7.8 C
Selfoss

Nýtt tónlistarmyndband frá Alexöndru á fallegu sumarkvöldi

Vinsælast

Óperusöngkonan Alexandra Chernyshova, skólastjóri Tónskóla Mýrdalshrepps, gaf á dögunum út óperu, bæði á Spotify og geisladisk. Það merkilegasta við það er vafalaust að hin úkraínsk/íslenska Alexandra samdi alla óperuna sjálf, syngur í henni aðalhlutverkið, tók hana upp og gaf út nótnabók úr óperunni.

Óperan Skáldið og Biskupsdóttirin er í tveimur þáttum, skrifuð fyrir 11 einsöngvara, óperukór og hljómsveit. Tónlistin er sem fyrr segir eftir Alexöndru Chernyshovu, handrit eftir Guðrúnu Ásmundsdóttir. Ljóð eftir Hallgrím Pétursson, Rúnar Kristjánsson, Guðnýju frá Klömbrum og Daða Halldórsson.

Óperan Skáldið og biskupsdóttirin var frumsýnd í konsertuppfærslu í Hallgrímskirkju í Saurbæ í Hvalfirði árið 2014 undir hljómsveitarstjórn Magnúsar Ragnarssonar, við góðar undirtektir.

Árið 2015 gaf Alexandra út Nótnabók með 14 lögum: aríum, dúettum, tríó og kór í útsetningum fyrir rödd og píanó úr óperunni. Útgafutónleikarnir voru í Kaldalóni, Hörpu. Óperan hefur verið kynnt í Tókíó og Mie í Japan og sömuleiðis í Jónshúsi í Kaupmannahöfn.

Skáldið og biskupsdóttirin var sýnd í konsertuppfærslu í Gnessin Tónlistar Akademíunni í Moskvu og Kamenoostrovskiy kastala í Petursborg. Árið 2017 var óperan frumsýnd í konsertuppfærslu í Taras Shevchenko Háskólanum í Kænugarði í tilefni af 150 ára afmæli Tónlistarháskólans Glier, í Úkraínskri þýðingu eftir Alexöndru og Evgeniu, móður hennar.

Árið 2020 lenti óperan í 1. sæti í alþjóðalegri tónskáldakeppni Isaak Dunajevskiy og lagið Ave María úr sömu óperu komst á meðal topp tíu bestu World Folk Vision árið 2020.

Óperan fékk styrk fyrir útgáfunni frá Menningarsjóði Jóhannesar Nordal, Hljóðritasjóði og Upptökusjóði STEFs.

Í myndbandinu hér að neðan syngur Alexandra aríu Ragnheiðar biskupsdóttir Ég vil lifa, úr frumsömdu óperunni Skáldið og Biskupsdóttir, í fallegri náttúru Íslands, við Skógafoss. Jón Hilmarsson, ljósmyndari og eiginmaður Alexöndru, tók upp myndbandið og útkoman er mjög falleg.

Ljóðið í aríunni er eftir Rúnar Kristjánsson frá Skagaströnd, handritið eftir Guðrúnu Ásmundsdóttur, leikkonu og rithöfund. Hljómsveitin sem leikur undir er Gossorchestra frá Úkraínu og kvenraddirnar sem syngja með Alexöndru eru úr Söngsveitinni Fílharmónía.

Nýjar fréttir