2.3 C
Selfoss

Stöðug söfnun í 70 ár

Vinsælast

Í dag, 1. júní, eru liðinn 70 ár síðan farið var að skrá gripi til Byggðasafns Árnesinga og safn varð til. Skúli Helgason frá Svínavatni sá um söfnunina og mótaði grunnsýningu safnsins sem var til 1995 á Selfossi en síðan í Húsinu á Eyrarbakka. Í aðfangabók Skúla eru fyrstu gripirnir skráðir 1. júní 1953 þegar hann tók við munum frá Arnarstöðum í Flóa. Stöðug söfnun hefur verið við safnið síðan og nálgast skráðir gripir á áttunda þúsund með undirsöfnum.

Í tilefni afmælisins setti safnið á fót Ásgrímsleiðina ásamt Listasafni Árnesinga sem heldur upp á 60 ára afmæli sitt og Listasafni Íslands. Minnt er á einn fremsta listamann þjóðarinnar sem fæddist í Árnessýslu og var Ásgrímur Jónsson (1876-1958) listmálari frá Rútsstaða-Suðurkoti í Flóa. Kynntir eru sögustaðir Ásgríms og söfnin þrjú sem tengjast Ásgrími, Listasafn Íslands sem varðveitir gjöf hans til þjóðarinnar, Listasafn Árnesinga sem varðveitir listaverk eftir hann og Byggðasafn Árnesinga í Húsinu á Eyrarbakka en þar dvaldi Ásgrímur í rúm tvö ár á mótunarárum sínum. Hvatt er til að ferðast um söfnin, uppeldisslóðir hans og vitja grafreits hans í Gaulverjabæjarkirkjugarði. Í borðstofu Hússins á Eyrarbakka er sýning um æsku Ásgríms, „Drengurinn, fjöllin og Húsið“.

Í tilefni 70 ára afmælis Byggðasafns Árnesinga hefur verið sett um vefsýning á síðunni www.sarpur.is sem er gagnagrunnur íslenskra safna. Þar er safnið kynnt ásamt vel völdum safnmunum úr safnkosti safnsins. Á sýningunni eru kynntir gripir úr öllum gömlu sveitarfélögum Árnessýslu. Mestallur safnkostur Byggðasafns Árnesinga er skráður í Sarp og geta allir áhugasamir kynnt sér gripi sem eiga sér uppruna í þessu stóra og fjölmenna héraði.

Stofnun Byggðasafns Árnesinga var á vegum Sýslunefndar Árnessýslu en núverandi eigandi safnsins er Héraðsnefnd Árnesinga, byggðasamlag átta sveitarfélaga sýslunnar.  Hlutverk safnsins er söfnun, varðveisla, rannsóknir og miðlun á menningaminjum héraðsins. Safnið heldur uppi grunnsýningu í Húsinu á Eyrarbakka, Eggjaskúrnum, Kirkjubæ og Sjóminjasafninu. Einnig sér safnið um Rjómabúið á Baugsstöðum. Innri aðstaða safnsins er að Búðarstíg 22 á Eyrarbakka. Við safnið starfa þrír fagmenntaðir starfsmenn auk lausráðinna starfsmanna yfir sumartímann.

Í söfnum er leitast við að svara spurningunni hver erum við? Hvert var fólkið sem byggði þetta samfélag? Söfn segja sögu með gripum og geyma í sér ákveðin minni. Söfn varðveita því menningu heilla byggðalaga og eru því samfélagslega mikilvæg.

Byggðasafn Árnesinga í Húsinu á Eyrarbakka, Kirkjubær, Eggjaskúrinn og Sjóminjasafnið á Eyrarbakka eru opin alla daga kl. kl. 10-17 og er sjón sögu ríkari.

Byggðasafn Árnesinga

Nýjar fréttir