7.3 C
Selfoss

Miðbærinn rís með tign og glæsibrag

Vinsælast

Ævintýri enn gerast, það var magnað að vera á Sviðinu á Selfossi þegar Leó Árnason og Sigtúnsmenn hinir nýju kynntu áform sín um stækkun miðbæjarins á Selfossi. Fjárfesting upp á fimmtán milljarða, mörg sögufræg hús sem eiga sér merka sögu í gömlum og fögrum byggingastíl víða að lifna við. Hús sem hafa brunnið eða verið rifin. Nú stækkar þessi glæsilegi miðbær okkar á næstu árum úr fimm þúsund fermetrum í þrjátíu þúsund fermetra og fær á sig enn stórbrotnari mynd og iðandi atvinnulíf á mörgum sviðum í þjónustu og menningu. Árborg þarf ekki að kvíða framtíðinni þótt innviðauppbygging síðustu ára hafi verið bæjarfélaginu þung. Ég segi gjarnan við Fjólu Kristinsdóttur bæjarstjórann okkar, við sigrum þann vanda á fimm árum ekkert síður en Reykjanesbær gerði í miklu verri stöðu. Árborg er eins og ung hjón sem hafa ofreist sig og skulda of mikið eftir fjárfestingu lífsins. Framtíðin er björt og mikilvægt að öll bæjarstjórnin skuli sameina krafta sína og vinna sem einn maður að lausnum.

Fallegasti miðbær Íslands að rísa

Ég hitti marga gesti miðbæjarins og þeir halda vart vatni af hrifningu og spyrja gjarnan hvernig datt ykkur þetta í hug, hvernig varð þessi hugmynd að veruleika? Margir segja þessi miðbær er einstakur og þó er bara sýnishornið komið. Sumir heimsmenn segja þetta framtak vekja athygli um allan heim. Nú kemur gamla Selfossbíó aftur sem var okkar menningarhús í áratugi og hótel sem fylla bæinn af fólki árið um kring. Miðbærinn og Bæjargarðurinn trúlofast sem gefur okkur öllum glæsilegt útivistar og hátíðasvæði með nýjum brag. Við sjáum líka að athafnamenn fjárfesta heima. Árborg er ekki lengur bærinn með pulsuvagn og sundlaug, hér er stoppistöð og staður sem kallar ekki bara á ferðamenn komdu heldur alla þjóðina aftur og aftur.

Flesta daga eru þeir Valdimar Bragason eða Magnús Magnússon með hópa sem vilja fræðast um mðbæinn og söguna. Ég og Magnús Hlynur Hreiðarsson tökum einnig oft á móti hópum. Saga Selfoss er á þessum bletti, við hið gamla endurreista Sigtúnshús stendur Jarlinn sjálfur Egill Thorarensen og þaðan er gott að segja söguna með Ölfusárbrú og Tryggvaskála og Sefossbæinn skammt undan. Mjólkurbú Flóamanna, hið endurreista, er nú húsið sem allir þekkja og fagna. Með Flóaáveitunni hófst hin nýja saga þessa bæjar.

Hafið heila þökk Guðjón Arngrímsson og Leó Árnason sem ég nefni gjarnan ljón suðursins en Leó afi hans var ljón norðursins brilljant og einstakur í minni okkar sem eldri erum. Full ástæða er að nefna hér nafn hins norðlenska athafnamanns Kristjáns Vilhelmssonar og þakka honum það afl og þunga sem þarf til að svona ævintýri gerist. Það er mikilvægt þegar atorkusamir brautryðjendur kjósa að fjárfesta hér á Árborgarsvæðinu.  Árborg er nú höfuðborg nýsköpunar á Íslandi, eins og Selfoss varð undir handleiðslu Egils Thorarensen, Guðmundar Á Böðvarssonar og Grétars Símonarsonar um og eftir „blessað stríðið“.

 Til hamingju Árnesþing því framtakið slær birtu yfir heilt hérað.

Guðni Ágústsson

Nýjar fréttir