4.9 C
Selfoss

Lúftgítarsólóið sló í gegn

Vinsælast

Jórukórinn frá Selfossi steig í fyrsta sinn á svið í Eldborgarsal Hörpu föstudaginn 5. maí síðastliðinn, á tónleikunum Syngjandi Vor. Jórukórinn, ásamt þrettán öðrum kvennakórum, tók þátt í landsmóti Gígjunnar, landssambands íslenskra kvennakóra sem haldið var af Kvennakór Reykjavíkur um liðna helgi og voru tónleikarnir liður í mótinu.

Jórukórinn tók lögin Góða nótt, með texta Páls Óskars Hjálmtýssonar og gamla Mánaslagarann Villi Verkamaður eftir Ómar Halldórsson í útsetningu kórstjórans, Unnar Birnu Björnsdóttur. Í seinna laginu tóku kórkonur ógleymanlegt lúftgítarsóló sem vakti mikla hrifningu tónleikagesta og uppskáru mikil fagnaðarlæti.

„Sat í Eldborgarsal Hörpu og hlýddi á kvennakóra landsins – verð að segja að þessar flottu konur voru hreint frábærar. En að öllum öðrum ólöstuðum þá fannst mér Kvennakór Hornafjarðar, Jórukórinn (sérstaklega í gamla góða Mánalaginu Villi verkamaður) og Kvennakór Ísafjarðar standa upp úr. Þetta er svo mynd tekin af (luft)gítarsólói Jórukórsins í Villi verkamaður sem þær fluttu svo snilldarlega.“ hafði einn tónleikagestur á orði í færslu á Instagram undir meðfylgjandi mynd af kórkonum í miðju sólói.

Tvö hundruð úkraínskar flóttakonur þáðu boð Gígjunnar á tónleikana, en tilgangurinn var meðal annars að kynna þær fyrir íslenskum kvennakórum og hvetja þær til að ganga til liðs við þá og í upphafi tónleikanna var konunum þakkað sérstaklega fyrir að hafa þegið boðið og fjölmennt í Eldborg.

Kórkonur kátar eftir frábæra tónleika í Eldborg.

Vortónleikar Jórukórsins verða á Hótel Selfossi miðvikudaginn 17. maí næstkomandi og lofa kórkonur miklu stuði og hvetja tónleikagesti til að taka undir í lögunum, finni þeir löngun til. Barinn verður opinn svo þeim sem vilja gefst færi á að gæða sér á söngvatni á meðan á tónleikunum stendur. Munu þær að sjálfsögðu endurtaka lúftgítarsólóin fyrir áheyrendur, ásamt ýmsum öðrum skemmtilegum uppákomum. Meðleikarar á tónleikunum verða þeir Tómas Jónsson á píanó, Óskar Þormarsson á trommur og Sigurgeir Skafti Flosason á bassa.

Forsala miða er hafin í Lobbýinu, hársnyrtistofu á Selfossi og verður að auki hægt að kaupa miða við dyrnar og hjá kórkonum.

Nýjar fréttir