8.9 C
Selfoss

HSK/Selfoss sigraði MÍ 11-14 ára á heimavelli

Vinsælast

Meistaramót Íslands 11-14 ára var haldið á Selfossvelli um síðustu helgi. Um 200 krakkar voru skráðir til leiks á mótinu frá félögum víðs vegar af landinu. Frjálsíþróttaráð HSK var framkvæmdaaðili mótsins og bauð keppendum auk keppninnar sjálfrar upp á mat, gistingu, bingó og sundlaugarpartí. Vel tókst til, þökk sé þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem lögðu hönd á plóg og þeim styrktaraðilum sem voru tilbúnir til að leggja okkur lið.

Starfsmenn stóðu sig frábærlega um helgina. Hér má sjá starfsmenn í kringlukasti fyrsta keppnisdaginn. Ljósmynd: HSK.

Keppendur HSK/Selfoss stóðu sig gríðarlega vel á mótinu og voru sex HSK met slegin. Í flokki 13 ára stúlkna bætti Bryndís Halla Ólafsdóttir úr Dímon metið í 300m hlaupi þegar hún hljóp á 46,62 sek. Hún bætti einnig metið í 2000m þegar hún hljóp hringina fimm á 8:25,44 mín. Í 13 ára flokknum bætti einnig Anna Metta Óskarsdóttir  úr Umf. Selfoss metið í þrístökki þegar hún stökk 10,59m en gamla metið átti Eva María Baldursdóttir 10,56m. Í flokki 14 ára stúlkna bætti Helga Fjóla Erlendsdóttir úr Umf. Garpi metið í 80m grindahlaupi þegar hún hljóp á 12,92 sek. Bryndís Embla Einarsdóttir sigraði spjótkast 14 ára stúlkna með kasti upp á 45,36 m sem er nýtt HSK met í flokknum. Einnig var sett HSK met í blönduðu boðhlaupi 12 ára en sveit HSK/Selfoss hljóp á tímanum 66,02 sek. Í blönduðu boðhlaupi skipa tveir piltar og tvær stúlkur sveitina.

Sigurlið HSK/Selfoss í flokki 11 ára stelpna. Ljósmynd: HSK.

Lið HSK/Selfoss sigraði stigakeppni mótsins með yfirburðum með 933 stig og næsta lið þar á eftir var FH með 573,5 stig. 17 mótsmet voru sett á mótinu og voru fimm þeirra sett af keppendum HSK/Selfoss. Bryndís Halla setti mótsmet  í 300 m hlaupi 13 ára, Anna Metta bætti mótsmetið í þrístökki 13 ára, Helga Fjóla setti mótsmet í þrístökki 14 ára og Bryndís Embla setti mótsmet í kringlukasti og spjótkasti.

Þrefaldur sigur HSK í kringlukasti 13 ára, f.v. Anna Metta, Adda Sóley og Þórunn Eyland. Ljósmynd: HSK.

Liðið vann 10 gullverðlaun á mótinu og eru gullverðlaunahafar eftirfarandi: Í flokki 12 ára stúlkna varð Ásta Kristín Ólafsdóttir Umf. Selfoss Íslandsmeistari í hástökki með 1,26m. Í flokki 13 ára varð Bryndís Halla Ólafsdóttir úr Dímon Íslandsmeistari í 300m hlaupi á 46,62 sek og 2000m hlaupi á 8:25,44 mín, Anna Metta Óskarsdóttir Umf. Selfoss varð Íslandsmeistari í hástökki með 1,50m og í þrístökki með 10,59. Adda Sóley Sæland sigraði spjótkast með 27,99m og kringlukastið með 24,79m og sveit HSK/Selfoss varð Íslandsmeistari í 4x100m boðhlaupi á 59,36 sek. Í flokki 14 ára stúlkna varð Helga Fjóla Erlendsdóttir íþróttamaður. Garpi varð Íslandsmeistari í 80m grindahlaupi á 12,92 sek, í 80m hlaupi á 10,76 og þrístökki með 10,55m, Bryndís Embla Einarsdóttir Umf. Selfoss sigraði hástökk með 1,51m, kúluvarp með 11,28m, kringlukast með 35,37m og spjótkast með 45,36m.

HSK

Nýjar fréttir