9.5 C
Selfoss

Aðeins 1% notar almenningssamgöngur til vinnusóknar utan heimabyggðar

Vinsælast

Í nýlegri rannsókn frá Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri, um áhrif fjarvinnu á samgöngur, kemur fram að aðeins 1% Íslendinga sem sæki vinnu utan heimabyggðar noti almenningssamgöngur. Þá segir einnig að Íslendingar séu eftirbátar annarra þjóða í að innleiða fjarvinnu af krafti í kjölfar heimsfaraldurs. Þátttakendur í rannsókninni voru 201, 102 karlar og 98 konur. Nokkuð breiður aldurshópur tók þátt í könnuninni en flest svör bárust frá fólki fætt á árunum 1980-1989.

„Frá aldamótum hefur orðið gríðarleg fólksfjölgun á jaðarsvæðum höfuðborgarsvæðisins. Íbúafjölgun á Suðurnesjum nam til að mynda 80,7% á tímabilinu 2000-2022 samkvæmt Byggðastofnun (e.d.), íbúafjölgun í Árborg nam 90,4%, 69,5% í Hveragerðisbæ og 46,8% á Akranesi. Margir íbúar þessara svæða sækja atvinnu utan búsetusvæðis, s.s. á höfuðborgarsvæðinu og lögðu áður fyrr daglega leið sína til vinnu í einkabíl. Í skýrslu ViaPlan (2018) um rannsókn sem gerð var með tilstyrk Rannsóknasjóðs Vegagerðarinnar kemur fram að á Akranesi og Selfossi sóttu 18-42% íbúa vinnu á höfuðborgarsvæðinu og langstærsti hluti þeirra (rúmlega 70%) ferðaðist með einkabíl til að sækja vinnu. Svipaðar tölur er að finna í þjónustukönnunum Byggðastofnunar frá 2018 sem sýndu að 40% svarenda á Suðurlandi sóttu vinnu út fyrir sitt nærumhverfi, þar af 28% til höfuðborgarsvæðisins.“

90% einir í bílnum

31% íbúa jaðarsvæða höfuðborgarsvæðisins sem sækja vinnu á höfuðborgarsvæðið segja að breyting hafi orðið á vinnusókn sinni í kjölfar heimsfaraldurs. 68% þeirra sem sóttu vinnu á höfuðborgarsvæðið, sóttu vinnu 5 sinnum eða oftar fyrir Covid en nú gera 53% það. Aðeins 1% þeirra sem sækja vinnu utan heimabyggðar segjast nota almenningssamgöngur til vinnusóknar en 95% einkabíl. Af þeim sem ferðast með einkabíl eru 90% einir í bílnum. 35% ferðast með rafbíl til að sækja vinnu og samkvæmt 81% rafbílaeigenda hafði það að mjög miklu leyti áhrif á að skipta yfir í rafbíl að sækja vinnu um lengri leið.

Mesta breyting á landsvísu hefur orðið á vinnusókn íbúa Suðurlands til höfuðborgarsvæðisins, en 39% þátttakenda þaðan sögðu mun á vinnusókn sinni eftir faraldurinn, 69% Sunnlendinga sem sóttu vinnu til höfuðborgarsvæðisins fyrir covid gerðu það 5 sinnum í viku eða oftar en sú tala hefur lækkað niður í 35%, flestir þeirra sem sækja vinnu á höfuðborgarsvæðið gera það nú 4 sinnum í viku, frekar en 5 sinnum. 63% þeirra sem sækja vinnu utan heimabyggðar segjast hafa einhvern möguleika á að vinna sína vinnu heima eða í heimabyggð en 37% segjast ekki hafa möguleika á því. Algjör viðsnúningur er á hlutfalli þeirra sem segjast hafa möguleika á heimavinnu í dag, samanborið við rannsóknir sem framkvæmdar voru fyrir faraldurinn.

Fjórum til fimm sinnum meiri möguleiki á fjarvinnu en fyrir faraldur

„Við Covid-19 faraldurinn varð bylting í fjarvinnu hér á landi þegar fjöldi fólks sem áður hafði aðeins stundað staðbundna vinnu hóf að stunda fjarvinnu að heiman. Í rannsókn ViaPlan (2018) kom fram að milli 60 og 70% þátttakenda sem búsettir voru á Akranesi, Selfossi og Hveragerði höfðu ekki möguleika á að vinna heima. Nú þegar takmörkunum vegna faraldursins hefur verið aflétt er vert að kanna hvort breyting hafi orðið á þessu og hvernig ferðamynstrið verður í fjarvinnu til lengri tíma. Samkvæmt skýrslu McKinsey Global Institute (2021) er enn óljóst hve mikil fjarvinna verður unnin eftir faraldurinn. Hins vegar var metið að um 20-25% starfsmanna í þróuðum hagkerfum gætu unnið fjarvinnu þrjá til fimm daga í viku, sem er fjórum til fimm sinnum meira en áður en faraldurinn skall á.“

„Nýjustu gögn Eurostat (2023) benda til þess að Íslendingar séu eftirbátar annarra þjóða í að innleiða fjarvinnu af krafti í kjölfar Covid-19 faraldursins. Í gögnunum kemur fram að aðeins 8,7% Íslendinga unnu oftast heima árið 2020 og 6,6% árið 2022, samanborið við 25,1% og 23,1% í Finnlandi sömu ár og 23,1% og 17,7% í Lúxemborg. Eurostat er ekki með tölur frá Íslandi fyrir árið 2021 en það ár mátti sjá enn meiri aukningu í sumum löndum, 32% á Írlandi stunduðu reglulega fjarvinnu þá og 28,1% íbúa Lúxemborgar. Talsvert hærra hlutfall Íslendinga segist stundum vinna fjarvinnu, eða 29,3% árið 2020 og 35,3% 2022 sem bendir til þess að þetta sé áfram að aukast.“

Nýjar fréttir