8.9 C
Selfoss

Indland í Árborg

Vinsælast

Þann 19. júní síðastliðinn stóð Selfyssingurinn Eva Dögg Atladóttir fyrir móttöku einstaka Íslandsvinarins Prasoon Dewan, formanni Indversk-íslenska viðskiptaráðsins í Delhí.

Stjórnendum og fólki úr menningarlífinu í Árborg var boðið að koma saman á Selfossi og kynnast Prasoon og indversku viðskipta- og menningarlífi. Til stendur að halda indverska menningarviku í Árborg í september næstkomandi.

Dewan mætti, ásamt Gissuri Guðmundssyni, stjörnukokki og fyrrum forseta matreiðslumeistara á Norðurlöndum og WACS, World Association of Chefs Societies, en Gissur á ættir að rekja til Árnessýslu.

Öll flóra indversks atvinnulífs

Markmiðið með móttökunni var að kynna fulltrúa Árborgar fyrir Dewan, sem er í óðaönn við að undirbúa komu 40 manna indverskrar viðskiptasendinefndar til Íslands í september. Í þeim hópi verða fulltrúar allrar flórunnar úr indversku atvinnulífi, allt frá matvælaframleiðslu og hönnun, yfir í afþreyingageirann í Bollywood. En viðræður á milli fulltrúa EFTA og indverskra stjórnvalda um gerð nýs fríverslunarsamnings eru í fullum gangi. „Þessi viðskipta- og menningarviðburður sem haldinn verður í Hörpu, þriðju vikuna í september, er stórmerkilegur og þar sem Árborg er á hraðri leið upp viðskipta- og menningarstigann, þótti mér kjörið að kynna fulltrúa sveitarfélagsins fyrir Prasoon og sömuleiðis þau fyrir honum og öllu sem Indland hefur upp á að bjóða fyrir Ísland,“ segir Eva Dögg í samtali við Dagskrána.

F.v: Gissur Guðmundsson, Megha Jhunjhunwala, Snorri Sigurðsson, Fjóla St. Kristinsdóttir, Kjartan Björnsson, Margrét Blöndal, Brynhildur Jónsdóttir, Magnús St. Magnússon, Heiðrún D. Eyvindardóttir, Anna Jónsdóttir, Rohit Dhamija, Prasoon Devan, Eva Dögg Atladóttir og Ívar Bjarki Lárusson.

Alþjóðlegt tengslanet

Eva Dögg, samskiptafulltrúi hjá Miðlun, er meðal annars, yogakennari og nemandi í almannatengslum og miðlun við Háskólann á Bifröst. Eva Dögg hefur búið út um allan heim og hefur mikinn áhuga á menningu og alþjóðlegum viðskiptum. Hún vinnur markvisst að því að koma sér upp alþjóðlegu tengslaneti og á vini og tengingar út um allan heim og þá sérstaklega á Indlandi, þar sem hún var búsett í 6 ár. Eva leggur mikla áherslu á að koma Íslandi og einna helst Árborg á kortið.

Íslensk og indversk menning í bland

Móttakan, sem haldin var í einum af Selfossbæjunum við Ölfusá, var fjölbreytt. Prasoon fór yfir væntanlegt samstarf Íslands og Indlands, Fjóla Kristinsdóttir bæjarstjóri í Árborg fór sömuleiðis yfir vaxandi viðskipta- og menningarlíf í Árborg. Boðið var upp á íslenska rabarbaraböku og indverski meistarakokkurinn Megha Jhunjhunwala, sem nýtur mikilla vinsælda hjá íslenskum græn- og sælkerum, bauð upp á það besta úr indverskri matargerð, en Megha hefur haldið út matreiðslunámskeiði í Fjölheimum á Selfossi í samstarfi við Evu Dögg. Kjartan Björnsson, formaður menningarnefndar Árborgar söng íslenskt kvæði og Dewan gaf öllum gestum móttökunnar kveðjugjöf að indverskum sið, silkisjal frá heimalandinu.

Ef fólk hefur áhuga á að taka þátt í viðburðunum í Hörpu eða Árborg tekur Eva Dögg á móti fyrirspurnum á indigoselfoss@gmail.com eða í síma 787-4812.

Nýjar fréttir