9.5 C
Selfoss

Ást og væntumþykja einkenna Hjartans mál

Vinsælast

Hólmfríður Ósk Samúelsdóttir er, meðal margs annars, kennari við Grunnskólann á Hellu og tónlistarkona. Hólmfríður, gjarnan kölluð Hófí, er dóttir Ástu B. Gunnlaugsdóttur og Samúels Arnar Erlingssonar. Eiginmaður Hófíar er Arnar Jónsson og eiga þau saman tvö börn, Ídu Maríu og Bastían.

Hófí hefur alls ekki setið auðum höndum undanfarna mánuði en hún fékk stórkostlegan hóp tónlistarfólks með sér í lið við gerð plötunnar Hjartans mál sem kemur út í sumar. Frumflutningur á lögum plötunnar verður á fjölskyldu- og tónlistarsýningu í menningarsalnum á Hellu þann 30. apríl kl 15:30 og í Midgard base camp á Hvolsvelli þann 1. maí kl. 17:00. Við ræddum við Hófí um tónlistina, ferlið á bakvið Hjartans mál og móðurástina sem drífur hana áfram.

Skráði sig sjálf í söngvakeppni 7 ára

„Ekki veit ég hvar þetta byrjaði! Tónlist hefur alltaf verið mér mikilvæg, ég sæki í tónlist og ég tengi við hana. Við fjölskyldan lifðum og hrærðumst í íþróttum og tónlist var alls ekki haldið að mér eða mikið í kringum mig þannig. Pabbi var íþróttafréttamaður og mamma var knattspyrnukona og ég fylgdi þeim í öllu og æfði svo íþróttir sjálf. Sumir segjast sjá í litum en ég hugsa held ég í melódíum. Mjög snemma hafði ég mikinn áhuga á textum laga og lærði þá alla. Tónlist hefur mikil áhrif á tilfinningar og líðan mína. Ég hlustaði á geisladiskana hennar mömmu og skoðaði albúmin spjaldanna á milli. Við sungum mikið í bílnum og ég byrjaði snemma að radda öll lög. Ég var víst mjög feimin þegar ég var lítil en ákvað 7 ára að skrá mig alveg sjálf í stóra söngvakeppni. Mamma og pabbi hummuðu mig af sér þar til ég var mætt upp á svið. Ég söng lagið um Línu langsokk hástöfum og sigraði keppnina. Flutti svo sigurlagið fyrir 10 þúsund áhorfendur kvöldið eftir og var beðin um að syngja á 100 ára afmælishátíð á Selfossi nokkrum vikum síðar. Eftir þetta segir mamma að ég hafi komið út úr skelinni og orðið mun ófeimnari. Feimni hefur aldrei háð mér svo ég muni en svona hljómar sagan,“ segir Hófí kímin.

Hófí brosmild og kát í náttfötum sem verða allsráðandi á fjölskyldu- og tónlistarsýningunni Hjartans mál. Ljósmynd: Helga Guðrún Lárusdóttir.

Ó María hafði keðjuverkandi áhrif

Hófí byrjaði bæði og hætti í tónlistarskóla þegar hún var 9 ára. „Mikil áhersla var á tónfræði sem mér fannst hræðilega leiðinleg. Ég lærði lögin alltaf utanað í tímum og sá ekki tilgang í að lesa nótur. Það var ekki hægt að læra eftir eyranu og ég kaus að hætta. Áfram glamraði ég á píanóið heima, aðallega þegar enginn var heima. Svo liðu árin og þegar ég meiddist á unglingsárum sem reyndi mikið á mig fór ég að sækja aftur í píanóið og byrjaði að semja lög. Vorið 2006 bað systir mín um leyfi fyrir að syngja lagið Ó María sem ég hafði samið ári fyrr í menntaskólakeppni. Um var að ræða nýtt lag við þekktan texta. Hún lenti í öðru sæti í Söngvakeppni framhaldsskólanna. Lagið vakti athygli og var gefið út, spilað í útvarpi, framleitt myndband, kom út á plötu og var í lok árs næst mest sótta lag ársins á tónlist.is (þá var ekki til spotify!). Ég fór í kjölfarið í FÍH þar sem ég lærði loksins smá tónfræði og söng,“

