3.4 C
Selfoss

Gríptu tækifærið og segðu já

Svanhildur Jónsdóttir, nýkjörin formaður LeiðtogaAuðar. Mynd: Stúdíó Stund/Laufey Ósk

„Ef einhver hefur trú á þér í verkefni þá verður þú bara að gjöra svo vel að gera það líka,“ segir Selfyssingurinn Svanhildur Jónsdóttir, sérfræðingur hjá fjármála- og efnahagsráðuneyti, sem var kjörin nýr formaður LeiðtogaAuðar Félags kvenna í atvinnulífinu.LeiðtogaAuður er sérstök deild innan FKA, en kjarna hópsins mynda þær konur sem tóku þátt í LeiðtogaAuðar námskeiðum á árunum 2000-2002, verkefninu „Auður í krafti kvenna“. 

Auðvelt að taka skyndiákvarðanir 

Blaðamaður Dagskrárinnar hafði samband við Svanhildi, sem er fædd og uppalin á Selfossi og fékk að kynnast þessari drífandi konu svolítið betur. „Ég flutti frá Selfossi þegar ég fór í háskóla og flutti svo heim aftur árið 2014. Helstu kostir þess að búa á Selfossi er að vera nálægt fjölskyldu og vinum, allt er nokkuð stutt og auðvelt að taka skyndiákvarðanir.  Ég er gift Ólafi Tage Bjarnasyni, Selfyssingi og eigum við saman þrjár dætur, eina 14 ára, eina 6 ára og svo misstum við miðjustelpuna okkar sem var fjölfötluð og langveik árið 2017 en þá var hún alveg að verða 5 ára.“

Vandræðalegt, munnlegt stærðfræðipróf á dönsku

„Á lokametrunum í FSU hafði ég hug á að fara í jarðfræði og sótti því um vinnu hjá Jarðskjálftamiðstöð Háskóla Íslands til að vinna með á síðustu önninni minni og fékk vinnu. Ég komst síðan að því eftir að ég byrjaði að vinna að þar var enginn jarðfræðingur og nánast bara verkfræðingar. Ég notaði svo bara útilokunaraðferðina og taldi besta kostinn ákvað að skrá mig í byggingarverkfræði í HÍ. Í miðju B.S.- náminu ákváðum ég og maðurinn minn að víkka sjóndeildarhringinn og flytja til Kaupmannahafnar í skóla. Ég fékk nánast allt námið metið frá Íslandi og mætti til Danmerkur fjórum dögum áður en skólinn byrjaði og var námið á dönsku, sem var áskorun, en það gekk. Danir eru mikið fyrir munnleg próf og man ég vel eftir vandræðalegu munnlegu stærðfræðiprófi á fyrstu önninni minni. Áður en ég byrjaði í skólanum, DTU (Danmarks Tekniske Universitet), þurfti ég að velja milli 5 námslína innan byggingarverkfræðinnar og þá uppgötvaði ég samgönguverkfræði og valdi þá línu. Ég tók svo í kjölfarið masterspróf í samgönguverkfræði en þá var námið alþjóðlegra og á ensku. Að fara erlendis í nám og búa í öðru landi hefur gefið mér mikið. Það var fróðlegt að kynnast og vinna með fólki frá öðrum löndum. Ég mæli klárlega með því fyrir alla,“ bætir Svanhildur við.

Lærdómsrík U-beygja

Eftir útskrift árið 2011 hóf Svanhildur störf hjá VSÓ Ráðgjöf og vann þar í um 10 ár. „Árið 2013 var samgöngusvið stofnað og fékk ég að leiða það svið. Verkefnin sem ég kom að voru fjölbreytt og mikið til unnin fyrir sveitarfélög, ríki og fasteignafélög. Verkefnin voru oftast unnin þverfaglega með öðrum fagstéttum og eru skipulagsmálin t.d. nátengd. Ég tók svo góða U-beygju og leiddi tímabundið átaksverkefni í kjölfar Covid-19 hjá Reykjavíkurborg í vinnu- og virkniaðgerðum með hópi sérfræðinga í mannauðsmálum og félagsráðgjöfum. Í kjölfar þess leiddi ég svo velferðartækni í Reykjavíkurborg en hún er á miklu flugi og mikið framundan. Ég lærði mikið á þessari U-beygju og hef nú í farteskinu tvö ný „lingo“. Nú er ég svo komin aftur á heimavöll en samt með nýjan vinkil í tímabundið starf hjá Fjármála- og efnahagsráðuneytinu á Verkefnastofu um samgöngugjöld, sem einnig er unnið í nánu samstarfi við Innviðaráðuneytið.“

Mikilvægt að fagna litlum sigrum

Aðspurð hvernig hún hafi komist á þann stað sem hún er á í dag segir Svanhildur að mikilvægt sé að hafa áhuga á því sem maður er að gera. „Þá er gaman í vinnunni með góðum samstarfsfélögum og maður má ekki gleyma að fagna litlum sigrum. Maður þarf að vera vakandi og grípa tækifærin þegar þau bjóðast og segja já þó að það sé fyrir utan þægindarammann t.d. eins og þetta viðtal er fyrir mig, þ.e. að vera að svara spurningum um sjálfa mig. Mér fyndist annars ekkert mál að ræða um verkefni og svara spurningum í kringum það. En hver veit nema að nýjar dyr opnist í kjölfar þessa viðtals,“ segir Svanhildur og yppir öxlum. 

