0.4 C
Selfoss

Sorpmál og rekstur í brennidepli

Bragi Bjarnason, formaður bæjarráðs og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Árborg.

Það hafa verið líflegar umræður um sorphirðu á Íslandi undanfarna mánuði í kjölfar þess að öllum sveitarfélögum varð skylt að auka flokkun við heimili. Sveitarfélögin komin mislangt og ekki óeðlilegt að einhverjir hnökrar séu fyrstu mánuðina. Í Sveitarfélaginu Árborg höfum við flokkað pappa, plast, málma, lífrænt og almennt sorp við heimilin svo breytingin hefur ekki verið eins umfangsmikil og t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Það eru þó eðlilega áskoranir sem koma upp í okkar samfélagi þar sem starfsmenn sveitarfélagsins hafa gert vel í að finna lausnir og aðlaga reglur að nýju lögunum.

Breyting á lífrænum pokum

Sveitarfélagið Árborg sendir í dag mest allan lífrænan úrgang í GAJA, gas- og jarðgerðarstöð í Reykjavík. Frá og með næstu áramótum mun GAJA hætta móttöku maíspoka með lífrænum úrgangi og því þarf sveitarfélagið að breyta reglum um flokkun þar sem pappírspokar eru teknir inn fyrir maíspokana. Síðar í haust verður fyrirkomulag á innleiðingu pappírspoka kynnt nánar þannig að við íbúar getum verið tilbúin á nýju ári. Flokkun gengur almennt vel við heimili í Árborg og vil ég hrósa íbúum fyrir að hafa tekið vel í innleiðingu nýja flokkunarkerfisins. Höldum áfram á sömu braut og hjálpumst að við að halda sorphirðugjöldunum í lágmarki með góðri flokkun.

Grenndarstöðvar taka á sig breytta mynd

Með breytingum á sorphirðu í sveitarfélaginu hefur verið til skoðunar að breyta uppsetningu grenndarstöðva. Er þá bæði verið að skoða staðsetningar, útlit og aðgengi notenda og sorphirðu aðila að þeim. Umhverfisnefnd Árborgar samþykkti á fundi sínum 19. september sl. að hefja endurnýjun á grenndarstöðvum í Árborg þar sem íbúar geta komið með málma, gler og textíl til flokkunar. Grenndarstöðvarnar munu breytast talsvert í útliti og lögun og samþykkti nefndin að fyrsta nýja grenndarstöðin yrði opnuð við Stað á Eyrarbakka síðar í haust.

Breytt útlit grenndarstöðva í Árborg.

Útboð á ýmsum rekstrarþáttum

Sveitarfélagið Árborg hefur á undanförnum mánuðum farið í verðkannanir og útboðum á ýmsum þjónustuþáttum með það að markmiði að lækka rekstrarkostnað. Þar má nefna þjónustu á við banka- og tryggingaþjónustu, ræstingu og fleira. Heilt yfir hefur ferlið skilað góðum árangri og Sveitarfélagið Árborg fengið hagstæð tilboð í þessa þjónustuþætti. Það er mikilvægt að sveitarfélagið viðhafi svona ferli reglulega bæði til að endurskoða hvern þjónustuþátt og fá eins hagstæð verð á hægt er hverju sinni.

Nú þegar september er að klárast er ekki úr vegi að minnast á menningarmánuðinn október þar sem boðið verður upp á fjölda skemmtilegra menningarviðburða um allt sveitarfélagið. Má þar nefna menningar- og fræðslugöngur, fjölbreytta tónleika, myndlistarsýningar, bókasafnsbíó og fleira svo allir ættu að finna sér eitthvað við hæfi. Hægt er að kynna sér dagskrá menningarmánaðarins á www.arborg.is.

Bragi Bjarnason,
formaður bæjarráðs og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Árborg

Nýjar fréttir