5 C
Selfoss

CrossFit Hengill lokar

Vinsælast

María Rún Þorsteinsdóttir sendi tilkynningu til iðkenda CrossFit Hengils í gær þar sem hún tilkynnti að hún og maðurinn hennar, Heiðar Ingi Heiðarsson, komi til með að stíga frá rekstri CrossFit Hengils um næstu áramót, sem þau hafa samviskusamlega sinnt síðustu 11 ár.

María og Heiðar ásamt Evu Katrínu, dóttur þeirra á Heimsleikunum á CrossFit 2022.

„Sagt er að allt hafi sinn tíma og nú er sá tími upprunninn að við ætlum að róa á önnur mið. Síðastliðin 11 ár hafa verið ekkert minna en stórkostleg. Eitthvað sem byrjaði sem pínulítið hliðarverkefni óx og dafnaði langt umfram vonir og væntingar. Við leyfum okkur að fullyrða að það samfélag og sá andi sem okkur öllum í sameiningu hefur tekist að búa til í þessum kjallara er einstakt og það er fátt sem við erum stoltari af,“ segir í tilkynningunni frá Maríu.

Hamar kaupir búnaðinn og heldur áfram rekstrinum

„Við erum að stíga frá rekstri og segjum upp leigusamningnum okkar við Hveragerðisbæ. Til þess að tryggja að þarna verði áframhaldandi starfsemi í boði fyrir fólk, ætlar Hamar að kaupa búnaðinn og heldur áfram rekstrinum. Þau ætla að vera með almennings- og lyftingadeild innan síns félags og nota þetta einnig sem stuðning við hinar deildirnar, styrktarþjálfun og annað,“ segir María í samtali við Dfs.is.

„Þetta verður þó ekki viðurkennd CrossFit stöð, íþróttafélög geta ekki boðið upp á CrossFit þar sem það er ekki innan ÍSÍ, en eins og við vitum flest þá eru fullt af CrossFit stöðvum á Íslandi sem eru ekki með þessa viðurkenningu en eru samt að bjóða upp á CrossFit þannig að það verður mögulega í einhverju slíku formi, í kannski einhverju minna sniði, ég veit það ekki alveg, en mig grunar að þetta verði kannski ekki alveg jafn stórt í sniðum,“ bætir María við.

„Ætla ég að vera 67 ára að þjálfa CrossFit?“

Aðspurð hvað taki við segir María að Heiðar hafi verið í 100% vinnu samhliða þessu allan tímann. „Og ég var það svosem í byrjun líka en við erum ekki alveg búin að ákveða hvað við ætlum að gera. Við erum ekkert að fara neitt, en ég er orðin 38 ára og það var kominn tími á nýjan kafla ef ég ætlaði einhverntímann að gera það. Ég fór aðeins að hugsa, ætla ég að vera til 67 ára að þjálfa CrossFit?,“ segir María og hlær.

„Draumurinn hefði auðvitað verið að geta komið þessu í óbreyttri mynd í hendurnar á öðrum, en þetta húsnæði og fyrirkomulag bara hentaði ekki í það, það hefði þurft að fara í einhverjar breytingar þar á, áður en við hefðum komið þessu áfram, við hefðum þurft að fara úr kjallaranum í eitthvað annað húsnæði, undir öðrum formerkjum,“ bætir María við.

Leysir ekki vanda Hamarshallarinnar

Aðspurð hvort að hún telji að þessi viðbót hjá Hamri geti komið til móts við aðstöðuleysi fyrir íþróttaiðkunn hjá Hveragerðisbæ eftir að Hamarshöllin hvarf á braut segir María að aðstaðan bjóði ekki upp á mikið. „Þetta leysir ekki þann vanda, það er enginn að fara að þjálfa fimleika, badminton eða blak þarna en þetta kannski styður eitthvað við aðrar greinar. Þetta mál er ekki pólitísks eðlis, það eru einhverjir sem halda það, að það sé verið að segja upp leigusamningnum okkar en það er ekki þannig. Þetta er í rauninni bara okkar ákvörðun að stíga frá og það opnaðist þarna tækifæri. Það var okkur mikið hjartans mál að það yrði áfram eitthvað í boði þarna, að þetta yrði ekki eins og þetta var einu sinni, bara geymsla.“

„Við vissum að það væri yfirlýst stefna bæjarins að ráða framkvæmdastjóra fyrir íþróttafélagið og taka íþróttafélagið upp á annað level, við vissum líka að það væri yfirlýst stefna hjá þeim að auka við styrktarþjálfun, að reyna að útvega eitthvað húsnæði eða einhvernveginn að koma því að, það er mikil vöntun á því þannig að þá small þetta einhvernveginn saman, þó að þetta sé voðalega sorglegt og erfitt fyrir marga, og ekki síst okkur. Það hvað þetta er erfitt fyrir marga sýnir kannski hvað þetta hefur mikið gildi fyrir fólk. Fólk sem hefur ekkert verið í svona, það skilur þetta ekki, skilur ekki hvaða máli skiptir hvar þú hoppar upp á kassa eða eitthvað svoleiðis. En þetta er pínu stærra, á stóran hlut í lífi fólks, það eru til Hengils-hjón og Hengils-börn og allt,“ segir María og hlær.

Þjálfararnir fá nýjan vinnuveitanda

„Hengill á fullt af þjálfurum í sínum röðum og mér skilst að pælingin sé þannig að þeir geti áfram verið þjálfarar, þá bara hjá Hamri, alveg eins og stjórn fótboltafélagsins ræður til sín fótboltaþjálfara og er með ákveðna tíma í boði, þannig að þetta verði í rauninni bara þannig að þjálfararnir fái nýjan vinnuveitanda. Það eru fordæmi fyrir þessu, ég veit að bæði Fram og Stjarnan bjóða uppá líkamsrækt fyrir almenning, eru með hlaupahópa og allskonar tíma, þannig að það eru fordæmi fyrir því,“ segir María.

„Við verðum allavega áfram að æfa í kjallaranum þannig að ef einhvern langar að æfa áfram með okkur þá bara vonum við að fólk fari ekki, þó þetta verði undir öðrum formerkjum, sem verður mesta breytingin. Björgvin Karl stefnir að minnsta kosti áfram á að æfa þarna, hann er ekkert að fara neitt heldur,“ segir María að lokum.

Nýjar fréttir