Öll störf móta okkur

„Mér þykir mikilvægt að eiga fyrirmyndir í vinnuumhverfinu og reyna að tileinka sér það sem manni finnst til fyrirmyndar, geta speglað sig og leitað ráða hjá öðrum. Það þarf ekki alltaf að vera í innsta hring. Fólk sem maður leitar til vill yfirleitt miðla sinni sýn þegar maður leitar eftir því. Maður getur svo sjálfur metið hvað hjálpar manni og hvað ekki. Ég hef hringt í fólk og kunningja, sem ég þekki ekki ýkja vel, og leitað ráða. Ég tel að mikið vægi sé í að sýna frumkvæði og vera með puttann á púlsinum og sækja þekkingu. Ég fór t.d. nýlega í AWE nýsköpunarhraðalinn og tók námskeiðið Leiðtoginn og stafræn umbreyting í Akademias. Ætli næsta skref sé ekki að a.m.k. að átta sig betur á gervigreindinni. Svo má ekki vera hræddur við að sýna frumkvæði og spyrja, það versta sem gerist yfirleitt er að þú færð nei. Maður sér þá ekki eftir því að hafa ekki kannað málið. Ég held að öll störf móti mann og maður tekur eitthvað með sér af hverjum vinnustað, eins og það að vinna í fyrstu Krónuversluninni sem var opnuð á landinu á Selfossi, í Guðnabakarí og á Pizza 67. Maður lærir að vinna og kemst nær því að vita hvað maður vill og hvað maður vill ekki,“ bætir Svanhildur við.

Út fyrir þægindarammann

En hvernig leggst nýja hlutverkið í Svanhildi? „Það leggst vel í mig. Í raun greip ég tækifærið, ég hafði ekki hugsað neitt um þennan möguleika en svo var haft samband við mig og spurt hvort ég hefði áhuga. Þá fann ég þessa tilfinningu að þetta væri nú aðeins út fyrir þægindarammann en fannst ég þurfa að grípa tækifærið og láta vita að ég hefði áhuga. Sé ekki eftir því,“ segir hún brosandi.

Allar velkomnar

Svanhildur gekk í FKA um árið 2015 og segist ekki hafa neinar drastískar breytingar í huga fyrir LeiðtogaAuði. „Ég hef verið misvirk á þessum tíma og í raun fær maður mest út úr félagaðildinni með því að vera virkur en þá stækkar maður tengslanetið og eykur þekkingu. Í FKA eru 1.370 konur og mikið úrval viðburða í boði. Maður gæti í raun nánast verið á 1-3 viðburðum á viku ef maður vildi. Ég hef sótt í það sem ég hef talið nýtast mér og það sem vekur áhuga minn. Fljótlega eftir að ég byrjaði í FKA fékk ég að vita að ekki eigi að loka hring, þ.e. ef nokkrar konur eru á tali saman að loka þá ekki spjallhringnum og að ný kona sé alltaf velkomin inn í hringinn í spjallið. Ég held að þetta lýsi kjarna FKA vel, við erum stuðningur hvor við aðra og allar eru velkomnar. Það eru 5 landshlutadeildir í FKA og erum við á Suðurlandi með FKA Suðurland. Í þeirri deild er fjölbreyttur hópur kvenna og mikill hugur í konum. Síðasta starfsár var helst áhersla á fræðslu um markaðssetningu. Ég var síðustu tvo vetra í stjórn FKA Suðurland. Ég er að hefja þriðja starfsárið í LeiðtogaAuði og annað árið í stjórn.“

Vill upplýsa konur

„Ég hlakka til að kynnast konum í LeiðtogaAuði betur og læra af þeim því þarna eru á ferð algjörir reynsluboltar! Við konur höfum víst tilhneigingu til að sækja ekki um störf nema við getum hakað við nánast allt, ef ekki allt af kröfulistanum í atvinnuauglýsingum. Ég vil að við konur séum upplýstari m.a. um þetta og þá hikum við kannski síður við að sækjast eftir áhrifum. Að sjálfsögðu er það líka á ábyrgð atvinnurekenda að setja upp auglýsingar sem laða að öll kyn. Ég held að eitt af stóru og mikilvægu verkefnunum framundan sé að fjölga konum í framkvæmdastjórnum fyrirtækja,“ segir Svanhildur að lokum.

Nýjar fréttir