8.9 C
Selfoss

Stöðugildum fjölgaði mest á Suðurnesjum og Suðurlandi

Vinsælast

Byggðastofnun hefur frá áramótum 2013/2014 gert árlega könnun á staðsetningu starfa á vegum ríkisins. Með störfum á vegum ríkisins er átt við stöðugildi greidd af Fjársýslunni, stöðugildi hjá opinberum hlutafélögum og stofnunum og stöðugildi hjá stofnunum sem hafa meirihluta rekstrartekna sinna af fjárlögum.

Þetta segir í frétt frá Byggðastofnun.

Fyrir liggja nú tölur um fjölda stöðugilda við áramót 2022/2023 og eru þær birtar í skýrslunni Hvar eru ríkisstörfin 31.12.2022? Einnig hefur mælaborð þar sem hægt er að skoða fjölda stöðugilda eftir landshlutum, sveitarfélögum og málaflokkum ráðuneyta verið uppfært með nýjustu gögnum.

Stöðugildi á vegum ríkisins voru 27.694 þann 31. desember 2022, þar af voru 18.015 (65%) skipuð af konum og 9.679 (35%) af körlum. Á árinu 2022 fjölgaði stöðugildum um 788 á landsvísu eða 2,9%.

Flest stöðugildi á vegum ríkisins eru staðsett á höfuðborgarsvæðinu, enda er meirihluti landsmanna búsettur þar. Hins vegar er hlutfall stöðugilda á höfuðborgarsvæðinu (70%) hærra en hlutfall landsmanna sem þar býr (64%).

Mest hlutfallsleg fjölgun stöðugilda varð á Suðurnesjum 10,7% og næst mest á Suðurlandi 9,1%. Á Suðurnesjum fjölgaði mikið hjá ISAVIA og lögreglunni á Suðurnesjum sem má eflaust rekja til upprisu ferðaþjónustunnar eftir heimsfaraldur og nokkur fjölgun varð hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Á Suðurlandi fjölgaði meðal annars hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands og þjóðgarðinum á Þingvöllum.

Nýjar fréttir