9.5 C
Selfoss

Ferð UNGSÁ til Frakklands og Grikklands

Vinsælast

Í júlí lagði Ungmennaráð Árborgar land undir fót og tók þátt í tveggja vikna ERASMUS+ verkefni þar sem fyrri vikunni var eytt í Frakklandi og þeirri seinni í Grikklandi.

Eldsnemma þann 9. júlí lögðu 12 ungmenni og 2 starfsmenn af stað frá Selfossi á Keflavíkurflugvöll. Upp úr hádegi lenti hópurinn í París þar sem þau hittu gríska hópinn, sem þau ferðuðust síðan með til smábæjarins Fontanès. Í Fontanès var ungmennaskarinn sameinaður, allt í allt voru 36 ungmenni, frá Íslandi, Frakklandi og Grikklandi. Næstu dögum var eytt í smábænum þar sem ungmennin gistu á heimilum frönsku ungmennanna.

Hópurinn úti að borða í París. Ljósmynd: Aðsend.

Á meðan dvölinni í Frakklandi stóð var umræðuefnið mannréttindi. Unnin voru margs konar verkefni og farið var í leiki sem snerust um mannréttindi. Ásamt því voru hannaðir bolir, farið í ratleik um bæinn, tónleikar og menningarkvöld þar sem íslensku og grísku hóparnir kynntu löndin sín, kenndu þjóðdansa og buðu uppá nammi til að smakka. Hópurinn fór einnig í dagsferð í franskan útivistagarð, þar sem hægt var að fara í zip-line, fjallgöngu, utanvegahjólreiðar og margt fleira.

Föstudaginn 14. júlí var komið að því að kveðja smábæinn Fontanès og frönsku fjölskyldurnar og haldið var til stórborgarinnar Parísar, á sjálfann þjóðhátíðardag Frakka. Í París naut hópurinn þess að horfa á flugeldasýninguna við Eiffelturninn ásamt bátsferð þar sem ungmennaskarinn sá öll helstu kennileiti Parísar, Notre Dame, Grand Palais, Louvre ofl.

Hópurinn fyrir framan ráðhúsið í París. Ljósmynd: Aðsend.

Eftir tvær nætur í París hélt allur hópurinn til Aþenu í Grikklandi. Grísku fjölskyldurnar tóku síðan á móti hópnum á flugvellinum og langþráð strandferð var tekin í kvöldkyrrðinni. Eins og í Frakklandi gistu ungmennin heima hjá fjölskyldum Gríska hópsins. Umræðuefnið í Grikklandi var lýðræði og var farið í leiki og verkefni tengd því, farið var í ratleik sem tengdist grískum guðum ásamt íslensku og frönsku menningarkvöldi. Á meðan á dvölinni í Grikklandi stóð var meðalhitinn um 40 gráður og var því mikilvægt að hafa aðra strandarferð á dagskránni, en einnig var Akrópólis hæðin skoðuð ásamt bænum maraþon og uppruna hlaupsins og endaði ferðin á kvöldverð með bæjarstjóra hverfisins Nea Ionia í Aþenu þar sem verkefnið fór fram.

Ásdís, Þórhildur, Anna Maria og Ásta Dís á Akrapólis. Ljósmynd: Aðsend.

Eftir tvær langar en virkilega skemmtilegar vikur var ungmennaráðið spennt að komast heim til Íslands og drekka íslenskt vatn. Kveðjustundin var þó erfið fyrir íslenska hópinn þar sem náin vinasambönd höfðu myndast. Þetta var erftirminnileg ferð fyrir ungmennaráðið, það var alltaf líf og fjör og virkilega áhugavert að fá að búa heima hjá fjölskyldum erlendis og læra þeirra siði og menningu. Öll ungmennin sem komu að verkefninu voru skemmtileg og opin fyrir nýjum hugmyndum og menningu. Ungmennaráðinu hlakkar mikið til að taka á móti frönsku og grísku ungmennunum næsta vor, á Íslandi þar sem umræðuþemað verður Evrópusambandið.

Allur hópurinn, ungmenni og leiðtogar, síðasta kvöldið í Aþenu. Ljósmynd: Aðsend.

Nýjar fréttir