8.9 C
Selfoss

Fýlsungar eru í vanda á vegum úti í ágúst og september

Vinsælast

Nú er runninn upp ágústmánuður, þegar nýfleygir fýlsungar þenja vængi sína og reyna að ná til sjávar. Tímabilið stendur fram yfir miðjan september. Það getur reynst ungum á Suðurlandi, undir Eyjafjöllum og í Mýrdal, þrautinni þyngri að ná á haf út. Björgin þar sem þeir alast upp eru norðan þjóðvegar. Ef lygnt er þegar ungarnir taka fyrsta flugið þá ná þeir stundum ekki til sjávar og lenda á vegum, bílastæðum og í skurðum þar sem þeirra bíður óþarfur, bráður bani.

Fuglavernd hvetur fólk sem á leið um þetta svæði að leggja hönd á plóg við að bjarga ungunum. Gott er að vera vel sýnileg og klæðast gulu vesti og hafa með handklæði, létt teppi eða gamalt lak og kassa. Þegar ungi hefur verið fangaður skal sleppa honum af bryggju út á sjó eða í árós eða lygna á sem að mun endanlega bera hann til sjávar.

Fuglavernd verður ekki með skipulagða björgunardaga en hvetur fólk langar til  að bjarga fýlsungum að drífa sig á svæðið með þann útbúnað sem þarf, þó ekki sé nema dagsstund.

Hanna Philips, starfsmaður RSPB (breska fuglaverndarfélagsins),verður staðsett í Vík við björgun og merkingar á fýlsungum til 3. september. Þeir sem vilja geta slegist í för með henni. Þeir sem nota Facebook og vilja taka þátt í fýlsungabjörgun geta verið með í lokuðum fýlsungabjörgunarhópi á FB. Áhugasamir meldi sig með pósti til; fuglavernd@fuglavernd.is.

Nánari útskýringar á björgun fýlsunga og hvernig kassa sé best að nota er hægt að lesa um hér.

Nýjar fréttir