0.6 C
Selfoss

Menntun og velsæld barna í fyrsta sæti

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, formaður bæjarráðs og oddviti Framsóknar í Hveragerði.

Sveitarfélag í örum vexti er eins og unglingur með vaxtarverki. Unglingurinn er hvattur áfram í þeirri vissu að þetta sé tímabil sem komast muni yfir, það er hlúð að honum eins og frekast er unnt. Framkvæmdir við þriðja áfanga stækkunar grunnskólans eru vel á veg komnar. Þegar þetta er ritað eru nemendur við skólann 445 talsins, fjölgun nemenda nam 10% árið 2021 og 5,6% árið 2022. Haustið 2025 er von á stórum árgangi í 1. bekk eða nemendafjölda sem nemur þremur bekkjum í árgangi.

Í áfanga þessum sem nú er byggður er mötuneyti skólans stækkað en í dag skiptist hádegishlé í fimm holl, auk þess að nemendur í 2. og 5. bekk borða þrjá – fjóra daga í sinni heimastofu. Í þriðja áfanga bætist við auk mötuneytis, sérfræðingarými, aðstaða skólahjúkrunarfræðings, sér- og stuðningsdeild, aðstaða fyrir starfsfólk mötuneytis, salur og þrjár minni kennslustofur. Þriðji áfangi Grunnskólans í Hveragerði er hluti af fjárfestingaráætlun bæjarins fyrir árin 2023-2026. Áætlunin var samþykkt, á 555. fundi bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar þann 8. desember 2022, með fimm atkvæðum meirihluta Framsóknar og Okkar Hveragerðis en minnihlutinn D- listi sat hjá við afgreiðsluna.

Nemendur, starfsfólk, stjórnendur og aðrir hagaðilar hafa sýnt mikið æðruleysi gagnvart þeim húsnæðisskorti sem við búum við í dag og eiga miklar þakkir skyldar fyrir samstarfsviljann. Allir hafa lagst á eitt við það að láta hlutina ganga upp og þreyja þorrann þar til aðstaðan verður betri en áætluð verklok stækkunar grunnskólans í Hveragerði er árið 2025. Menntun og velsæld barna er í fyrsta sæti!

Nýjar fréttir