Ást og væntumþykja

Aðspurð hvaðan innblásturinn að gerð plötunnar hafi komið segir Hófí: „Innblásturinn er klárlega ástin til barnanna minna og væntumþykja mín í garð allra barna. Ég vinn með börnum alla daga og er með diplómagráðu í Velferðarvísindum (jákvæðri sálfræði) og ég hef einlæga trú á að allir geti og eigi að fá að blómstra í samfélagi eins og okkar. Mér finnst tónlistin frábært verkfæri til að breiða út mikilvægan boðskap og minna á hvað skiptir mestu máli. Mínir styrkleikar liggja í að semja melódíur og skrifa texta. Á hjartans mál tekst mér að flétta þetta saman, ástríðu mína og styrkleika.“

Bastían, Ída María, Regína og Sammi, börn systranna Hófí og Gretu. Ljósmynd: Helga Guðrún Lárusdóttir.

Tónlist fyrir óvær börn

„Að semja lög og texta er það skemmtilegasta sem ég geri. Það er ákveðin heilun í því og ofsalega sterk ástríða sem ég held að ég hafi ekki endilega valið mér. Hún er bara þarna svo sterk að ég verð bæði leið og óróleg þegar ég sinni henni ekki. Það verða að mínu mati til ákveðnir töfrar þegar texti og lag passa vel saman. Ég tala nú ekki um þegar útsetning og rödd fara laginu vel! Þetta eru hlutir sem ég pæli mikið í. Hljómsveitin mín SamSam gaf út breiðskífu 2014. Á þeirri plötu voru 14 lög eftir mig. Ég eignast dóttur mína 2015 og son minn 2018. Bæði börnin voru óvær og svefninn hjá okkur fór í algjört rugl. Sonur minn var mjög lasinn fyrsta árið og ég brann bara yfir. Ég glímdi við alvarlegt málstol, átti lengi erfitt með tala óbjagað og gat ekki lagt hluti á minnið. En þegar heilsan batnaði fann ég hvernig sköpunarkrafturinn helltist yfir mig og kom frá hjartarótum. Mig langaði að gera tónlist fyrir börn og texta sem segja sögur og búa yfir einlægni og góðum boðskap. Þarna urðu til lög og textar sem fjalla um mikilvægi hvíldarinnar og róa taugakerfið. Mikið hefur verið samið um ástina en ég samdi lög og texta um tengsl foreldra og barna. Á plötunni eru lög frá foreldri til barns og svo frá barni til foreldris. Textarnir fjalla til dæmis um það að mamma/pabbi elska barnið sitt alltaf, heitar en heitt sama hvað gengur á og börnin okkar elska foreldra sína skilyrðislaust og eru sjaldan að reyna að breyta okkur. Þetta finnst mér fallegur boðskapur sem við stundum gleymum í hröðu nútímasamfélagi,“ bætir Hófí við.

Hjónin Arnar og Hófí. Ljósmynd: Helga Guðrún Lárusdóttir.

Út fyrir þægindarammann í þriðja veldi

Hófí hefur átt fjögur lög á safnplötum og gefið út eina breiðskífu með hljómsveitinni sinni Sam Sam. „Þegar við gáfum út plötuna héldum við metnaðarfulla útgáfutónleika í Salnum Kópavogi sem gekk mjög vel og var afar skemmtilegt. Nú eru liðin 9 ár. Mér finnst ég mun berskjaldaðri í þessu verkefni. Þetta er allt út fyrir þægindahringinn í þriðja veldi myndi ég segja! En með mér eru maðurinn minn, systir mín og góðir vinir mínir. Þeir styðja mig og hvetja áfram og stækka verkefnið með sínum stórkostlegu hæfileikum. Ég klíp mig reglulega þegar ég hlusta á lögin og minni mig á að þetta sé í alvöru að verða að veruleika, að okkur hafi tekist að gera þetta.“

