0.6 C
Selfoss

Menningarhúsið verður ekki klárað á morgun

Vinsælast

Sveitarfélagið Árborg stóð fyrir opnum íbúafundi í kvöld með Lilju D. Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, þar sem viðfangsefnið var framtíðaráform menningarsalar Suðurlands á Selfossi. Fundurinn hófst kl. 18 á Hótel Selfossi, en fyrir fundinn gafst almenningi tækifæri á að skoða menningarsalinn. Margrét Blöndal, deildarstjóri menningar og upplýsingadeildar Árborgar, stjórnaði fundinum.

Áður en menningar- og viðskiptaráðherra tók til máls stigu fulltrúar tónlistar og sviðslista í ræðupúlt og fluttu stutt erindi um hvernig menningarsalurinn mundi bæta þeirra listgrein og voru allir sammála um mikilvægi þess að salurinn yrði kláraður.

Lilja telur að næstu skref séu að setja á laggirnar öflugan undirbúningshóp sem mundi fá það hlutverk að svara ósvöruðum spurningum um menningarsalinn og taka í framhaldinu ákvörðun um framhaldið. Aðalmálið sé að geta fjármagnað þetta á góðum kjörum segir hún.

„Það sem ég tel að séu næstu skref í þessu máli eru að bæði ríkið og sveitarfélagið setjist niður og reyni aðeins að átta sig á getu sveitarfélagsins til þess að taka þátt í þessu. Eins og staðan er núna er verkefni ríkisstjórnarinnar númer eitt, tvö og þrjú að rífa niður verðbólgu og það ekki eins skemmtilegt eins og að þurfa rífa eitthvað í gang,“ sagði Lilja.

„Ég kem ekki hér með bros á vör og segi að þetta sé að fara gerast á morgun, en þetta mun gerast í framtíðinni. Hvenær? Ég get ekki lofað því á þessum tímapunkti,“ bætir Lilja við.

„Ég er í engum vafa um að menningarsalurinn muni rísa,“ segir Lilja í restina. „Við þurfum að vera tilbúin þegar verðbólga og stýrivextir fara niður“.

Nýjar fréttir