9.5 C
Selfoss

Myndlistarfélag Árnessýslu breiðir út vængi sína

Vinsælast

Myndlistarfélag Árnessýslu er ekki nýtt af nálinni heldur var það upprunalega stofnað 1981. Stofnfélagar voru 28 og vildu með stofnun félagsins bæta aðstöðu til sýning og efla fræðslu um myndlist. Nú, rúmum 40 árum síðar, eru markmiðin enn af sama toga, auk þess sem það vill stuðla að samvinnu félagsmanna sem í dag telja um 70 en er sístækkandi hópur.

Ekki bara fyrir Ásgrím Jónsson, Erró og þeirra líka!

Öll sem áhuga hafa á myndlist og vilja stunda hana eru velkomin í félagið. Einhverjir félagsmenn eru byrjendur í listinni á meðan aðrir eru jafnvel með áratuga reynslu og hafa sýnt verk sín á fjölmörgum myndlistarsýningum. „Þessi breidd finnst okkur vera afar jákvæð og sýna styrk félagsins. Enginn þarf því að vera feiminn við að sækja um inngöngu í félagið og við lofum hlýjum móttökum og frábærum félagsskap“ segir Katrín Ósk Þráinsdóttir varaformaður félagsins. „Félagsmenn fá t.d. tækifæri til að sýna verk sín á sýningum félagsins, taka þátt í menningarferðum og fá aðgengi að aðstöðu fyrir listsköpun við hlið annarra félagsmanna. Uppsveiflan er þónokkur í starfinu hjá okkur um þessar mundir og ekki ólíklegt þú hrífist með ef þú ákveður að taka þátt“.

Blómlegt félagsstarf um þessar mundir

MFÁ er svo lánsamt að eiga griðarstað í Sandvíkursetri á Selfossi en sveitarfélagið Árborg lánar félaginu aðstöðu þar með þeirri ánægjulegu kvöð að taka þátt í viðburðum á vegum sveitarfélagsins. Til að mynda eru nokkrir viðburðir á vegum félagsins nú í Menningarmánuðinum október og var sá fyrsti síðastliðið miðvikudagskvöld þegar við héldum örnámskeið í blandaðri tækni á vinnustofu félagsins í Sandvíkursetri. Kristjana Gunnarsdóttir myndlistarkennari og félagsmaður leiðbeindi þátttakendum og í kjölfarið fengu þeir að spreyta sig sjálfir með ýmis konar efnivið, þar á meðal akrílmálningu, vatnslitum, kolum, trélitum, vaxlitum og bleki! Við opnuðum jafnframt sýninguna Flæði í Sundhöll Selfoss síðastliðinn laugardag þar sem 12 konur sýna vatnslitamyndir. Sýning mun standa yfir til 31. október.

Framundan er Opið hús á vinnustofu félagsins, laugardaginn 14. október frá kl. 11 – 14 , í tengslum við Menningargönguna og Menningarmánuðinn október. Þar gefst gestum og gangandi tækifæri til að spjalla við félagsmenn þar sem þeir sinna listsköpun sinni og allar líkur eru á að dásemdar kaffi sé á boðstólnum auk þess sem vöffluilmur fyllir gjarnan loftið á stundum sem þessum. Annað örnámskeið verður síðan haldið föstudagskvöldið 20. október kl. 19:30 og hvetjum við alla áhugasama að mæta og eiga notalega stund með okkur.

Gallerí Gangur og heimasíða MFÁ!

Ekki er þó allt upptalið heldur er jafnframt verið að standsetja betri sýningaraðstöðu en áður hefur verið í Sandvíkursetrinu og stefnt er að opnun „Gallerí Gangs“ í október eða nóvember. Samhliða er stefnt á að „opnun“ heimasíðu félagsins sem mun hýsa helstu upplýsingar um starfsemina auk þess sem félagsmönnum gefst tækifæri til að sýna og selja verk sín, ef þeir kjósa það, á heimasíðunni.

Það er því rík ástæða til að fylgjast með Myndlistarfélagi Árnessýslu, t.d. á FB-síðu félagsins.

Nýjar fréttir