3.9 C
Selfoss

Ógleymanleg Ítalíuferð kórs Menntaskólans að Laugarvatni

Vinsælast

Þann 19. apríl sl. hélt kór Menntaskólans að Laugarvatni, samtals 117 meðlimir ásamt 6 starfsmönnum, til Ítalíu í 6 daga tónleika- og skemmtiferð. Nánar tiltekið til Bolzano í Suður-Tíról, guðdómlegur staður umkringdur fjöllum, vínekrum og fallegum byggingum. Flogið var til München og tók við 4 tíma rútuferð eftir lendingu.

Á áfangastað komu þreyttir ferðalangar sem voru þó tilbúnir í að smakka ekta ítalskar pizzur og vorum við aldeilis ekki svikin af þeim. Daginn eftir fengum við leiðsögn um bæinn þar sem Erlendur Þór Elvarsson leiðsögumaður fræddi okkur um borgina og leiddi okkur um þröng strætin. Það var hlýtt í veðri þennan dag en þó rigndi af og til.Kórinn var beðinn um að syngja í þremur kirkjum á leið okkar sem var ágætis upphitun fyrir fyrri tónleikana sem voru á dagskrá um kvöldið. Tónleikarnir voru haldnir í tónleikasal tónlistarskóla Bolzano, sungin voru íslensk og ensk lög í bland ásamt því að kórinn tók ítalska lagið Bella Ciao. Heppnuðust tónleikarnir afar vel og þótti áhorfendum sérstaklega skemmtilegt að heyra kórinn syngja á ítölsku. Fengu þau dynjandi lófatak sem varð til þess að sungin voru þrjú aukalög.

Það var mikil spenna fyrir degi 3 þar sem á dagskrá var skemmtigarðurinn Gardaland. Keyrt var í tæpa tvo tíma í suðurátt. Spáin sagði rigning en við vorum mjög heppin og fengum fínasta veður og urðu flest andlit rauð og sælleg. Skemmtum við okkur vel í alls konar adrenalíntækjum sem glöddu mannskapinn.

Á laugardeginum vöknuðum við upp við skínandi sól og varð þetta heitasti dagurinn okkar. Frjáls tími var fram yfir hádegi og skelltu einhverjir sér á markað og í búðir á meðan aðrir náðu upp svefni. Síðan var lagt af stað til Bressanone þar sem við skoðuðum bæinn og borðuðum saman pasta fyrir seinni tónleika ferðarinnar. Þessir tónleikar voru haldnir í glæsilegri kirkju þar sem hljómburður var einstaklega fallegur. Góð mæting var í kirkjuna og tónleikagestir héldu sáttir út í nóttina.

Síðasta daginn okkar í Bolzano fórum við með kláf og lest upp til Soprabolzano og Costalovara/Wolfsgruben. Náttúrufegurð Alpanna er mögnuð þó að einhverjir hafi fundið aðeins fyrir lofthræðslu á leiðinni upp með kláfnum. Uppi í fjallaþorpinu fórum við á Plattnerhofsafnið sem er um 600 ára gamall sveitabær og nú einnig býflugnasafn. Fengum við einstaklega fræðandi kynningu um býflugurnar og innsýn inn í  bændasamfélagið sem menning Suður-Tíról er sprottin upp úr. Eftir kvöldmat var haldið af stað á farfuglaheimilið þar sem meðlimir kórsins voru með æfð atriði fyrir kvöldvöku, það voru sagðir brandarar, farið í leiki, samin ljóð og sungið. Hið fínasta lokakvöld á afar vel heppnaðri Ítalíuferð.

Skipuleggjendur ferðar sem og fararstjórar Eldhúsferða sem voru með okkur eru afar þakklát fyrir hvað allt saman gekk vel. Krakkarnir héldu hópinn, voru stundvís og fóru eftir reglum. Virkilega vel heppnuð ferð í alla staði þar sem kórmeðlimir voru skóla og landi til mikils sóma.

Margrét Elín Ólafsdóttir
Verkefnastjóri ML-kórsins

Nýjar fréttir