8.9 C
Selfoss

Furðubátakeppnin 35 ára

Vinsælast

Furðubátakeppnin, sem haldin hefur verið um Verslunarmannahelgina í Litlu-Laxá á Flúðum frá árinu 1988, verður á sínum stað í ár. Í keppninni keppast þátttakendur við að sýna og sigla hinum furðulegustu bátum um það bil 40m lengd í Litlu-Laxá. Keppnishaldarar binda vonir við að þátttaka verði góð, en þessi skemmtilegi liður hefur vakið mikla lukku meðal gesta og heimamanna frá upphafi.

Í tilefni 35 ára afmælis furðubátakeppninnar hefur verið lagt sérstaklega mikið í hana. „Fullorðinsflokkurinn hefur verið endurvakinn. Verðlaun verða enn veglegri en þau hafa verið undanfarin ár og sú nýbreytni er að Einarsbikarinn verður veittur í báðum flokkum, en bikarinn er til heiðurs Einari Harðarsyni einum öflugasta stofnanda Furðubátakeppninnar. Búið er að útbúa sérstakt merki fyrir keppnina og fangar það vel þann frumleika sem einkennir keppnina. Þó nokkur fyrirtæki sem hafa tengingu við Flúðir leggja hönd á plóginn við að gera þessa keppni sem veglegasta,“ segir Vilberg Tryggvason, einn af skipuleggendum keppninnar í samtali við Dagskrána.

Axel á Kafbátnum. Ljósmynd: Hera Hrönn.

„Í versta falli einhvern fullorðinn til að ýta ef allt fer í skrúfuna“

„Í Barnaflokki eru þátttakendur á ábyrgð forráðarmanna, aldurstakmark er 14 ára og yngri og er miðað við fæðingarár. Keppnisskilyrði er að bátarnir komist í mark, um það bil 40m siglingarleið. Ekki er leyfilegt að hafa vélarafl, annað en hendur, stjaka, árar eða í versta falli einhvern fullorðinn til að ýta ef allt fer í skrúfuna. Verðlaun og annað miðast við að hámark séu 4 í áhöfn. Heimilt er að hafa fleiri áhafnarmeðlimi en verðlaun stækka ekki sem því nemur, “ bætir Vilberg við.

„Í fullorðins keppninni er aldurstakmark 18 ár, en foreldrum er heimilt að leyfa börnum, 15 ára og eldri, að taka þátt á eigin ábyrgð. Líkt og í barnaflokki verða bátarnir að komast í mark, um 40 m siglingarleið, líkt og í barnaflokki, en í fullorðinsflokki er leyfilegt að nota hverskonar vélarafl, annað en það sem dómari telur vera hefðbundið vélarafl. Þó er heimilt að nota segl og ýmis konar spaða.  Hefðbundinn utanborðsmótor og hefðbundnar bátaskrúfur eru hins vegar harðbannaðar. Verðlaun taka ekki tillit til áhafnarmeðlima og verða þeir sjálfir að sjá um að skipta verðlaununum bróðurlega á milli sín,“ segir Vilberg.

Ljósmynd: Hera Hrönn.

„Dómur dómnefndarar er endanlegur og ekki verður heimilt að véfengja hann enda er þetta fyrst og fremst til gamans gert, en matið byggir á frumleika báts, hve fyndinn hann og áhöfn hans eru og síðast en ekki síst skemmtanagildi hönnunar,“ segir Vilberg kátur.

Fyrir efstu þrjú sætin í barnaflokki eru peningaverðlaun auk gjafabréfa á veitingastað og Í fullorðinsflokki eru verðlaun á borð við hótelgistingu og unaðstæki, auk peningaverðlauna og vöruúttektar í verkfæraverslun og verða aukaverðlaun í báðum flokkum tilkynnt í keppninni sjálfri svo Vilberg og aðrir aðstandendur keppninnar hvetja áhugasama til þess að leyfa ímyndunaraflinu að bera þau að Litlu-Laxá um þarnæstu helgi.

Aðal styrktaraðili keppninnar er Góð hugmynd ehf. Aðrir styrktaraðilar eru Árni ehf. Ásta Sif Árnadóttir, Elvar Harðarson, Farmers Bistro, Gröfutækni, Grænna Land, Stína kokkur, Hótel Bifröst, Kaffi Mika, Landstólpi, Pizza Sel, Umi hótel, Þór HF og Þvottur & Lín.

Nýjar fréttir