8.9 C
Selfoss

Fischersetrið starfrækt í áratug

Vinsælast

Þann 11. júlí nk. verður Fischersetrið á Selfossi 10 ára, en 11. júlí 2013 var það opnað formlega. Um það bil ári áður, vorið 2012, var undirbúningsnefnd stofnuð fyrir stofnun Fischerseturs. Í undirbúningsnefndinni voru í stafrófsröð, Aldís Sigfúsdóttir verkfræðingur, Bjarni Harðarsson bóksali, Gunnar Finnlaugsson mjólkurfræðingur og Magnús Matthíasson kennari. Sérstakur stofnfundur fyrir stofnun Fischerseturs var haldinn á 2. hæð Gamla bankans þann 11. júlí 2012. Þar var undirrituð viljayfirlýsing við eiganda hússins um að leigja aðra hæðina fyrir Fischersetrið.

Mánaðardagurinn 11. júlí varð fyrir valinu þar sem þennan mánaðardag byrjuðu þeir Fischer og Spassky að tefla fyrstu skákina í Skákeinvíginu 1972. Í framhaldinu var skipulagsskrá fyrir sjálfseignarstofnunina Fischersetur á Selfossi samþykkt og undirrituð af stjórnarmeðlimum þann 9. mars 2013. Fyrsta stjórn Fischerseturs var skipuð af eftirfarandi mönnum: Aldísi Sigfúsdóttur, Gunnari Björnssyni, Gunnari Finnlaugssyni, Helga Ólafssyni, Ingimundi Sigurmundssyni, Lýð Pálssyni og Magnúsi Matthíassyni. Í kjölfarið var þriggja manna framkvæmdastjórn skipuð með þeim Aldísi Sigfúsdóttur, Bjarna Harðarsyni og Magnúsi Matthíassyni.

Hópurinn sem mætti á undirbúnings fundinn fyrir stofnun Fischerseturs þann 11. júlí 2012. Neðri röð f.v. Stefán Steingrímur Bergsson, Helgi Ólafsson, Guðmundur G. Þórarinsson, Hrafn Jökulsson, Magnús Matthíasson, Sigfús Kristinsson, Gunnar Finnlaugsson, Ásdís Halldórsdóttir, Guðni Ágústsson, Guðmundur Þór Gunnarsson, Kolbrún Markúsdóttir, Gunnar Björnsson, Aldís Sigfúsdóttir, Guðmundur Kristinsson og Hilmar Viggósson. Efsta röð, f.v. Bjarni Harðarson, Eyþór Arnalds, Aðalsteinn Sveinsson, Kristinn A. Friðfinnsson og Kjartan Björnsson.

Fischersetrið er safn um skákmeistarann Bobby Fischer og ber þar hæst heimsmeistareinvígið 1972 og frelsun hans úr fangelsi í Japan árið 2005, er hann kom til Íslands sem íslenskur ríkisborgari. Ennfremur er þar aðstaða fyrir Skákfélag Selfoss og nágrennis. Í Setrinu eru líka haldnar kynningar og fyrirlestrar um ýmislegt efni tengt skáklistinni. Að undanskildum sl. vetri þá hefur Helgi Ólafsson stórmeistari og skólastjóri Skákskóla Íslands séð um skákkennslu fyrir krakka í Setrinu frá upphafi.

Skákkennsla í Fischersetri í umsjón Helga Ólafssonar stórmeistara og skólastjóra Skákskóla Íslands.

Ein aðalástæðan fyrir því að Fischersetrið var stofnað hér á Selfossi er vegna þess að grafreitur Bobby Fischers er í Laugardælakirkjugarði. Fischer féll frá 17. janúar 2008, en fljótlega eftir að Fischer hafði verið jarðaður að Laugardælum fóru ferðamenn að streyma að gröf Fischers. Þetta varð til þess að safn um Bobby Fischer var opnað í Gamla bankanum þann 11. júlí 2013.

Laugardælakirkja þar sem Fisher var jarðaður.

Á þessum tíu árum hafa margir aðstoðað Fischersetrið. Að undanskildum sl. þremur sumrum þá hafa það verið sjálfboðaliðar sem hafa staðið vaktina við að halda Setrinu daglega opnu fyrir ferðamenn yfir sumartímann og opnað samkvæmt óskum yfir vetrartímann. Þessi liðsstyrkur hefur skipt sköpum fyrir Setrið, án hans værum við ekki að fagna tíu ára afmæli um þessar mundir. Á þessum árum hafa eftirfarandi sjálfboðaliðar lagt safninu lið í lengri eða skemmri tíma: Aðalsteinn Geirsson, Árni Erlendsson, Ásdís Halldórsdóttir, Björgvin Guðmundsson, Böðvar Jens Ragnarsson, Eiríkur Harðarson, Erlingur Atli Pálmason, Eysteinn Jónasson, Gísli Magnússon, Gissur Jensson, Gísli Sigurðsson, Guðmundur Lýðsson, Gunnar Einarsson, Halldór Magnússon, Hjörtur Þórarinsson, Ingibjörg Ágústsdóttir, Kjartan Már Hjálmarsson, Ólafur Bjarnason, Ólafur Jónsson, Óli Þ. Guðbjartsson, Óskar H. Ólafsson, Ragnar Gíslason, Sigríður J. Guðmundsdóttir, Valdimar G. Guðmundsson, Vilhjálmur S. Pétursson, Þórdís Kristjánsdóttir, Þórður Guðmundsson, Þórður Sigurðsson, Þröstur Þorsteinsson og Örlygur Karlsson.

Núverandi stjórn Fischerseturs. Efri röð f.v. Þorsteinn Magnússon, Ingimundur Sigurmundsson, Helgi Ólafsson, Jóhann Hjartarson, Lýður Pálsson. Neðri röð f.v. Aldís Sigfúsdóttir og Ólafur Bjarnason formaður stjórnar.

Þótt það séu 50 ár liðin frá því að heimsmeistaraeinvígið var haldið í Reykjavík og fimmtán liðin frá því að Bobby Fischer féll frá, þá er mjög mikill áhugi á þessu heimsmeistaraeinvígi, sem kom Íslandi á kortið, um sögu Bobby Fischer og hvernig Íslendingar komu að frelsun hans úr fangelsinu í Japan. Á hverju ári koma í Setrið nokkrar erlendar fréttaveitur, sem eru að gera þátt eða þætti, um þetta efni. Á sl. tíu árum hefur gestum safnsins fjölgað stöðugt ár frá ári og á sl. ári komu um þrjú þúsund manns. Flestir þeirra, eða rúmlega 90% eru erlendir gestir og koma þeir alls staðar frá. Margir koma við er þeir sjá auglýsingaskiltið utan á húsinu, en svo eru það líka aðrir sem höfðu það eitt af aðalmarkmiðum sínum að koma að gröf Fischers og í setrið. T.d. kom einn ferðamaður frá Malasíu sem ákvað að gera þrjá hluti hér á landi þ.e.a.s. fara að leiði Fischers, heimsækja setrið, spila golf á Íslandi í einn dag og fljúga síðan til baka til síns heimalands!

             Aldís Sigfúsdóttir

Nýjar fréttir