vildum kjósa.

Til þess að tryggja að okkar fyrstu viðbrögð séu rétt, fumlaus og geri það gagn sem við vonumst til að þau geri, þurfum við að vera undirbúin og þjálfuð.

Eins og við öll vitum þá er þjálfun í vinnu á vettvangi ekki eitthvað sem maður gerir bara einu sinni heldur er það eitthvað sem við þurfum stöðugt að vera að vinna í og þjálfa okkur í.

Ef við lítum aðeins út fyrir okkar ramma, það er að segja ramma viðbragðsaðila, varðandi viðbrögð á slysstað og neyðarhjálp, er afar mikilvægt að viðbrögð almennings á slysstað séu sem réttust. Það er jú oft hinn almenni borgari (vegfarendur), sem fyrstir koma að slysum.

Kennsla skyndihjálpar bæði til fagaðila og almennings er svo mikilvægt verkfæri til þess að auka líkurnar á því að eins vel til takist og mögulegt er á slysavettvangi.

Við ættum öll að styðja við og hvetja alla þá sem í kringum okkur eru að sækja sér slíka þjálfun auk þess að leiðbeina sjálf þeim sem næst okkur standa að bregðast rétt við þegar komið er að slysavettvangi.

Það að fyrirbyggja frekari slys, kalla eftir hjálp og veita fyrstu hjálp þeim sem á þurfa að halda þar til fagaðilar koma á vettvang getur skipt svo ótrúlega miklu máli fyrir þolendur og aðstandendur þeirra.

Við þurfum að hjálpast að í þessu endalausa verkefni! Að hvetja fólk til dáða til þess að ná sér í þekkingu og færni í fyrstu viðbrögðum á slysstað og neyðarhjálp. þannig getum við lagt okkar lóð á vogarskálarnar til þess að gera umhverfið okkar eins öruggt og við mögulega getum.“

Eftir ræðuna var svo einnar mínútu þögn og kveikt á bláu ljósunum. Að lokum var boðið upp á heitt kakó og sætabrauð sem GK bakarí gaf. Vill undirbúningshópurinn færa GK Bakaríi kærar þakkir fyrir veitingarnar sem og Ingu húsverði í Þingborg fyrir þjónustuna og Flóahreppi sem gaf þeim leyfi til að nýta aðstöðuna.

Nýjar fréttir