„Það sem hefur komið mér mest á óvart við þetta verkefni er kannski hvað það er mikilvægt að trúa á sjálfan sig og vera hugrakkur. Ég finn að mig langar að sýna börnunum mínum að mamma þeirra þori að láta drauma sína rætast og finni leiðir til að framkvæma. Það er rosalega auðvelt að finna afsakanir. Sérstaklega þegar maður er með fjölskyldu, sinnir öðru starfi, þarf að borga reikninga, hugsa um heimilið já og sofa vel,“ segir Hófí og hlær. „Það hefur komið mér skemmtilega á óvart hvað fólk er áhugasamt, hjálpsamt, viljugt til að styðja við og taka þátt í verkefninu mínu. Ég myndi segja að góðvild fólks og mitt eigið hugrekki sé það sem hefur komið mér mest á óvart og standi uppúr þessa stundina. Hæfileikar flytjendanna minna koma mér bara ekkert á óvart. Vissi af þeim allan tímann og er svo heppin að hafa þau með mér,“ bætir Hófí við.

Þá segir Hófí að forgangsröðun sé mikilvæg. „Það að spyrja sig mjög reglulega: Hvað skiptir mig máli? Hvers þarfnast ég núna? Hvað þarf ég að gera til að…? já og hvernig geri ég það…? – er ótrúlega mikilvægt! Maður hreinlega getur ekki leyft tittlingaskít að pirra sig eða leyfa mótlætinu að ræna mann gleðinni. Þá hefur maður einfaldlega ekki orkuna eftir sem þarf. Já maður þarf að velja vel í hvað maður setur orkuna sína.“

Náttföt, teppi, myrkvaður salur og kósí!

Fjölskyldu- og tónlistarsýningin Hjartans mál er miklu meira en tónleikar. „Þetta verða í senn tónleikar, samvera, fræðsla og skynfæraveisla! Við viljum skapa töfra og ró! Ætlum að fylla salinn af mottum, pullum, dýnum og koddum. Hvetjum gesti til að mæta í kósýfötum og með teppi, jafnvel bangsa. Flytjendur verða náttfataklæddir, salurinn myrkvaður. Norðurljósalampar og rafmagnskerti verða aðallýsingin. Sviðið á að líkjast stofunni heima og stemmningin verður bara mjög kósý! Við hvetjum fólk á öllum aldri til að koma saman. Það er öðruvísi að hlusta með lokuð augun, undir teppi, liggjandi í ömmufangi! Það stækkar lögin og upplifunina að skapa þessa umgjörð og stemmningu. Við segjum sögur sem tengjast textum laga og ræðum boðskap og innihald. Notaður verður skjávarpi og við leyfum gestum að skrifa svör á veggina! Ég veit ekki til þess að svona hafi verið gert áður og er ótrúlega spennt, já og smá kvíðin fyrir þessari frumraun okkar. Annað væri nú óvenjulegt held ég,“ segir Hófí.

Flytjendur Hjartans mál ásamt börnunum sínum. Ljósmynd: Helga Guðrún Lárusdóttir.

Fjölbreyttur hópur tónlistarfólks

Flytjendur verða fjölmargir. „Tónlistarhópurinn minn, Töfrar verða til, stígur opinberlega á stokk í fyrsta skipti en við erum á leið í mjög spennandi verkefni þar sem tónlist, sköpun og fræðsla fléttast saman. Hópinn skipa auk mín; Rakel Pálsdóttir, Ásta Björg Björgvinsdóttir og Glódís Margrét Guðmundsdóttir. Glódís spilar auk þess á píanó í öllum lögum. Systir mín hún Greta Mjöll og eiginmaðurinn minn hann Arnar Jónsson flytja nokkur lög og Arnar spilar auk þess á gítar. Óskar Þormarsson spilar á trommur og sér um hjartslátt laganna, sem er mikilvægt hlutverk í þessu verkefni! Unnur Birna Björnsdóttir spilar á fiðlu og syngur eitt lag. Maðurinn hennar hann Sigurgeir Skafti Flosason spilar á bassann. Nokkur barna okkar flytjenda syngja með í þremur lögum svo þetta er fjölbreyttur hópur,“ segir Hófí.

Að lokum mælir Hófí með bíltúr á Hellu og Hvolsvöll á sunnu- og mánudag. „Við hlökkum mikið til að hefja þessa vegferð í sveitinni og heimsfrumflytja lögin okkar. Hreinlega lofa góðri skemmtun og fallegum flutningi!“

Miðar á Hjartans mál eru fáanlegir hér.

Nýjar fréttir