11.1 C
Selfoss

Baráttufundur ungra bænda

Vinsælast

Bekkurinn var þéttsetinn á baráttufundi Samtaka ungra bænda í Salnum í gær. Um 300 manns mættu til fundarins og fjöldi þeirra sem fylgdist með á streymi og beinni útsendingu frá fundinum skipti þúsundum.

Fundarmenn samþykktu einróma og með kröftugu lófataki eftirfarandi ályktun og áskorun til stjórnvalda um að opna augun og leggja við hlustir þegar rekstrarumhverfi landbúnaðar er annars vegar, hvort heldur sem er ómöguleiki líðandi stundar í skuldsettum búrekstri eða öll þau nýju tækifæri sem blasa við á heimsmarkaði vegna afdráttarlausra gæða íslenskrar matvælaframleiðslu.

Ályktun fundarins er svohljóðandi:

Engum sem vill sjá getur dulist að rekstrarumhverfi landbúnaðar á Íslandi er komið að fótum fram. Ungir bændur standa frammi fyrir fjárhagslegum ómöguleika og ungt fólk sem vill hefja hefðbundinn búskap á enga möguleika. Alls enga. Mikil ógn steðjar því að nauðsynlegri nýliðun í stétt bænda. Um leið er fæðuöryggi þjóðarinnar sett í uppnám. Við höfum nýlega séð skýr merki þess að þegar harðnar á dalnum er hver þjóð sjálfri sér næst hvað nauðþurftir varðar. Þess vegna þurfum við að slá skjaldborg um íslenskan landbúnað. Ekki eingöngu af öryggisástæðum heldur líka vegna menningarhlutverks búvöruframleiðslunnar sem samofið er þjóðinni frá því land var numið.

Á sama tíma og núverandi rekstrarskilyrði eru í raun ókleifur hamar fyrir ungt fólk stendur íslenskur landbúnaður frammi fyrir stórkostlegum nýjum tækifærum á heimsmarkaði. Þau felast í aukinni umhverfisvitund jarðarbúa í öllum heimshornum, nýjum kröfum um heilnæmi matvæla, vistvæna orkugjafa í framleiðslunni og heilbrigða búskaparhætti. Í þessum efnum erum við í allra fremstu röð. Þegar grannt er skoðað blasir það líka við að fjölmörg tækifæri felast í framsækinni nýsköpun í krafti þekkingar og nýrrar tækni. Til þess að nýta þessi sóknarfæri þurfa stjórnvöld að ryðja brautina og opna ungu fólki ný og spennandi tækifæri jafnt til búskapar sem rannsóknar-, vísinda- og þróunarstarfa á sviði landbúnaðarins.

Það eru beinlínis falsfréttir að landbúnaður í nágrannalöndum okkar beggja vegna Atlantsála þrífist án opinbers stuðnings. Og það getur í besta falli kallast upplýsingaóreiða þegar búið er að læða því inn hjá íslenskri þjóð með mætti endurtekningarinnar að stuðningur hérlendis við landbúnað sé meiri en annars staðar. Staðreyndin er einfaldlega sú að hvar sem er í heiminum er ræktun og framleiðsla landbúnaðarafurða svo kostnaðarsöm að stjórnvöld á hverjum stað kjósa að styðja starfsemina. Bæði til þess að varðveita atvinnugreinina og halda verði til neytenda hóflegu. Ísland er þar engin undantekning. En það er bull að stuðningur hérlendis við landbúnaðinn sé úr takti við það sem tíðkast í vestrænum heimi.

Baráttufundur Samtaka ungra bænda skorar á stjórnvöld að opna augun og leggja við hlustir. Þau verða að þekkja og skilja raunveruleika búreksturs í landinu. Í fyrsta lagi vandann. Í öðru lagi tækifærin. Í þriðja lagi alþjóðlega samkeppnisstöðu íslenska landbúnaðarins. Þar reynir á þekkingu á raunverulegum ríkisstyrkjum til matvælaframleiðslu um allan heim– bæði þá sem eru uppi á borðum og líka hina sem klæddir eru í alls kyns feluliti. Það er glapræði að leggja íslenskan landbúnað af. Þess vegna þarf að bregðast við án tafar. Seinna er of seint.

Fréttatilkynning frá Samtökum ungra bænda

Nýjar fréttir