3.4 C
Selfoss

Gling Gló í alla leikskóla landsins

Vinsælast

Bókasmiðjan Gimbill hefur nýlega fært öllum leikskólum á landinu 250 talsins, tvær bækur að gjöf en þær fjalla um Gling Gló, hjátrúarfullu ömmu hennar og vininn Óbó. Fyrirtækin KPMG og Sjóvá sýndu samfélagslega ábyrgð í verki og styrktu framtakið og eru þeim færðar hlýjar þakkir fyrir. Einnig þakklæti til allra sveitarfélaganna  og samtaka sveitarfélaga sem tóku að sér að dreifa bókunum innan síns svæðis.

Bækurnar segja frá því þegar Gling Gló er í pössun hjá ömmu og leikur sér við Óbó vin sinn sem býr í blokkinni hennar ömmu. Amma er hjátrúarfull og þegar hún hendir fram einhverri staðhæfingu í þá áttina – þá gerist eitthvað áhugavert í lífi barnanna. Leiðarstefið í bókunum um Gling Gló er þegar fullorðið fólk vitnar hugsunarlaust í hjátrúna og börnin taka því bókstaflega.

Gling Gló og spegillinn er fyrsta bókin í bókaflokknum og fjallar um það þegar hún brýtur spegil og amma segir að það boði 7 ára ógæfu.

Gling Gló og regnhlífin er önnur í röðinni og í henni opnar hún regnhlíf inni í húsi, sem amma segir að boði rigningu, myrkur og jafnvel andlát.

Höfundur bókanna er Hrafnhildur Hreinsdóttir sem lét drauminn rætast og fór að skrifa og gefa út bækur þegar lífeyrisárin tóku við. Hún er með meistaragráðu í upplýsingafræði auk þess að hafa háskólapróf í íslensku og kennslufræði. Hún stofnaði Gimbil bókasmiðju utan um verkefnið og gefur sjálf út bækurnar. Hrafnhildur hefur komið víða við í atvinnulífinu, unnið sem kennari, upplýsingafræðingur, vefstjóri, fræðslustjóri og í mannauðsmálum.

Hrafnhildur Hreinsdóttir með bækurnar í leikskólanum Brákarborg. Mynd: Aðsend.

Bækurnar eru fallega myndskreyttar og henta öllum börnum á aldrinum 4-9 ára og svo hafa fullorðnir líka haft lúmskt gaman af lestrinum. Þær eru til sölu hjá Pennanum Eymundsson og í bókabúð Forlagsins. Einnig eru bækurnar aðgengilegar til hlustunar á Storytel, Spotify og Youtube í upplestri Lilju Bjargar Gísladóttur.

Þá eru í farvatninu fleiri bækur um Gling Gló, ömmuna hjátrúarfullu og vininn Óbó, þar af tvær sem koma væntanlega út í september eins og sjá má á vefsíðunni www.glingglo.is Þar er líka hægt að nálgast ýmsar upplýsingar um höfundinn, bækurnar. Hægt er að nálgast þær í Pennanum Eymundsson, Forlaginu eða panta þær á vefnum.

Nýjar fréttir