1.7 C
Selfoss

Nýr leikvöllur og sleðabrekka á Borg

Vinsælast

Fyrr í sumar var nýr leikvöllur settur upp við Hraunbraut á Borg í Grímsnesi. Settur var upp fjöldi nýrra leiktækja, sem dæmi má nefna rólur, klifurgrind og rennibraut en það er nýja aparólan sem skarar fram úr meðal krakkanna.

Framkvæmd leikvallarins var samstarf Fossvéla, Grjótgás og Jóhanns Helga & Co. en það var Hermann Ólafsson, landslagsarkitekt hjá Landhönnun, sem hannaði hann og í tilkynningu frá Grímsnes- og Grafningshreppi sendir sveitarfélagið þakkir fyrir vönduð vinnubrögð allra sem komu að verkinu.

Íbúar í hreppnum létu síðan hendur standa fram úr ermum í síðustu viku, þegar ný sleðabrekka var þökulögð, en sleðabrekkan var síðasti áfangi framkvæmdanna. Þau sem mættu unnu rösklega, kláruðu verkið á tveimur klukkustundum og gæddu sér svo á pylsum í hjálparsveitarhúsinu að vinnu lokinni.

Börn og fullorðnir hjálpuðust að enda börnin spennt fyrir því að geta nýtt brekkuna þegar snjóar í vetur.

Verkið er hluti af fjölda spennandi verkefna við opin svæði á Borg í Grímsnesi sem haldið verður áfram næstu ár. Leikvöllurinn er frábær viðbót við Borgarsvæðið og er hann opinn öllum.

Nýjar fréttir